Endurhæfing – þekkingarsetur

2022

Þekkingarfyrirtækið Endurhæfing-þekkingarsetur var stofnað árið 2004 og var það þáverandi heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson sem hafði forgöngu um að veitt yrði sérhæfð endurhæfingarþjónusta fyrir ungt og fullorðið fólk með flóknar skerðingar og langvarandi stuðningsþarfir. Þjónustusamningur um þátttöku ríkisins í kostnaði við þjónustuna var í upphafi gerður við heilbrigðisráðuneytið en færðist síðar til Sjúkratrygginga Íslands.
Eigendur og rekstraraðilar eru hjónin Guðný Jónsdóttir sjúkraþjálfari og sérfræðingur í taugasjúkraþjálfun og Knútur Óskarsson viðskiptafræðingur. Fyrirtækið er til húsa að Kópavogsgerði 10 í Kópavogi. Allt húsnæði er innréttað og sérstaklega búið þeim tækjum og búnaði, sem nauðsynlegur er fyrir svo sérhæfða starfsemi, meðal annars innisundlaug.

Helstu burðarásar í starfsemi Endurhæfingar-þekkingarseturs:
1. Meðferð, forvarnir, ráðgjöf og önnur íhlutun við einstaklinga með fjölþættar skerðingar og langvarandi stuðningsþarfir
2. Velferðartækni
3. Ráðgjöf og stuðningur í nærumhverfi
4. Fræðsla, rannsóknir, þróun, samstarf

Þjónustunotendur, samstarf og gæðaþróun
Þjónustunotendur Endurhæfingar-þekkingarseturs eru ungt og fullorðið fólk með meðfæddan eða ákominn skaða, vegna slysa eða sjúkdóma, í miðtaugakerfi. Öll þjónusta er byggð á réttinum til heilsu og mannréttinda og lögð er áhersla á samstarf milli heilbrigðis- og félagslegra kerfa og samstarf þvert á fagstéttir. Áhersla er lögð á að styðja aðstandendur og aðstoðarfólk og að auka þekkingu og færni. Endurhæfing-þekkingarsetur veitir einnig þjónustu, samkvæmt samningi við Landspítala, til barna og ungmenna sem dveljast í Rjóðri, heimili fyrir langveik og langveik fötluð börn og einnig börn og ungmenni sem þarfnast umfangsmikillar endurhæfingar í kjölfar sjúkdóma eða slysa.
Þá veitir Endurhæfing-þekkingarsetur ráðgjöf og sérfræðiþjónustu á landsvísu, m.a. eftirfylgni með flókinni velferðartækni fyrir ungmenni og ungt fólk eftir útskrift frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Unnið er þverfaglega með öðrum stofnunum, bæði með börn, ungmenni og fullorðið fólk og í náinni samvinnu við aðstandendur. Er það í samræmi við þann sveigjanleika sem kallað hefur verið eftir í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Þeim þjónustu-notendum Endurhæfingar-þekkingarseturs sem eru greindir með CP (í. heilalömun, e. Cerebral palsy) og CP lík einkenni býðst að njóta kerfisbundinnar eftirfylgni með heilsu, líðan og færni, CPEF. Þetta er undirstaða þess að hægt sé að veita viðeigandi meðferð hverju sinni ásamt því að auka þekkingu á CP og afleiddum skerðingum. Mikil samvinna er við fag- og fræðimenn erlendis og má þar nefna Norðurlöndin, Bretland og Bandaríkin. Samstarfið tekur til rannsókna, fræðaskrifa, fræðslu og þróunar þjónustu innnan sérsviðsins.
Endurhæfing-þekkingarsetur er aðili að umfangsmikilli samnorrænni rannsókn CP-NORTH:
Living Life with Cerebral Palsy in the Nordic Countries? Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvaða áhrif það að vera með CP hefur á heilsu, lífsgæði, notkun heilbrigðisþjónustu, menntun, þátttöku á vinnumarkaði og efnahags- og félagslega stöðu yfir æviskeið. Íslenskir aðilar að rannsókninni eru Endurhæfing-þekkingarsetur, Æfingastöðin og Háskóli Íslands.

Starfsmenn og framtíð
Alls starfa12 manns hjá fyrirtækinu og eru fagaðilar m.a. með sérstaka þekkingu og sér-fræðiviðurkenningu á sviði taugasjúkraþjálfunar „Postural Management“ og hjálpartækja. Eftirspurn eftir þessari sérhæfðu þjónustu sem er sú eina sinnar tegundar á landinu er mikil og því miður er biðlisti eftir þjónustu alltaf langur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd