Emmessís

2022

Saga Emmessíss er samofin sögu Mjólkursamsölunnar. Framleiðsla á Emmessís hófst fyrir alvöru árið 1960 og naut gríðarlegra vinsælda. Fyrst í stað var ísgerðin bundin við að framleiða ísblöndu fyrir Dairy Queen ísinn sem þá var gríðarlega vinsæll. Framleiðslan kallaði á flókinn vélbúnað og fjölda starfsmanna. Áður en langt um leið var farið að pakka inn rjómaís með mismunandi bragðtegundum auk gömlu góðu íspinnanna sem voru sérlega vinsælir hjá börnum á sjöunda áratug síðustu aldar og njóta enn miklilla vinsælda, enda úrvalið talsvert meira í dag en það var þá. 
Fyrstu tólf árin var Emmessís til húsa á annarri hæðinni í mjólkurstöðinni en árið 1970 flutti ísgerðin í nýtt húsnæði við Laugaveginn sem hafði áður verið korngeymsla. Það þurfti að gera ýmsar breytingar á húsnæðinu til að það hentaði starfseminni. Ísgerðinni fleygði smám saman fram og mikil vöruþróun átti sér stað enda nokkur samkeppni á ísmarkaðnum. Nauðsynlegt þykir að brydda reglulega upp á með nýjungum til að gleðja þá sem vilja njóta þess að borða góðan ís, búinn til úr íslenskum rjóma. Ís er í eðli sínu gleðigjafi og Íslendingar hafa ávallt verið sólgnir í hann þrátt fyrir rysjótt veðurfar og misjafnlega sólrík sumur. Árið 1994 var Emmessís gert að sér fyrirtæki og tekið út úr rekstri Mjólkursamsölunnar. Árið 2007 seldi Mjólkursamsalan Emmessís og hefur fyrirtækið verið í einkaeigu síðan. Í dag er fyrirtækið í eigu 1912 ehf.

Starfsemin
Emmessís býr við þá sérstöðu að vera eina framleiðslufyrirtækið sem framleiðir ís úr íslenskum rjóma. Ólíkt því sem tíðkaðist í byrjun þegar fjöldi manns starfaði við ísgerðina þá hefur Emmessís á undaförnum árum verið að færa sig yfir í meiri sjálfvirkni. Vélar sjá núna um að koma íblöndunarefnum á sinn stað og pakka ísnum í neytendaumbúðir sem einnig þurfa að gleðja augað. Heildarstarfsmannafjöldinn hjá fyrirtækinu í dag er 30 manns. Það ríkir góður andi og fólk gengur að sínum verkum fumlaust og hefur fyrirtækinu haldist vel á sínu starfsfólki í gegnum tíðina. Hjá Emmessís starfar einnig fólk frá ýmsum löndum sem gefur fyrirtækinu fjölbreytilegan og fjölmenningalegan blæ. Jafningastjórnun er í hávegum höfð innan fyrirtækisins og góð samvinna á meðal allra. Emmessís rekur ekki lengur ísbúðir en leggur mikla áherslu á að þjónusta vel þær ísbúðir sem selja rjómaís og dreifir auk þess sínum rjómaís í neytendaumbúðum til verslana og annarra vítt og breitt um landið. 
Emmessís er með dreifingarmiðstöð bæði í Reykjavík og á Akureyri til að geta uppfyllt þarfir neytenda. Framleiðslan fer nú öll fram að Bitruhálsi 1. Með aukinni sjálfvirkni hverfa hin erfiðari og einhæfu störf og vinnan verður fremur eftirlit með framleiðlunni og tryggja að allt sé eins og það á að vera. Fyrirtækið býður starfsfólki sínu upp árshátíð á hverju ári og stendur fyrir minni viðburðum á stundum til að efla starfsandann og viðhalda starfsánægju.
Framtíðarsýn Emmessíss er í stuttu máli að halda áfram að framleiða fyrsta flokks hágæða rjómaís og mæta kröfum neytenda.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd