Einhamar Seafood ehf.

2022

Einhamar Seafood er sjávarútvegsfyrirtæki sem framleiðir hágæða þorsk- og ýsuafurðir fyrir markaði í Bandaríkjunum, Bretlandi og Evrópu. Félagið starfrækir fiskvinnslu í Grindavík þar sem framleiddar eru afurðir úr besta mögulega hráefni sem völ er á. Eigendur félagsins eru hjónin Stefán Kristjánsson og Helena Sandra Antonsdóttir.
Einhamar Seafood var stofnað árið 2003 og var fyrst um sinn útgerðarfélag. Árið 2007 hóf félagið fiskvinnslu sem hefur vaxið jafnt og þétt og er Einhamar Seafood í dag meðal öflugustu ferskfiskframleiðenda á Íslandi. Hjá félaginu starfa um 70 reynslumiklir starfsmenn til lands og sjávar.
Undanfarin ár hefur framleiðsla fiskvinnslunnar numið um 5-6.000 tonnum árlega. Félagið vinnur þorsk- og ýsuafurðir en annar afli er seldur á fiskmörkuðum.
Sérstaða Einhamar Seafood felst meðal annars í því að fiskvinnslan vinnur aðeins línuveiddan fisk og selur aðeins ferskar afurðir. Áhersla er lögð á sjálfbærar veiðar og vinnslu, nýting hráefnis er 100% og eru allar aukaafurðir seldar á viðkomandi markaði.
Frá stofnun Einhamar Seafood hefur mikil framþróun átt sér stað í veiðum og vinnslu. Félagið hefur lagt sig fram um að vera í fararbroddi í innleiðingu nýrrar tækni og hefur unnið náið með samstarfsaðilum á því sviði.
Félagið er MSC vottað og hefur verið valið framúrskarandi fyrirtæki 2018-2021 af Creditinfo og fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2017-2021 af Keldunni.

Framkvæmdastjórn
Stefán Kristjánsson forstjóri, Alda Agnes Gylfadóttir framkvæmdastjóri, Helena Sandra Antonsdóttir skrifstofustjóri, Óskar Sveinsson útgerðarstjóri, Hafliði Hjaltalín Ingólfsson verkstjóri, Hermann Ingi Einarsson gæðastjóri/verkstjóri.

Aðalstjórn
Stefán Kristjánsson, formaður stjórnar, Helena Sandra Antonsdóttir og Sigurður Þór Snorrason.

Framtíðarsýn og stefna
Stefna Einhamar Seafood er að vera í fararbroddi í íslenskum sjávarútvegi og nýta nýjustu tækni til að hámarka afköst og gæði framleiðslu afurða úr sjálfbærum fiskistofnum umhverfis Ísland í sátt við umhverfi og samfélag.

Flotinn
Einhamar Seafood gerir út bátinn Gísla Súrsson GK-8 auk þess sem bátarnir Auður Vésteins SU-88 og Vésteinn GK-88 landa öllum þorsk- og ýsuafla til vinnslunnar. Bátarnir eru allir 15 metra langir og 30 brúttótonn af gerðinni Cleopatra 50, smíðaðir af Trefjum árin 2014 og 2018.
Bátarnir bera 14 tonn af fiski í lest í 460 ltr lágkörum. 3x rótor blæðikerfi er um borð sem og lyftukör fyrir meðafla. Þeir eru búnir Mustad beitingarvélakerfi með 20.000 krókum. Stór forkælir framleiðir 2 tonn af kældum sjó á klst. sem rennur í gegnum blæðikerfið til hreinsunar og forkælingar afla. Einnig er um borð krapavél sem framleiðir ísþykkni fyrir kör í lest og tryggir ferskleika frá veiðum til vinnslu.
Bátarnir eru gerðir út allan ársins hring, frá Stöðvarfirði stærstan hluta ársins en frá Grindavík á vertíð frá janúar til maí. Ársafli er um 1.800 tonn á hvern bát og meðalafli í hverjum róðri um 10 tonn.

Vinnslan
Fiskvinnsla Einhamar Seafood er staðsett í Grindavík í nálægð við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Nálægðin við flugvöllinn og gjöful fiskimið skiptir sköpum þegar tryggja þarf ferskleika afurða.
Viðskiptabátar Einhamar Seafood eru alla jafna í 14-18 klst. róðrum, höfn í höfn. Fiskurinn er síðan fluttur til vinnslunnar yfir nótt, hann unninn fyrir hádegi og afurðir komnar í flug til viðskiptavina í Evrópu og vestanhafs seinnipart sama dag. Degi síðar er hann kominn á disk neytenda. Meginreglan er sú að ekki líði nema 36 klst. að jafnaði frá því fiskurinn er veiddur þar til hann er kominn á borð neytanda.
Fiskvinnsla félagsins er búin nýjustu tækjum til vinnslu afurða og hefur lengi unnið með hátæknifyrirtækjum á þessu sviði. Árið 2020 var sjálfvirk vatnsskurðarvél, afurðaflokkari og pökkunarlína frá Marel tekin í notkun. Þessi viðbót stuðlar að aukinni afkastagetu, bættri nýtingu og fjölbreyttara vöruframboði.
Einhamar Seafood er eitt af leiðandi framleiðslufyrirtækjum á Íslandi sem framleiðir og selur inn á kröfuharða markaði sem vilja eingöngu línuveiddan fisk og MSC vottaðan úr sjálfbærum veiðum. Viðskiptavinir félagsins gera ríkar kröfur varðandi veiðarfæri, gæði, ferskleika og afhendingaröryggi og hafa margir hverjir verið í viðskiptum við félagið frá upphafi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd