Eining-Iðja

2022

Laugardaginn 15. maí 1999 var formlega gengið frá samruna Verkalýðsfélagsins Einingar og Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Félaginu var valið nafnið Eining-Iðja. Þótt þetta sameinaða félag eigi sér þannig séð ekki langa sögu stendur það á gömlum merg því félögin eiga sér hvort um sig langa og merka sögu í réttindabaráttu verkafólks á Akureyri. Sögu Iðju má rekja aftur til ársins 1936 og er stofndagurinn talinn 29. mars það ár. Verkalýðsfélagið Eining varð til 10. febrúar 1963 með sameiningu Verkakvennafélagsins Einingar og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar. Rætur Einingar ná þó mun lengra aftur og má segja að fyrsta fræinu hafi verið sáð árið 1894 þegar Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar, hið eldra, var stofnað. Þann 1. janúar 2008 gengu svo félagar í almennu deild Vöku á Siglufirði til liðs við Einingu-Iðju. Frá sama tíma tók einnig gildi sameining einstakra deilda Vöku við fjögur önnur félög í Eyjafirði. Félagsvæði Einingar-Iðju nær frá Fjallabyggð að vestan til Grýtubakkahrepps að austan ásamt Hrísey og Grímsey. Aðalskrifstofa Einingar-Iðju er á Akureyri en að auki rekur félagið skrifstofur á Dalvík og í Fjallabyggð. Félagið hefur einnig fulltrúa til þjónustu við félagsmenn í Hrísey og á Grenivík.
Eining-Iðja berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um þeirra réttindi og hagsmuni. Félagið heldur úti öflugri þjónustu fyrir félagsmenn, einnig er leitast við að tryggja þeim sem bestan aðgang að upplýsingum og þjónustu á heimasíðunni, www.ein.is.

Félagið
Félagið skiptist í þrjár starfsgreinadeildir og er hugmyndin með starfsgreinaskiptingu að nýta kosti bæði stórra og lítilla félaga. Deildirnar þrjár eru Matvæla- og þjónustudeild, Iðnaðar- og tækjadeild og Opinbera deild. Kostir þess að vera í stóru félagi eru til dæmis öflugur sjúkrasjóður, fjölbreyttari möguleikar í orlofsmálum og meiri slagkraftur í kjarabaráttu. Hins vegar getur verið erfiðara að virkja hinn almenna félagsmann í stóru félagi. Þetta vandamál eiga deildirnar að leysa því þær eru vettvangur þar sem fólk getur rætt sérmál sín. Með deildaskiptingunni eru fleiri virkjaðir til starfa fyrir félagið, félagsandinn innan hverrar starfsgreinar eflist og málefni félagsins standa nær hverjum og einum. Félagið hefur byggt upp mjög öflugt trúnaðarmannakerfi og eru trúnaðarmenn Einingar-Iðju, sem eru um 140, mikilvægir hlekkir í starfi félagsins. Við kosningu öðlast trúnaðarmaður um leið sérstaka lagalega vernd í starfi sínu, fær umboð félagsins til að fara með mál annarra og verður fulltrúi þess á vinnustaðnum. Meginhlutverk trúnaðarmanna er að gæta þess að lög og samningar séu haldnir á vinnustaðnum og vera tengiliður starfsmanna við stéttarfélagið. Félagsgjald er 1% af heildarlaunum félagsmanna, auk þess greiðir atvinnurekandi til félagsins sjúkrasjóðsgjald, fræðslusjóðsgjald og orlofssjóðsgjald. Hlutverk sjúkrasjóðs er að veita félagsmönnum fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum. Í langvinnum veikindum eiga félagsmenn rétt á dagpeningagreiðslum úr sjóðnum að loknum veikindarétti hjá vinnuveitanda. Verkefni sjóðsins er ennfremur að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar. Félagið á nokkrar sjúkraíbúðir í Reykjavík sem eru ætlaðar til leigu fyrir félagsmenn sem þurfa að dvelja í höfuðborginni á meðan þeir leita sér lækninga. Íbúðirnar eru leigðar eftir því sem félagsmönnum hentar.

Orlofsmál
Félagsmenn eiga kost á að fá orlofshús eða orlofsíbúðir á leigu á sumrin í öllum landshlutum og stundum erlendis. Þá eru einnig nokkrir góðir valkostir í boði yfir veturinn. Undanfarin ár hefur verið boðið uppá þrjár mismunandi ferðir fyrir félagsmenn. Utanlandsferð, ferð innanlands og eins dags ferð fyrir eldri félagsmenn. Þá hefur félagið haft í boði styrki sem kallast „Orlof að eigin vali” og hafa þeir verið vel nýttir af félagsmönnum. Frá árinu 2020 geta félagsmenn keypt niðurgreidda ferðaávísun sem tryggir bestu kjörin á gistingu á hótelum og gistiheimilum um allt land. Stéttarfélögin sem eiga aðild að „Frímann“ orlofshúsakerfinu sameinuðu krafta sína og komust að samkomulagi við fjölmörg hótel og gistiheimili víðs vegar um landið.

Fræðsla
Félagið er aðili að öflugum fræðslusjóðum: Landsmennt, Ríkismennt og Sveitamennt. Hægt er að sækja um styrki ef farið er á námskeið eða ef vinna er stunduð með styrkhæfu námi. Einnig er hægt að sækja um styrk vegna náms til aukinna ökuréttinda. Þá er veittur styrkur vegna tómstundanámskeiða, vegna íslenskunáms, vegna kaupa á hjálpartækjum fyrir lestrar- og ritstuðning og ferða- og dvalarstyrkir. Á hverju ári eru haldin nokkur trúnaðarmannanámskeið í samvinnu við önnur stéttarfélög. Félagið hefur einnig boðið upp á margskonar námskeið fyrir félagsmenn en á seinni hluta ársins 2019 var skrifað undir samstarfssamning við SÍMEY með það að markmiði að skapa enn fleiri möguleika fyrir félagsmenn til að sækja sér fræðslu og auka við starfstengda hæfni sína. Frá árinu 1998 hefur félagið verið með fræðslu í öllum tíundabekkjum á félagssvæðinu. Jafnframt hefur félagið verið fengið til að vera með fræðslu í framhaldsskólum.

„Til starfs og stórra sigra“
Laugardaginn 10. febrúar 2018 hélt félagið útgáfuhátíð í Hofi í tilefni af útkomu bókarinnar „Til starfs og stórra sigra“ – Saga Einingar-Iðju1906-2004. Þessi dagur var valinn því þann 10. febrúar, fyrir 55 árum, sameinuðust Verkakvennafélagið Eining og Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar. Til starfs og stórra sigra fjallar um 100 ára sögu Einingar-Iðju og er um 400 síður að stærð í stóru broti, prýdd fjölda ljósmynda sem margar hverjar hafa ekki birst áður opinberlega. Jón Hjaltason sagnfræðingur vann að ritun bókarinnar í fjögur ár ásamt þriggja manna ritnefnd, skipuð þeim Braga V. Bergmann, frá Fremri almannatengslum, Sigrúnu Lárusdóttur, skrifstofustjóra Einingar-Iðju og Þorsteini E. Arnórssyni, fyrrverandi formanni Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri og starfsmanni Einingar-Iðju frá stofnun núverandi félags.

Eining-Iðja á aðild að Starfsgreinasambandinu og Alþýðusambandi Íslands. Félagið tekur virkan þátt í starfi sambandanna og ýmissa annarra félaga og sjóða. Félagið á til dæmis stjórnarmann í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins, miðstjórn ASÍ og Stapa lífeyrissjóðs.
Allar nánari upplýsingar um Einingu-Iðju má finna á heimasíðunni www.ein.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd