Elkem Ísland er kísilmálmsverksmiðja á Grundartanga við Hvalfjörð. Hjá fyrirtækinu starfa um 170 einstaklingar og eru 85% starfsfólksins búsett í nærliggjandi sveitarfélögum. Framleiðsla Elkem á Íslandi hófst árið 1979 þegar fyrsti ofninn var ræstur, en annar ofninn var ræstur ári seinna. Árið 1999 var þriðji og síðasti ofninn tekinn í gagnið. Elkem Ísland einsetur sér heiðarleika og vill stuðla að stöðugum framförum gagnvart því jafnvægi sem ríkja þarf á milli þess að nýta og vernda náttúruauðlindir. Elkem Ísland hefur sett það markmið að starfsemin verði með öllu kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 sem þýðir jafnframt að Elkem Ísland verður fyrsta kolefnishlutlausa kísilmálmsverksmiðjan í Evrópu. Heimasíða félagsins er www.elkem.is.
Kísilmálmur þjónar bættri orkunýtingu og orkuskiptum
Elkem Ísland framleiðir og selur kísilmálm (sem í daglegu tali er kallað FeSi eða kísiljárn) með um 75% kísilinnihaldi sem blandaður er með járni og öðrum frumefnum. Málmurinn er sérhæfður til íblöndunar í stáliðnaði og í járnsteypu og sérsníðir fyrirtækið framleiðslu sína fyrir viðskiptavini um allan heim og framleiðir nú um 170 mismunandi tegundir af málmi. Fyrirtækið notar vistvæna vatnsaflsorku við framleiðslu sína og er framleiðslan bæði vottuð samkvæmt gæðastjórnunar- og umhverfisstjórnunarstöðlum. Megnið af málminum fer í rafmagnsstál og annan búnað sem bætir orkunýtingu rafmótora, t.d. í rafbílum og vindmyllum. Þannig er framleiðsluvara Elkem Íslands mikilvæg fyrir orkuskipti heimsins, m.a. til þess að sporna við hnattrænni hlýnun. Starfsfólk Elkem Ísland eru því þátttakendur í að ná fram heimsmarkmiðum á sviði loftlagsmála.
Markaðshlutdeild heimsframleiðslu nærri 15%
Markaðshlutdeild Elkem Ísland á sviði sérvöruframleiðslu íblöndunarefna fyrir rafmagnsstál er eftirtektarverð eða um 12-15% af allri heimsframleiðslunni af þessari gerð kísilmálms. Þó svo að vörur félagsins sé hinum almenna neytanda um allan heim ekki sýnileg þá birtist hún þeim engu að síður í formi flestra tegunda rafmagnsbíla, heimilistækja með A+ (eða hærri) orkunýtingarstuðul, vindmyllum sem framleiða endurnýjanlega orku o.s.frv. Allt eru þetta vörur sem nauðsynlegar eru til að ná loftlagsmarkmiðum þjóða heims og undirstrikar því hlutverk starfsfólks Elkem Ísland í þeim orkuskiptum sem nú eiga sér stað.
Orkuendurvinnsla sem samsvarar notkun 60 þúsund heimila
Starfsemi Elkem Ísland losar umtalsvert af varma við framleiðslu kísilmálms. Hægt er að nýta varman sem glatast til að framleiða um 25 MW af rafmagni sem er um 20% endurheimt á notuðu rafmagni sem samsvarar notkun um 60 þúsund íslenskra heimila. Áformuð er orkuendurvinnsla á Grundartanga en með tilkomu hennar mun flutningskerfið styrkjast, draga mun úr orkutapi og færi á bættri nýtingu frá virkjunum landsmanna munu skapast. Orkuendurvinnsla á Grundartanga getur haft í för með sér aukna verðmætasköpun án nýrra virkjunarkosta. Þetta gæti verið fyrsta skrefið í gerð fjölnýtingaklasa á Grundartanga þar sem fyrirtæki færa sér í nyt ónýttar aukaafurðir annarra fyrirtækja til verðmætasköpunar. Hér eru á ferðinni mjög áhugaverð áform sem munu auka sjálfbærni á svæðinu og leiða til tækifæra við frekari úrvinnslu afurða og nýsköpunar.
Traustur vinnustaður
Elkem Ísland er traustur og eftirsóknarverður vinnustaður. Áherslur fyrirtækisins er að hafa fjölbreytileikann að leiðarljósi. Hjá Elkem starfa einstaklingar með mismunandi hæfileika, áherslur og bakgrunn og hefur það skilað Elkem góðum árangri ásamt því að styðja við gildi fyrirtækisins um stöðugar framfarir. Elkem Ísland leggur mikla áherslu á aðbúnað starfsfólks og öryggi þess ásamt sterkri fyrirtækjamenningu, hollustu, þjálfun og fræðslu. Stór hluti starfsfólks hefur unnið hjá fyrirtækinu í yfir 20 ár og hafa nokkrir náð 40 ára starfsaldri, en þeir voru við störf þegar verksmiðjan hóf rekstur. Elkem Ísland starfrækir skóla fyrir starfsmenn sem spannar þrjár annir og er yfirgripsmikið nám um rekstur og tækni í kísilmálsframleiðslu. Sátt og heilindi gagnvart starfsmönnum, samfélaginu og umhverfinu eru í hávegum höfð og stuðlað er að opnum og heiðarlegum samskiptum innan fyrirtækisins, sem sést til dæmis á því að Elkem Ísland var eitt fyrsta fyrirtækið í sinni grein sem hlaut jafnlaunavottun. Elkem Ísland hefur vinnubrögð straumlínustjórnunar að leiðarljósi sem miðar að því að skilgreina fagleg vinnubrögð, gera áskoranir sýnilegar og draga úr sóun í ferlum með því að efla starfsfólk við úrlausn vandamála. Þannig finnur starfsfólk sjálfbærar lausnir sem er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að umbótum í umhverfismálum sem þurfa að vera varanlegar. Fyrirtækið vinnur þess vegna markvisst að því að allar lausnir séu ekki einungis jákvæðar fyrir umhverfið heldur hafi einnig jákvæð fjárhagsleg áhrif og festist þar með í sessi.
Traustur bakhjarl – víðtækt viðskiptanet
Elkem Ísland er hluti af Elkem ASA samsteypunni sem er 115 ára gamalt norskt tækni- og nýsköpunarfyrirtæki. Elkem er, og hefur verið um langt skeið, einn af helstu framleiðendum kísilafurða á heimsvísu og er leiðandi í þróun sjálfbærra, umhverfisvænna lausna á því sviði. Viðskiptanet fyrirtækisins er mjög víðtækt. Nú eru framleiðslufyrirtæki Elkem 27 talsins, rannsóknarsetrin 13 og félagið rekur starfsemi í yfir 30 löndum. Hjá Elkem-samsteypunni starfa í dag um 6.200 einstaklingar og þar af starfa 450 manns í fullu starfi við rannsóknir og þróun. Elkem ASA er í dag í eigu China National Bluestar. Elkem ASA er framsækið fyrirtæki og hefur komið upp orkuendurvinnslu í mörgum af þeim verksmiðjum sem fyrirtækið rekur og nú síðast í Elkem Salten í Norður Noregi.
Verksmiðja Elkem á Íslandi er á Grundartanga við Hvalfjörð. Þar eru þrír ljósbogaofnar. Í ofnunum hvarfast kvars og járngrýti við kolefni og myndar kísilmálm blandaðan járni það er kísiljárn.
Árið 1977 hófust framkvæmdir við verksmiðjuna á Grundartanga í samvinnu íslenska ríkisins og norska stórfyrirtækisins Elkem. Ýtt var úr vör með byggingu tveggja ofna og var sá fyrri tekinn í notkun árið 1979 en sá síðari ári seinna. Þriðji ofninn og sá stærsti var tekinn í notkun árið 1999.
Þegar fram liðu stundir urðu nokkrar breytingar á eignarhaldinu og um tíma var félagið skráð á hlutabréfamarkað á Íslandi. Elkem eignaðist félagið að fullu árið 2003 og 2008 var nafni fyrirtækisins breytt í Elkem Ísland ehf. Eigandi Elkem Ísland ehf. er Elkem AS í Noregi sem síðan 2011 hefur verið í eigu China National Bluestar.
Fjölbreytni í framleiðslu
Meginafurð Elkem á Íslandi er kísiljárn eitt af undirstöðuhráefnum stáliðnaðarins. Það er ýmist notað til hreinsunar á stálinu eða sem blendiefni til þess að fá fram ákveðna eiginleika og hefur þannig umtalsverð áhrif á eiginleika og gæði stálsins.
Elkem á Íslandi hefur lengst af framleitt hefðbundið kísiljárn. Á undanförnum árum hefur félagið hins vegar aukið vöruframboð sitt einkum með framleiðslu á hreinna kísiljárni og býður viðskiptavinum sínum sérhæfðari vöru og þjónustu en fyrr. Með auknu úrvali er komið til móts við nýjar þarfir og kröfur viðskiptavina auk þess að þjóna framsæknum markaði með verðmætari afurð. Framleiðsla verksmiðjunnar er að langstærstum hluta seld til annarra Evrópuríkja.
Fagmennska í fyrirrúmi
Helstu hráefni til framleiðslu kísiljárns eru kvars, kol, koks, járnoxíð og timburkurl. Flest eru þau innflutt nema kurlið sem Sorpa framleiðir úr úrgangstimbri og kemur að hluta í stað innfluttra kola.
Framleiðsla kurlsins byggir á þróunarsamstarfi við Sorpu og er ein umfangsmesta endurvinnsla á Íslandi.
Elkem á Íslandi leggur áherslu á gott samband við birgja og gerir kröfu til þess að þeir búi yfir ríkum faglegum metnaði og séu samfélagslega ábyrgir. Til þess að koma til greina sem birgjar fyrir Elkem Ísland verða fyrirtæki m.a. að hafa skýra sýn á öryggis-, heilsu- og umhverfismál, búa yfir öflugu gæðastjórnunarkerfi og hafa metnað til þess að vera leiðandi á sínu sviði.
Sátt við umhverfi og náttúru
Elkem á Íslandi leggur áherslu á að fagmennska í stóriðju snúist um sátt. Sátt á hnattræna vísu og sátt við samfélagið í kring. Sátt við stjórnvöld, viðskiptavini og starfsfólk. Sátt við lífríki náttúrunnar og það jafnvægi sem ávallt þarf að ríkja á milli nýtingar náttúruauðlinda til verðmætasköpunar og verndunar þeirra fyrir ágangi og eyðileggingu.
Þessu markmiði er m.a. fylgt eftir með sérstakri umhverfisvöktun sem staðið hefur yfir um árabil. Vöktunin er í senn víðtæk og nákvæm og byggir á reglubundnum mælingum á helstu umhverfisþáttum svo sem loftgæðum, ferskvatni, gróðri, búfé, fjöru og sjávarlífi.
Þá hófst nýverið umfangsmikið verkefni sem miðar að því að helminga allan úrgang sem fer til urðunar. Fyrirtækið hyggst ná því markmiði með aukinni endurnýtingu, endurvinnslu og með því að huga sérstaklega að lágmörkun umbúða við innkaup og rekstur. Elkem á Íslandi vinnur einnig að því að endurbæta allt utanumhald á efnum og geymslu þeirra. Verkefnið er liður í að búa fyrirtækið undir vottun umhverfisstjórnunarkerfis samkvæmt staðlinum ISO 14001.
Traustur vinnustaður
Við hjá Elkem trúum því að upphaf allrar velgengni í rekstri grundvallist á starfsfólki. Þess vegna er mikil áhersla lögð á aðbúnað starfsfólks og öryggi þess ásamt sterkri fyrirtækjamenningu, þjálfun og fræðslu. Með stöðugri tækniþróun og breytingum á starfsaðferðum er nauðsynlegt að starfsmenn viðhaldi hæfni sinni og fái jafnframt tækifæri til að öðlast nýja þekkingu til að geta sinnt sem fjölbreyttustum störfum innan fyrirtækisins.
Flaggskip Elkem
Eftir ríflega þrjátíu ára rekstur verksmiðjunnar á Grundartanga er Elkem á Íslandi stolt af því að vera á meðal flaggskipanna í flota Elkem. Með öryggi og fagmennsku að leiðarljósi leggur fyrirtækið mikilvægt lóð á vogarskálar sáttar um framleiðslu hágæða málmblendis fyrir heimsbyggðina alla.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd