Ektafiskur ehf. er alfarið í eigu Elvars Reykjalín eins og verið hefur frá formlegri stofnun þess árið 2000. Ektafiskur ehf. var stofnaður upp úr fyrirtækinu Trausti sf. sem var rekið af sömu fjölskyldu í marga áratugi. Hér hjá okkur er það enn hefðin og handverkið sem ræður ríkjum, allur fiskur er handflakaður og saltaður eins og afi kenndi pabba, pabbi kenndi mér og ég er nú að kenna 5 kynslóðinni sem farin er að vinna við fyrirtækið.
Ektafiskur er til húsa að Hafnargötu 6, 621 Dalvík.
Starfsemin
Lítil breyting varð á starfsemi Ektafisks ehf. á árinu 2020 þrátt fyrir COVID-19. Við náðum að halda svipaðri sölu og undanfarin ár bæði innanlands og utan. Við vorum ekki bjartsýn á þetta ár vegna ferðaþjónustuhlutans hjá fyrirtækinu sem hefur verið mjög vaxandi undanfarin ár en okkur á óvart kom mikið af íslenskum ferðamönnum sem að sjálfsgðu gátu lítið ferðast erlendis en voru því duglegri að ferðast um eigið land. Ferðaþjónustan okkar samanstendur af veitingahúsinu Baccalá Bar sem er að mestu fiskistaður með áherslu á saltfiskrétti þar á meðal saltfiskpizzu sem er mjög vinsæl. Við rekum einnig vinsælt tjaldsvæði með mjög góðri aðstöðu með rafmagni, mörgum klósettum og sturtum. Einnig rekum við geysivinsæla heita potta í Sandvíkurfjörunni sem er eina sandfjaran á Norðurlandi sem snýr á móti suðri. Pottarnir eru opnir allan ársins hring frá kl. 9.00 á morgnana til kl. 22.00 á kvöldin. Hér á Hauganesi reka vinir okkar hjá Whales, tvo hvalaskoðunarbáta og er það elsta starfandi hvalaskoðunarfyrirtæki landsins. Við hjá Ektafiski bjóðum hópum upp á það sem við köllum Factory tour, þetta er aðallega stílað upp á erlenda ferðamenn og er mjög vinsælt. Þar förum við með þá í leiki, gefum snafsa og hákarl, segjum sögur og grín. Nú styttist í merkilegan áfanga hjá okkur í Ektafiski en fyrstu pakkningarnar fóru á markað í janúar 1991 þannig, að á næsta ári verður neytendapakkninga hlutinn í fyrirtækinu 30 ára. Höfum við staðið öll áföll af okkur gegnum árin þó oft hafi munað litlu.
Á sumrin þegar ferðaþjónustan er í hámarki eru 14 manns á launaskrá hjá fyrirtækinu.
Sérstaða
Sérstaða Ektafisk á markaði er að allur saltfiskur er unninn samkvæmt gömlu hefðinni og geymdur í salti í allt að 6 mánuði áður en hann er útvatnaður og pakkaður.
Við hjá Ektafiski erum dugleg að taka upp nýjungar. Það nýjasta hjá okkur er framleiðsla á saltsteini fyrir búfé úr afsalti sem kemur úr saltfiskvinnslunni. Í því salti er mikið af hollum efnum sem koma sér vel fyrir búfé.
Framtíðarsýn
Við erum bjartsýn á framtíðina, fyrirtækið styrkir sig í sessi ár frá ári og full ástæða til bjartsýni.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd