Endurskoðun Vestfjarða ehf.

2022

Endurskoðun Vestfjarða ehf. var stofnuð árið 2004 í Bolungarvík. Fyrirtækið hafði frá árinu 1990 verið starfandi undir nafninu Löggiltir endurskoðendur Vestfjörðum ehf. með starfsstöðvar í Bolungarvík, á Ísafirði og Hólmavík. Á árinu 2004 var Löggiltum endurskoðendum Vestfjörðum ehf. skipt upp í 2 fyrirtæki. Annað félagið hélt áfram starfsemi á Ísafirði undir gamla nafninu en nýja fyrirtækið Endurskoðun Vestfjarða ehf. tók við starfseminni í Bolungarvík.
Þann 1. desember 2009 keypti Endurskoðun Vestfjarða ehf. rekstur Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. á Ísafirði og hefur síðan þá rekið starfsstöðvar í nafni Endurskoðunar Vestfjarða ehf. bæði í Bolungarvík að Aðalstræti 19 og á Ísafirði að Hafnarstræti 9.
Þann 1. febrúar 2020 keypti Endurskoðun Vestfjarða ehf. rekstur Íslenskra endurskoðenda Vestfjörðum ehf. á Ísafirði og voru skrifstofur félaganna á Ísafirði sameinaðar undir einu þaki þann 1. október 2020.
Deloitte ehf. gerðist hluthafi í Endurskoðun Vestfjarða ehf. í ársbyrjun 2010. Endurskoðun Vestfjarða ehf. er í samstarfi við Deloitte ehf., sem er meðal fremstu fyrirtækja á sviði endurskoðunar og ráðgjafar. Samstarfið felst meðal annars í því að fá afnot af ýmsum hugbúnaði, svo sem uppgjörs- og endurskoðunarkerfi ásamt aðgangi að sérfræðingum og fræðslustarfi. Endurskoðun Vestfjarða ehf. útvistar nokkrum verkefnum til Deloitte ehf., en það eru í flestum tilvikum sérhæfð verkefni.
Í gegnum tengingu sína við Deloitte fær Endurskoðun Vestfjarða aðgang að nýjustu aðferðum við endurskoðun og aðgang að hugbúnaði sem tryggir samræmd og öguð vinnubrögð við endurskoðun á alþjóðavísu. Einnig felur endurskoðunaraðferð Deloitte í sér ríkar kröfur um óhæði allra sem starfa við endurskoðun, en óhæði er einn af hornsteinum endurskoðunarstarfsins. Óhæði er ein mikilvægasta forsenda starfsemi Endurskoðunar Vestfjarða ehf. Krafan um óhæði er sú að endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki (þ.e. starfsmenn sem hjá því starfa) skuli vera óháð viðskiptavinum sínum, bæði í reynd og ásýnd. Það skal vera svo til að það skapist aldrei þær aðstæður að hagsmunir eða hagsmunatengsl geti varpað rýrð eða vantrausti á þá vinnu sem endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki innir af hendi.

Starfsemi félagsins felst að mestu leyti í:
Endurskoðun og könnun ársreikninga
Gerð árs- og árshlutareikninga
Skattframtöl einstaklinga og fyrirtækja
Bókhaldsþjónusta og launaútreikningar
Ýmis staðfestingarvinna

Mannauður
Í dag starfa 15 starfsmenn hjá félaginu, þar af 3 löggiltir endurskoðendur og 9 viðskiptafræðingar
og 3 bókarar. Þar af starfa 3 viðskiptafræðingar við endurskoðunarvinnu. Í samræmi við lög um endurskoðendur nr. 94/2019 skulu endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sæta gæðaeftirliti á grundvelli áhættugreiningar eigi sjaldnar en á sex ára fresti í samræmi við ákvæði 31. gr. laga nr. 94/2019. Allir starfsmenn eru með ríkar endurmenntunarkröfur og starfa eftir siðareglum FLE.

Eigendur og stjórnendur
Eigendur Endurskoðunar Vestfjarða ehf. eru 7, þar af er eitt endurskoðunarfyrirtæki og þrír löggiltir endurskoðendur sem starfa allir hjá félaginu.
Eigendur Endurskoðunar Vestfjarða ehf. eru:
Jón Þorgeir Einarsson, löggiltur endurskoðandi
Elín Jónína Jónsdóttir, viðskiptafræðingur
Deloitte ehf.
Bjarki Bjarnason, löggiltur endurskoðandi
Vestur ehf.
Guðmundur Kjartansson, löggiltur endurskoðandi
Margrét Högnadóttir, viðskiptafræðingur
Stjórn félagsins skipa: Jón Þorgeir Einarsson, stjórnarformaður, Bjarki Bjarnason og Elín Jónína Jónsdóttir meðstjórnendur. Elín Jónína Jónsdóttir er framkvæmdastjóri.

Viðskiptavinir og velta
Viðskiptavinir félagsins eru þverskurður af efnahagslífi Íslands, allt frá því að vera einyrkjar til meðalstórra félaga. Viðskiptavinir félagsins eru bæði lögaðilar (74%) og einstaklingar (26%) og eru það í flestum tilvikum innlendir aðilar. Tekjur vegna vinnu fyrir einstaklinga eru aftur á móti lítill hluti af heildartekjum.
Aðrar tekjur félagsins koma frá vinnu við gerð árs- og árshlutareikninga félaga, skattframtala félaga og vegna starfa við bókhaldsþjónustu. Þjónustan felst að mestu leyti í aðstoð við uppstillingu ársreikninga, gerð rekstrarframtala, færslu bókhalds, afstemmingum, reikningagerð og launavinnslu ásamt ráðgjöf.
Frá stofnun félagsins hefur fjöldi starfmanna þrefaldast og veltan hefur aukist samsvarandi. Stærð félagsins hefur verið nokkuð óbreytt síðustu ár, en alltaf er stöðug aukning í verkefnum á hverju ári. Félagið er mjög vel sett varðandi menntun starfsmanna og býr yfir góðum mannauði til að takast á við verkefni framtíðar.
Endurskoðun Vestfjarða ehf. hefur frá árinu 2017 verið meðal þeirra fyrirtækja sem uppfylla ströng skilyrði greiningar Creditinfo á Framúrskarandi fyrirtækjum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd