Endurvinnslan hf.

2022

Endurvinnslan hf. var stofnuð árið 1989, skv. lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota drykkjarumbúða, Félagið skyldi starfa á landsvísu og hafa með höndum umsýslu skilagjaldsins, söfnun umbúðanna og endurvinnslu og förgun þeirra. Starfsemin þótti nauðsynleg til þess að taka á og sporna við einnota umbúðum í náttúrunni. Var því lagt á skilagjald á einnota drykkjarumbúðir úr plasti, áli, stáli og gleri. Ál, stál og plast hefur verið baggað og selt úr landi en gler notað í uppfyllingu hér á landi en stefnt er að því árið 2022 að flytja út gler til endurvinnslu.
Endurvinnslan er eitt fárra skilakerfa í heiminum sem tekur við beygluðum drykkjar-umbúðum, en slíkt er talið nauðsynlegt til þess að þær umbúðir liggi ekki áfram í umhverfinu. Árið 2020 voru flutt út 1450 tonn af plasti, 1520 tonn af áli og hefur fallið til 6.500 tonn af gleri. Á 30 árum hefur fyrirtækið tekið við um 3,3 milljörðum flaskna og dósa og eru meðaltals skil á þeim tíma um 84%, mest í áli og minnst í gleri. Starfsemin snýst því um umhverfis- og náttúrvernd. Í anda þess tók fyrirtækið upp ISO 14001 staðalinn 2015, er handhafi Kuðungsins 2016 og kolefnisjafnar eigin rekstur með gróðursetningu trjáplantna. Frá árinu 2015 hefur fyrirtækið tekið upp flokkun á öllu auka efni sem kemur inn í fyrirtækið og er þannig allur pappír og plast sem til fellur endurunnið. Mikilvægi Endurvinnslunnar er ekki síst í því að lágmarka kolefnisspor og minnka sóun á hráefnum. Þannig verður endurunnið ál að nýjum dósum og til þess þarf einungis 5% af þeirri orku sem færi í að framleiða nýtt ál auk þess sem það sparast hráefni.

Hlutverk
Samfélagslegt hlutverk Endurvinnslunnar er einnig mikið. Fjöldi aðila af vernduðum vinnustöðvum vinna í móttöku drykkjarumbúða og má þar nefna hjá skátum, Þroskahjálp, Fjöliðjunni, Plastiðjunni Bjargi o.fl. Þá er söfnun drykkjarumbúða fjáröflun fyrir skáta, íþróttafélög, björgunarsveitir, starfsmannafélög og ekki síst einstaklinga sem hafa lítið á milli handanna. Unnið er í að tæknivæða móttöku einnota drykkjarumbúða á stærri móttökustöðvum á landinu. Eru nú um 20 hraðvirkar talningarvélar í notkun. Ávinningur verður í formi betri talningar, flokkunar og vonandi til að auka hreinlæti á móttökustöðvum. Einnig er verið að reyna að ná til ferðamanna með því að taka í notkun söfnunarílát á helstu ferðamannastöðum. Með því er stefnt að því að fá sem bestu skil, þannig minnka sóun og fá hæsta fáanlega verð fyrir drykkjarumbúðirnar en Endurvinnslan lítur á einnota drykkjarvörur sem verðmæti en ekki sorp. Um 58 afgreiðslustaðir eru um allt land.

Stjórn Endurvinnslunnar og starfsmannafjöldi
Í stjórn Endurvinnslunnar eru Júlíus Þ. Jónsson, formaður, Lárus B. Sigurbergsson, Ívar Arndal, Salome M. Ólafsdóttir og Marta B. Baldursdóttir. Framkvæmdastjóri er Helgi Lárusson.
Starfsmenn félagsins eru um 34. Jafnlaunavottun var tekin upp 2014.
Vefsíða: www.endurvinnslan.is

Helstu eigendur Endurvinnslunnar hf. eru:

  • Fjármálaráðuneytið f.h. ríkissjóðs
  • Kaupmannasamtök Íslands
  • ÁTVR
  • CCEP Ísland ehf.
  • Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf.
  • Elkem Íslandi ehf.
  • Samkaup hf.
  • Hagar hf.
  • Krónan hf.
  • Alcan á Íslandi hf.
  • Bandalag íslenskra skáta
  • Samband íslenskra sveitarfélaga

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd