Elding hvalaskoðun

2022

Elding hvalaskoðun var stofnuð árið 2000 af hjónunum Guðbjörgu Kristjánsdóttur og Grétari Sveinssyni sem og börnum þeirra Rannveigu og Sveini Ómari. Fyrirtækið hefur allar götur síðan verið í eigu og stjórn fjölskyldunnar, og er það elsta sinnar tegundar á Höfuðborgarsvæðinu. Með fyrstu starfsmönnum fyrirtækisins var Guðlaugur Vignir Sigursveinsson skipstjóri sem á fyrstu árum fyrirtækisins bættist við eigendahópinn. 

Sagan
Í apríl árið 2000 keypti Elding hvalaskoðun ehf. 32 ára gamalt stálskip, Eldingu, sem hafði þá í nokkur ár verið notað sem aðstoðarskip fyrir fiskiflotann. Gerðar voru töluverðar breytingar á skipinu til þess að uppfylla kröfur um farþegaflutninga. Fyrsta árið var siglt frá Sandgerði. Árið eftir var útgerðinni fundinn staður í Hafnarfirði og siglt þaðan sumarið 2001. Næsta ár 2002 var öll starfsemin flutt til Reykjavíkur og hefur átt þar farsæla feril síðan. Árið 2007 sameinaðist Elding helsta samkeppnisaðila sínum, Hafsúlu, og varð þar með stærsta hvalaskoðunarfyrirtæki á Íslandi með fimm báta. Árið 2015 keypti Elding ásamt Torfa G. Yngvasyni fyrirtækið Sea Safari og hóf að gera út RIB, harðbotna hraðbáta, frá Reykjavík. Ári síðar stofnaði Elding og Sea Safari fyrirtækið Hvalaskoðun Akureyri ehf. og hóf hvalaskoðun frá Akureyri. Árið 2018 sameinaðist Hvalaskoðun Akureyrar fyrirtækinu Ambassador í nýtt félag Akureyri Whale Watching sem gerir úr sex farþegabáta.

Umhverfi og sjálfbærni
Elding leggur sig fram um ábyrga stjórnun í allri sinni starfsemi. Eðli málsins samkvæmt fer langstærsti hluti starfseminnar fram í náttúrunni, það er á sjó, og var strax í upphafi sameiginleg ákvörðun eigenda og lykilstarfsmanna að skipa umhverfismálum í öndvegi. Ætíð hefur verið unnið að umhverfisvottunarkerfi þar sem stöðugra úrbóta er krafist og leitað leiða til að minnka umhverfisáhrif af starfsemi fyrirtækisins.

Rannsóknir og fræðsla
Elding hóf að styðja við alþjóðlegar rannsóknir á hvölum í Faxaflóa árið 2007 bæði í samvinnu við Háskóla Íslands og erlenda háskóla. Markmiðið er að öðlast betri þekkingu á lífríkinu, öðlast skilning á félagsþáttum, fæðuvenjum, árstíðabundnum flutningum og áætla aldur og fjölda dýra. Þær upplýsingar sem fengist hafa með þessum rannsóknum hafa nú í á annan áratug stuðlað að betri þekkingu og dýpri skilningi á hegðun dýranna.

Starfsemin í dag og framtíðin
Vinsældir hvalaskoðunar við Íslandsstrendur hafa aukist hratt síðustu ár samfara fjölgun ferðamanna og vexti í ferðaþjónustu almennt, enda er það fyrst og fremst náttúran sem laðar að þann alþjóðlega hóp gesta sem sótt hefur landið heim. Stofnstærðir og fjöldi tegunda í hafinu kringum landið eru með þeim hætti að hægt er að stunda skoðunarferðir allt árið. Með réttum áherslum og markvissri nýsköpun er enginn vafi á því að enn eru sóknarfæri í þeirri tegund náttúruskoðunar sem Elding hefur sérhæft sig í og þangað verður róið með skýra og bjarta framtíðarsýn sem leiðandi fyrirmynd á sínu sviði og með virðingu við umhverfið að leiðarljósi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd