Element ehf. var stofnað árið 2016 utan um umboð fyrir krosslímt timbur (KLT) frá austurríska framleiðandanum KLH Massivholz GmbH. Stofnendur félagsins voru verkfræðingarnar Karl Sigfússon, Benedikt Ingi Tómasson auk feðganna Ólafs Torfasonar og Davíðs Torfa Ólafssonar eigenda Íslandshótela.
Stofnun félagsins kom í kjölfar þess að Karl og Benedikt höfðu tekið að sér bygginga- og verkefnastjórnun á tveimur hótelum í eigu Íslandshótela en burðarvirki hótelanna var krosslímt timbur. Þessi tvö hótelverkefni, þ.e. Fosshótel Jökulsárlón og Fosshótel Mývatn sem byggð voru 2015-2017 voru fyrstu stóru byggingarnar úr krosslímdu timbri á Íslandi, en bæði hótel eru með yfir 100 herbergi. Þetta gaf forsvarsmönnum Element sterkan grundvöll til þess að hefja sölu og innflutning á krosslímdu timbri á almennum markaði. Salan fór vel af stað og í kjölfar hótelanna sá Element um sölu, innflutning og reisingu á burðarvirki fyrir Lava Center á Hvolsvelli.
Eigendur og stjórnendur
Benedikt Ingi var framkvæmdastjóri Element fyrsta árið, kom því á koppinn og sá um rekstur þess. En í upphafi árs 2017 var Sverrir Steinn Ingimundarson, iðnaðartæknifræðingur ráðinn sem framkvæmdastjóri.
Í byrjun árs 2018 seldu Ólafur og Davíð sinn hlut í Element. Eigendur félagsins frá þeim tíma voru Benedikt Ingi og Karl en Sverrir Steinn kom inn sem 25% hluthafi.
Stjórn Element skipa eigendur félagsins Benedikt Ingi, Sverrir Steinn og Karl sem er stjórnarformaður.
Aðsetur
Aðsetur Element eru í einu af tignarlegustu timburhúsum miðbæjar Reykjavíkur, þ.e. Bankastræti 10.
Starfsemin
Element hefur boðið krosslímt timbur í stór sem smá verkefni frá upphafi reksturs. Það er þá notað í útveggi, innveggi, milligólf, þök og/eða stiga. Dæmi um önnur verkefni fyrir utan þau sem áður hafa verið nefnd eru Waldorfskólinn í Sóltúni, 30 sumarhús í Hálöndum fyrir ofan Akureyri, fjögurra hæða hótelíbúðahús á Hverfisgötu 78 Rvk., Siglingaklúbburinn Nökkvi á Akureyri, 16 Svansvottuð raðhús í Urriðaholti Garðabæ auk fjölda einbýlishúsa, sumarhúsa, viðbygginga o.fl.
Krosslímt timbur
KLH er einn af stærstu framleiðendum á KLT í heiminum og er brautryðjandinn í framleiðslu þess. KLH hefur framleitt KLT í yfir 30 þúsund byggingar um allan heim. Element hefur því sterkan og traustan birgja með mikla reynslu og tækniþekkingu í sínu fagi. Burðarvirkjahönnun og teiknivinna var til að byrja með öll í höndum austurrískra verkfræðinga, en árið 2019 kom Ingvar Rafn Gunnarsson, burðarþolshönnuður til starfa hjá Element. Eftir komu hans hefur Element séð um burðarvirkjahönnun langflestra verkefna sinna en með því fæst mun hærra þjónustustig, styttri boðleiðir og ánægðari viðskiptavinir.
Mikill vöxtur hefur verið í notkun á krosslímdu timbri á íslenska byggingamarkaðnum síðustu árin. Má það þakka þeim fjölmörgu kostum sem KLT hefur, s.s stuttur uppsetningartími, góð innivistfræði, létt byggingarefni auk þess að hægt er að lækka kolefnisfótspor byggingaframkvæmda með notkun á krosslímdu timbri.
Svansvottun
Árið 2020 fékk KLH Svansvottun á framleiðslu sína sem veitti Element þá sérstöðu að geta boðið Svansvottað krosslímt timbur á íslenskum markaði.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd