Eik fasteignafélag hf

2022

Fagmennska, frumkvæði, léttleiki, áreiðanleiki
Eik fasteignafélag var stofnað árið 2002 í þeim tilgangi að sérhæfa sig í eignarhaldi og útleigu á atvinnuhúsnæði. Frá stofnun hefur félagið vaxið og dafnað sem fasteignafélag með áherslu á fjárfestingar í helstu viðskiptakjörnum höfuðborgarinnar.

Starfsemin
Lýsing hf. og Búnaðarbankinn stofnuðu Eik fasteignafélag 16. september 2002. Forstjóri Eikar er Garðar Hannes Friðjónsson en hann kom að strax í upphafi sem ráðgjafi og var fljótlega eini starfsmaður fyrirtækisins. Höfuðstöðvar félagsins eru í Sóltúni 26 í Reykjavík en að auki eru starfstöðvar í Smáratorgi 3 í Kópavogi og á Glerártorgi á Akureyri.
Eignasafn Eikar samanstendur af yfir 100 fasteignum með rúmlega 315.000 útleigufermetrum og er stærstur hluti þess skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Leigutakar Eikar eru yfir 450 talsins í rúmlega 600 leigueiningum. Þetta er fjölbreyttur hópur sem stundar ólíkan rekstur sem sést best á því að leigurýmin eru allt frá 15 fermetrum upp í nokkur þúsund fermetra. Stærstu leigutakarnir eru Húsasmiðjan, Flugleiðahótel, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Landsbankinn, Sýn, Síminn, Össur, Míla og Deloitte. Stærð Eikar ásamt traustum rótum hafa gert því kleift að njóta hagstæðra lánskjara sem hefur skilað sér til viðskiptavina í formi hagstæðra leigukjara. Einnig hefur stærðin gert mögulegt að bjóða viðskiptavinum upp á mikla breidd hvað varðar val á húsnæði og afnotamöguleika. Eik á atvinnuhúsnæði í helstu viðskiptakjörnum höfuðborgarsvæðisins sem og á völdum svæðum á landsbyggðinni. Félagið á, rekur og leigir út fasteignir sem leigðar eru traustum leigutökum og eru eignirnar vel samkeppnishæfar á leigumarkaði með tilliti til ástands og staðsetningar. Stærsti hluti eignasafnsins er í eigu félagsins en nokkrar fasteignir eru í eigu dótturfélaga Eikar.

Mannauður
Hjá Eik starfar 31 starfsmaður í 29,75 stöðugildum og þó að þetta sé ekki fjölmennur vinnustaður þá snertir starfsemin þúsundir Íslendinga dag hvern. Starfsmennirnir eru með fjölbreytta menntun og reynslu á fasteignamarkaði. Metnaður þess er alltaf að veita viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu og bjóða húsnæðislausnir í takt við mismunandi þarfir.
Fjöldi þeirra er starfa í fasteignum Eikar er mikill og viðskiptivinahópur leigutaka, sem heimsækir fasteignir félagsins, er enn stærri. Sóknarfæri Eikar til þess að beita sér til góðs fyrir samfélag og umhverfi liggja því að stórum hluta til í því að auðvelda leigutökum félagsins að stíga vistvæn skref og minnka vistspor eignasafnsins eins og kostur er. Það er fengur fyrir félagið að búa yfir mannauði sem er tilbúinn að vinna að stöðugum umbótum. Það er að eilífðarverkefni að lágmarka kolefnisfótspor frá starfsemi skrifstofu og stuðla að öruggu og heilsueflandi vinnuumhverfi en stjórn og starfsfólk Eikar nálgast þetta verkefni af opnum hug og eru opin fyrir nýjum lausnum og aðferðum.
Eik leggur ríka áherslu á góða stjórnarhætti og skýrt verklag. Á árinu uppfærði félagið siðareglur sínar auk þess sem stefna um mannréttindi og samfélagslega ábyrgð tók nokkrum breytingum. Félagið setti sér stefnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi sem jafnframt geymir sérstaka viðbragðsáætlun.

Samfélagsleg ábyrgð
Eik leggur áherslu á að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki á sama tíma og að skapa verðmæti og skila arði. Fyrirtækið vill vera efnahagslega ábyrgt, starfa innan þess lagaramma sem gildir, vera siðferðislega ábyrgt og vera eftirsóttur og öruggur vinnustaður.
Samfélagsleg ábyrgð felst í að fyrirtæki leggi sitt af mörkum til þess að stuðla að framförum í samfélaginu með því að gera meira en lög og reglugerðir krefjast. Fyrirtæki geta lagt sitt af mörkum með því að stuðla að aukinni velferð starfsmanna, viðskiptavina, hagsmunaaðila og samfélagsins í heild auk þess að huga að umhverfinu í gegnum daglegan rekstur. Samfélagið þarf á arðsömum og vel reknum fyrirtækjum að halda og sérhvert fyrirtæki þarf á heilbrigðu samfélagi að halda til þess að geta sinnt hlutverki sínu, vaxið og dafnað. Eik hefur einsett sér að nýta áhrifamátt sinn til þess að stuðla að sjálfbæru samfélagi þar sem bæði fólk og fyrirtæki geta vaxið og dafnað. Með sjálfbæru samfélagi er átt við auðlindir séu nýttar á ábyrgan hátt og að starfsemi og athafnir skerði ekki lífskjör komandi kynslóða. Það er ljóst að efnahagslegur vöxtur getur ekki farið út fyrir þau endanlegu takmörk sem náttúran setur, verkefni Eikar sem og annarra jarðarbúa, felst í því að takmörk náttúrunnar séu virt bæði í orði og verki. Eik lítur svo á að ábyrgir starfshættir gagnvart umhverfi og samfélagi séu ekki einungis siðferðisleg skylda félagsins heldur feli sú vegferð í sér fjöldamörg tækifæri sem og viðskiptalegan og efnahagslegan ávinning. Fyrri hluta árs 2020 setti Eik sér nýja öryggis- og heilbrigðisáætlun í samræmi við ákvæði reglugerðar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Markmið hennar er að tryggja öryggi á vinnustöðum og að farið sé í einu og öllu eftir gildandi lögum og reglugerðum um öryggis- og heilbrigðismál á vinnustöðum.

Eik
Daglegur rekstur heyrir undir forstjóra sem jafnframt situr í framkvæmdarstjórn en auk hans sitja þar Lýður Heiðar Gunnarsson, Árdís Ethel Hrafnsdóttir, Eyjólfur Gunnarsson, Guðbjartur Magnússon, Hrönn Indriðadóttir, Jóhann Magnús Jóhannsson og Rósa Hjartardóttir.
Stjórn félagsins skipa fimm einstaklingar sem eru kjörnir af hluthöfum en það eru þau: Eyjólfur Árni Rafnsson, Guðrún Bergsteinsdóttir, Hersir Sigurgeirsson, Kristín Friðgeirsdóttir og Ragnheiður Harðar Harðardóttir. Rekstur Eikar hefur gengið vel en félagið er hlutafélag í dreifðu eignarhaldi og er skráð í Kauphöll Íslands. Félagið hefur frá stofnun skilað hagnaði að undanskildum árunum 2008 til 2010.
Stefna stjórnar er að greiða árlega út arð sem nemur 35% af handbæru fé frá rekstri ársins að frádreginni þeirri fjárhæð sem nýtt er í endurkaup fram að boðun næsta aðalfundar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd