Einingaverksmiðjan ehf.

2022

Einingaverksmiðjan hefur verið starfandi um langa hríð eða allt frá árinu 1994 þegar fyrirtækið var formlega stofnað. Megin starfsemin felst í því að framleiða forsteyptar einingar til byggingaframkvæmda og hefur orðið gríðarleg þróun og miklar tækniframfarir á því sviði frá því Einingaverksmiðjan hóf framleiðslu. Mikil þekking hefur orðið til innan fyrirtækisins og vöxtur þess hefur verið jafn og stöðugur í gegnum árin. Nú um stundir þykir á margan hátt hagkvæmara að reisa hús úr forsteyptum einingum. Ekki einasta fyrir umhverfið heldur einkum og sér í lagi hvað varðar endingu og byggingahraða. Önnur lönd í kring hafa lengi verið að nota þessa aðferð við að reisa húsbyggingar og það er í raun orðið mun algengara en að slá upp mótum og steypa á staðnum.

Starfsemin
Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir framkvæmdastjóri segir þó, að breytingar séu í farvatninu og byggingaverktakar séu í auknum mæli farnir að notast við forsteyptar einingar. Við þéttingu byggðar í borginni getur verið snúið að koma stórum byggingakrönum fyrir inni á þröngum lóðum svo þá er handhægt að notast við forsteyptar einingar. Einingaverksmiðjan býr yfir öflugum tækjabúnaði til að koma einingunum á sinn stað; auk þess sem margra ára reynsla og þekking kemur að góðu haldi.
Verkefnin eru fjölbreytt og það eru framleiddar einingar allt frá smáum einingum fyrir sumarhús upp í stærri fjölbýlishúsaraðir. Að sögn Guðbjargar er áhugi hennar á steinsteypu allt að því takmarkalaus. Hún er menntaður iðnaðarverkfræðingur með mikinn áhuga á húsbyggingum og elskar að vinna með góðum teymum. Sjálf hafði hún fest kaup á fokheldu húsi fyrir 10 árum sem var framleitt af Einingaverksmiðjunni. Hún vílar ekki fyrir sér að stýra vinnustað sem teljast mætti karllægur, en tímarnir eru breytast. Það sem skiptir mestu máli er að vinna með góðum teymum að krefjandi verkefnum.
Fyrirtækið stendur á tímamótum því til stendur að flytja verksmiðjuna á þessu ári frá Höfðanum suður í Koparhellu á Völlunum í Hafnarfirði. Verksmiðjuhúsnæðið, sem verið er að reisa við Koparhellu, verður mun stærra og aukið verður við tækjabúnað til að mæta þörfum viðskiptavina. Framtíðin hefur verið mörkuð á þessu sviði og sýnt að hús úr forsteyptum einingum verði byggingamáti hins nýja tíma. Gæðin og endingin eru ótvíræð og að sjálfsögðu er öllum kröfum um styrkleika og þéttleika mætt samkvæmt þeim stöðlum sem í gildi eru hér á landi.
Með því að fá hönnuði og arkitekta í þessa átt þá mun byggingaiðnaðurinn á Íslandi notast mun meira við forsteyptar einingar. Möguleikarnir eru endalausir og ekkert nema tækifæri í spilunum.
Einingaverksmiðjan er með sína eigin steypustöð og grunnefnið í steypuna er danskt sement sem hefur þótt endingargott þegar kemur að íslenskum húsbyggingum. Auk þess að smíða heilu húsin og blokkirnar úr einingum, þá framleiðir Einingaverksmiðjan plötur, svalir og stiga fyrir aðrar byggingar svo þjónustan er margs konar og framleiðslan fjölbreytt.

Áhrif veðurs
Allir vita hvernig veðurlag er á Íslandi og byggingaframkvæmdir eru háðar veðrum og vindum eins og mörg önnur starfsemi. Hvað Einingaverksmiðjuna áhrærir þá eru þau veðuráhrif í lágmarki þar sem verið er að framleiða vöru við kjöraðstæður. Hitastig og rakastig eins og best verður á kosið og þegar komið er að þeim tímapunkti að reisa þá skiptir veðrið minna máli.

Gæðaeftirlit
Gott eftirlit er með gæðum framleiðslunnar, tryggt að járnabinding sé rétt, allt sé á sínum stað, dósir, göt og annað tilheyrandi. Ef eitthvað er ekki eins og það á að vera þá er hægt að bregðast við því áður en einingin fer úr húsi.

Eftirspurn
Viðbrögð viðskiptavina sýna svo ekki verður um villst að Einingaverksmiðjan er á hraðri siglingu og mikil eftirspurn eftir vörunum. Eins og staðan er í dag þá annar fyrirtækið vart eftirspurn, en það mun breytast þegar flutningarnir hafa átt sér stað með tilheyrandi stækkun, þá eru horfurnar býsna góðar, þar sem nýja verksmiðjan mun auka afkastagetuna umtalsvert.

Mannauður
Milli 60 og 70 starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu og þar ríkir mikil samheldni um að ná árangri og uppfylla væntingar viðskiptavina. Markmið okkar er að vinna í öflugum teymum sem vinna daglega í stöðugum umbótum svo allir fái að njóta krafta sinna, því eins og Guðbjörg nefnir þá eru starfsmennirnir hjarta fyrirtækisins.
Það hefur áður komið fram að kynjahlutföll eru helst til ójöfn en aðeins þrjár konur starfa hjá fyrirtækinu í dag.

Framtíðarsýn
Að lokum er það sýn Guðbjargar á árangur fyrirtækisins að hafa starfsfólkið í fyrirrúmi. Virkja allt starfsfólk með skýra stefnu og skilja virðisstrauminn, þá gerast kraftaverkin og árangurinn skilar sér. Það skiptir miklu máli að hafa rétt fólk á réttum stað með skýr hlutverk og ábyrgð. Nýta tækni til að greina núverandi stöðu og ná enn lengra með því að horfa á áskoranir sem tækifæri í takt við að uppfylla væntingar og þarfir viðskiptavina. Það er mjög gefandi að leysa áskoranir sem skila auknu virði fyrir viðskiptavini, starfsfólk og eigendur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd