Eimskipafélag Íslands

2022

Um Eimskip
Eimskip er leiðandi alþjóðlegt flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi sem býður alhliða, flutningstengda þjónustu. Félagið býður vikulegar siglingar til og frá Íslandi, Evrópu, Norður-Ameríku og Færeyjum auk strandsiglinga í Noregi. Félagið sérhæfir sig í flutningi á kæli- og frystivöru um allan heim, bæði á sjó og landi, og hefur ferskur og frosinn fiskur spilað þar stórt hlutverk. Eimskip er með starfsemi í 18 löndum en auk þess býður félagið öflugar tengingar við eigið flutningakerfi sem útvíkkar kerfið um heim allan. Eimskip er skráð félag í Kauphöll Íslands. www.eimskip.is

Stiklað á stóru í sögu Eimskips
Eimskip var stofnað 17. janúar árið 1914, þar sem á fimmta hundrað manns komu saman í Fríkirkjunni í Reykjavík. Félagið var nefnt Óskabarn þjóðarinnar í fjölmiðlum sem töldu að með stofnun þess væri stigið eitt mesta heillaspor í sögu þjóðarinnar og sjálfstæðisbaráttu. Emil Nielsen var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri félagsins og ári síðar komu fyrstu tvö skip félagsins til landsins, Gullfoss og Goðafoss.
Nýjar höfuðstöðvar Eimskips við Pósthússtræti 2 voru teknar í notkun árið 1921 og áttu eftir að þjóna félaginu næstu 82 árin. Þess má geta að þessi glæsilega fimm hæða bygging var sú fyrsta á Íslandi sem var útbúin lyftu. Fyrsta kæli- og frystiskip Eimskips, Brúarfoss, var smíðað og afhent árið 1926 og lagði þar með grunninn að sérstöðu félagsins í flutningi á kæli- og frystivöru. Árið 1950 var nýr Gullfoss tekinn í notkun, fullbúið farþegaskip fyrir 209 farþega.
Árið 1968 flutti Eimskip vörugeymslu sína í Faxaskála í Austurhöfninni í Reykjavík eftir bruna í vörugeymslu félagsins við Borgartún árið áður. Faxaskáli var þá stærsta vörugeymsla landsins. Fyrstu erlendu vöruhús félagsins voru svo tekin í notkun árið 1971, staðsett í London og New York.
Í upphafi níunda áratugarins (1981) var 4.000 fermetra vörugeymsla tekin í notkun í Sundahöfn og eftir því sem leið á áratuginn urðu umsvif Eimskips erlendis sífellt meiri. Svæðisskrifstofur í Rotterdam í Hollandi og Norfolk í Bandaríkjunum opnuðu árið 1985 og ári síðar voru skrifstofur opnaðar í Gautaborg í Svíþjóð og Hamborg í Þýskalandi. Árið 1990 voru svo opnaðar skrifstofur í Þórshöfn í Færeyjum og í St. John‘s á Nýfundnalandi.
Á tíunda áratugnum opnaði Eimskip fleiri skrifstofur erlendis, í Immingham á Bretlandi árið 1991 og í Antwerpen í Belgíu árið 1999. Dótturfélagið TVG-Zimsen varð til árið 1996 eftir að Eimskip keypti Tollvörugeymsluna sem þá sameinaðist fyrirtækinu JES Zimsen, sem félagið keypti 12 árum áður. Í upphafi nýs árþúsunds opnaði Eimskip svo enn eina skrifstofuna erlendis, í Árósum í Danmörku.
Árið 2004 flutti Eimskip alla skrifstofustarfsemi sína úr Pósthússtræti og í Sundahöfn. Skipafélagið Faroe Ship í Færeyjum var keypt og skrifstofa opnuð í Qingdao í Kína. Mikil uppbygging hófst hjá félaginu í Noregi með kaupum á norska skipafélaginu CTG (Coldstore & Transport Group), en það varð síðar Eimskip Norway. Á árunum 2005-2008 voru smíðuð
fimm frystiskip og eitt keypt glænýtt en þrjú þeirra, Svartfoss, Holmfoss og Polfoss, eru enn í flota félagsins nú árið 2021. Áður en áratugurinn var úti höfðu verið opnaðar skrifstofur á Ítalíu, á Spáni, í Víetnam og í Japan auk þess sem frystigeymslur höfðu verið keyptar, bæði í Evrópu og í Norður-Ameríku. Eftir stórfellda endurskipulagningu félagsins árið 2009 tóku við frekari nýsmíðar á skipum auk sífelldrar bestunar á siglingakerfi félagsins.
Árið 2014 kom nýr Lagarfoss til landsins, á 100 ára afmælisári félagsins, og árið 2020 komu svo tvö ný skip, Dettifoss og Brúarfoss sem eru í dag stærstu skip íslenska kaupskipaflotans en þau eru einnig þau umhverfisvænustu pr. flutta einingu. Skipin voru tvö af þremur systurskipum sem smíðuð voru í Kína og afhent á árinu en þriðja skipið, Tukuma Arctica, er í eigu grænlenska skipafélagsins Royal Arctic Line. Eimskip og Royal Arctic Line hófu samstarf á árinu 2020 um samsiglingar milli Grænlands, Íslands og Skandinavíu sem markaði upphaf vikulegra siglinga milli Íslands og Grænlands.
Eimskip hefur verið í stöðugri framþróun frá upphafi og verið í fararbroddi á mörgum sviðum, hvort sem er varðandi nýjungar í tækni eða í innleiðingu nýjunga í starfsemi sinni. Í dag starfar Eimskip um allan heim, þó með skilgreindan heimamarkað á Norður-Atlantshafi, og er leiðandi flutningafyrirtæki á sjó og landi.

Eigendur og stjórnendur
Stærstu hluthafar Eimskips (eigendur yfir 5% hluta 1. janúar 2021) eru Samherji Holding ehf., Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi – lífeyrissjóður, Birta lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild.
Stjórnarformaður 5 manna stjórnar Eimskips er Baldvin Þorsteinsson og forstjóri er Vilhelm Már Þorsteinsson, en hann tók við af Gylfa Sigfússyni í upphafi árs 2019.

Starfsemi og mannauður
Millilandaflutningar
Siglingakerfi Eimskips er þétt og í sífelldri endurskoðun en félagið siglir vikulega til hafna í Evrópu og Norður-Ameríku. Helstu viðkomuhafnir eru: Þórshöfn í Færeyjum, Århus og Ålborg í Danmörku, Rotterdam í Hollandi, Bremerhaven í Þýskalandi, Fredrikstad í Noregi, Helsingborg í Svíþjóð, Nuuk á Grænlandi, Halifax í Kanada, Argentia á Nýfundnalandi og Portland (Maine) í Bandaríkjunum. Auk þess sinnir Eimskip strandsiglingum við strönd Noregs og er með tengingar inn í Eystrasaltið og til Suður-Evrópu í samstarfi við önnur skipafélög.
Eimskip rekur samtals sautján skip, bæði vöruflutningaskip og farþegaferjur (1. janúar 2021). Níu skipanna eru í eigu félagsins og átta þeirra eru leiguskip. Skipin skipta með sér fjölbreyttu og þéttu siglingakerfi félagsins sem tekur reglulegum breytingum til að besta bæði rekstur og þjónustu við viðskiptavini. Auk skipanna sautján sem Eimskip rekur siglir einnig áðurnefnt Tukuma Arctica, flutningaskip grænlenska skipafélagsins Royal Arctic Line, í áætlun félagsins milli Grænlands, Íslands og Skandinavíu.

Starfsemi innanlands
Starfsemi Eimskips er viðamikil á Íslandi, bæði í höfnum víða um land en einnig í akstursþjónustu. Eimskip rekur öflugasta dreifinet Íslands í innanlandsflutningi og eru afgreiðslustaðir í akstursþjónustu um land allt. Líkt og í millilandaflutningi er áhersla lögð á flutning og dreifingu kæli- og frystivöru en þó er slíkur flutningur alltaf aðeins hluti af heildarflutningi í innanlandsakstri. Öflug dreifingarmiðstöð er til húsa í Klettagörðum 15 í Reykjavík en þar er haldið utan um flutningaþjónustu innanlands. Auk vöruflutninga rekur Eimskip svo tvær farþegaferjur á Íslandi í nafni Sæferða sem bjóða áætlunarsiglingar á Breiðafirði.

Mannauður
Mannauður Eimskips, þekking hans og færni, er mikilvægasta auðlind félagsins. Hópurinn samanstendur af ólíkum einstaklingum sem sinna mismunandi störfum og búa að ólíkri reynslu og þekkingu. Með sameiginlegum gildum stillir hópurinn saman strengi, byggir öflugt félag og eftirsóknarverðan vinnustað með sterkri liðsheild og metnaði.
Hjá Eimskip starfa um 1.600 starfsmenn af yfir 40 þjóðernum í 18 löndum svo það má með sanni segja að félagið hafi á að skipa mjög fjölbreyttum hópi starfsfólks. Í ljósi starfseminnar er bakgrunnur og menntun starfsfólks mjög mismunandi enda um fjölmörg störf af ýmsum toga að ræða. Þjálfun og upplýsingagjöf til starfsmanna er mjög mikilvægur þáttur hjá Eimskip og heldur félagið úti fróðleiksmiðstöð á starfsmannavefnum sínum sem kallaður er „The Eimskip Academy“. Þar getur starfsfólk á einfaldan hátt aflað sér aukinnar þekkingar í formi lesefnis eða fyrirlestra eftir hina almennu nýliðakynningu sem allt starfsfólk fer í gegnum í upphafi.

Sjálfbærni
Stefna Eimskips í sjálfbærni var mótuð árið 2016 og birt árið 2017. Stefnan byggir á leiðbeiningum frá „Nasdaq ESG Reporting Guide“ sem gefnar voru fyrst út í mars 2017. Sjálfbærnistefna félagsins skiptist í þrjú áherslusvið: umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti.
Umhverfi
Eimskip var eitt af fyrstu fyrirtækjunum á Íslandi til að setja sér umhverfisstefnu árið 1991. Síðan þá hafa áskoranir á þessu sviði þróast hratt og umhverfismál eru sérstaklega mikilvæg fyrir heiminn og komandi kynslóðir. Árið 2015 undirritaði Eimskip yfirlýsingu um loftslagsmál sem felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum, mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðuna. Eimskip setti sér þá það markmið að minnka kolefnisspor sitt um 40% á flutta einingu til ársins 2030 og gefur ársfjórðungslega út umhverfisuppgjör sem kemur út samhliða fjárhagsuppgjöri félagsins.
Systurskipin Dettifoss og Brúarfoss auk hafnarkranans Straums eru dæmi um fjárfestingar sem gagngert er ætlað að leggja lóð á vogaskálarnar í vegferð félagsins að minnka kolefnisspor sitt. Skipin eru bæði búin sérstökum búnaði til að minnka losun köfnunarefnisoxíðs (NOx) og brennisteinsoxíð (SOx) út í andrúmsloftið og kraninn Straumur ber nafn með rentu þar sem hann er alfarið knúinn rafmagni og skilur því ekki eftir sig kolefnisspor í rekstri.
Eimskip leggur mikla áherslu á hagkvæma nýtingu orku og fylgist meðal annars grannt með orkunýtingu skipa sinna. Félagið var meðal fyrstu flutningsfyrirtækja heims til að hefja notkun rafrænna skipadagbóka (2014) en í þær eru meðal annars skráðar upplýsingar um olíunotkun, sorplosun og margvíslegar upplýsingar um staðsetningu og ferðaferil hvers skips.
Flokkun og endurvinnsla sorps hefur verið viðhöfð um borð í skipum Eimskips frá árinu 1988 og í allri starfsemi félagsins frá árinu 1991 með tilkomu umhverfisstefnunnar. Frá árinu 2015 hefur svo Eimskip mælt umhverfisþætti í rekstri og er flokkun sorps þar á meðal.

Félagslegir þættir
Eimskip hefur frá upphafi skuldbundið sig til að tryggja flutning á vörum og nauðsynjum til og frá landinu á öllum tímum. Sem samfélagslega mikilvægt fyrirtæki tekur félagið hlutverk sitt alvarlega og leitar sífellt leiða til að þjóna viðskiptavinum sínum og samfélaginu öllu sem best.
Eimskip leggur mikla áherslu á öryggi og forvarnir og setti sér öryggisstefnu árið 1997 sem stuðlar að öryggi starfsfólks og viðskiptavina. Félagið hefur meðal annars stutt við starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna með dyggum hætti allt frá stofnun hans 1985, styrkt íþrótta- og æskulýðsstarf fyrir börn, stuðlað að auknu öryggi barna í umferðinni með verkefninu „Með hjálm á höfði“ auk þess að vinna stöðugt að því að efla öryggi og vellíðan starfsfólks og viðskiptavina.
Eimskip setti sér jafnréttisstefnu árið 1997 og hlaut jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs tveimur árum síðar. Árið 2020 hlaut svo félagið jafnlaunavottun fyrir innleiðingu verklags, ferla og skilgreindra launaviðmiða til að tryggja að starfsfólk fái greitt jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.
Eimskip hefur í gegnum árin styrkt fjölda góðgerðarfélaga og félagasamtaka og stutt við menningarviðburði á Íslandi og erlendis. Eimskip setti sér styrktarstefnu árið 2020 sem endurspeglar markmið félagsins í sjálfbærni, jafnrétti, ábyrgum rekstri og góðum viðskiptaháttum.

Stjórnarhættir
Gildi Eimskips eru árangur, samstarf og traust og eru gildin höfð að leiðarljósi í starfseminni, hvort sem er gagnvart viðskiptavinum eða starfsfólki.
Eimskip var eitt af fyrstu fyrirtækjum á Íslandi sem settu sér opinbera gæðastefnu (1991) og lýtur starfsemi félagsins siðareglum sem samþykktar voru árið 2012. Þar segir meðal annars að markmið Eimskips sé: „að tryggja góða afkomu fyrir hluthafa með arðsömum vexti, skapa verðmæti fyrir viðskiptavini með framúrskarandi lausnum og þjónustu, vera framúrskarandi vinnustaður fyrir starfsmenn með öflugri liðsheild og metnaði og hlúa að samfélagi með samfélagslegri ábyrgð og minnkandi vistspori.“
Eimskip er aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, sem hefur það markmið að auka þekkingu á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, og efla getu fyrirtækja til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti.
Eimskip er einnig þátttakandi í „UN Global Compact“ sem er hvati Sameinuðu þjóðanna til samfélagsábyrgðar fyrirtækja og stofnana að því er varðar mannréttindi, vinnumarkað, umhverfi og aðgerðir gegn hvers kyns spillingu. Félagið hefur með þátttöku sinni skuldbundið sig til að haga sínum rekstri þannig að hin tíu grundvallarmarkmið „UN Global Compact“ verði samtvinnuð stefnu félagsins, menningu og daglegri starfsemi. Félagið hefur einnig skuldbundið sig til að tala fyrir „UN Global Compact“ og grundvallarmarkmiðunum tíu þar sem því verður við komið og segja árlega frá því hvernig framkvæmdinni miðar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd