Eskja hf.

2022

Eskifjörður
Eskifjörður er lítill innfjörður inn úr Reyðarfirði. Bærinn á meiri sögu en margir aðrir því 1786 aflétti Danakonungur einokunarversluninni og tilnefndi sex kaupstaði á Íslandi. Eskifjörður var einn af þeim. Þar af leiðandi var verslun og viðskipi leiðandi atvinnuvegur staðarins til að byrja með uns fiskveiðar og vinnsla fóru að ryðja sér til rúms. Í kring um 1920 voru 15 til 20 smábátar gerðir út frá Eskifirði og unnu útgerðarmenn sjálfir sinn afla í salt. Saltfiskurinn var síðan seldur verslununum og öðrum fiskkaupendum. Einnig má nefna það að læknir Austfirðinga og sýslumaður höfðu aðsetur á Eskifirði auk þess sem Landsbankinn byggði þar upp aðalútibú sitt á Austfjörðum.

Eskja
Eskja er sjávarútvegsfyrirtæki á Eskifirði sem hefur verið leiðandi afl í íslenskum sjávarútvegi síðustu 70 árin. Fyrirtækið hét áður Hraðfrystihús Eskifjarðar og var stofnað 8. maí 1944. Markmiðið var að skjóta styrkum stoðum undir fábreytilegt atvinnulíf bæjarins. Stofnendur félagsins voru um þrjú hundruð einstaklingar og fyrirtæki á staðnum.
Hugmynd stofnenda var að frysta sjávarfang af bátum heimamanna og selja afurðir til kaupenda erlendis. Frysting á fiski var nýr möguleiki í fiskvinnslu sem menn vildu nýta sér og horfðu til framtíðar með.
Strax eftir að félagið var stofnað var hafist handa við að reisa frystihús í miðbæ Eskifjarðar en það var ekki tilbúið til vinnslu fyrr en 1948. Einkum var það skortur á byggingarefni sem tafði. Fljótlega fór að bera á því að hráefnisöflun til frystihússins gekk erfiðlega einkum vegna þess að útgerðarmenn á Eskifirði kusu frekar að fara á vertíð suður með sjó, til Hornafjarðar, Vestmannaeyja og Sandgerðis og landa þar.
Til að bregðast við þessu ákvað stjórn félagsins 1958 að láta smíða 120 tonna stálskip í Noregi og fékk það nafnið Hólmanes. Þetta hleypti lífi í starfsemi félagsins og fyllti stjórnarmenn slíku kappi að ákveðið var að semja um smíði á tveimur 220 tonna stálbátum til viðbótar.
Þetta ráðslag reyndist eitrað epli því þegar gengið var fellt um 60% þá reyndust þessar skuldbindingar félaginu ofviða. Það var því úr vöndu að ráða.

Alli ríki
Á Eskifirði hafði orðið til lítið útgerðarfélag sem hét Jón Kjartansson hf. Eigendur þess voru bræðurnir Aðalsteinn og Kristinn Jónssynir og hafði þetta félag keypt lítinn 70 tonna eikarbát sem fékk nafnið Jón Kjartansson. Þeir höfðu haslað sér völl í síldveiðum fyrst og fremst og malaði félagið gull enda hafði síldin dúkkað upp fyrir austan þessi árin.
Það varð því frystihúsinu til bjargar að þeir bræður keyptu mikinn meirihluta hlutafjár félagsins án þess þó að eldra hlutafé væri fært niður. Þar með tók Aðalsteinn Jónsson við forystu Hraðfrystihúss Eskifjarðar hf.

Uppbygging
Í framhaldi af þessu hófst mikið blómaskeið. Síldveiðar og söltun hennar yfirkeyrði allt samfélag á Eskifirði næstu árin. Frystihúsið var starfrækt nær eingöngu á vetrum en mjöl og lýsisvinnsla félagins varð fljótlega aðalstoð félagsins. 1966 var byggð ný mjöl- og lýsisverksmiðja á uppfyllingu í Eskifjarðarbotni og þótt síldin hyrfi um 1968 þá hefur hún malað gull úr loðnu, kolmunna, makríl og nú aftur síld.
Aðalsteinn var forgöngumaður þess að Hraðfrystihús Eskifjarðar hf., eignaðist einn af fyrstu skuttogurum sem komu til landsins. Auk þess var félagið í fararbroddi þeirra sem hófu veiðar á uppsjávarfiski, loðnu, kolmunna, makríl og síld, upp úr 1970.
Þegar umsvif félagsins voru hvað mest rak það sex skip, frystihús, mjöl og lýsisvinnslu, saltfiskvinnslu, skreiðarvinnslu og rækjuvinnslu. Auk þessa voru öflugar stoðdeildir við frumvinnsluna, véla-, rafmagns- og bílaverkstæði, netagerð og nótastöð.
Aðalsteinn Jónsson lét af störfum árið 2000 og hafa arftakar hans stýrt fyrirtækinu eftir hans dag, fyrst Elfar Aðalsteinsson, sem stóð fyrir verulegum breytingum á rekstri Hraðfrystihúss Eskifjarðar, hafði forgöngu með að nafni félagsins var breytt í Eskju hf. og réðst í það að sníða félaginu stakk eftir vexti. Hann lét af störfum 2004.
Í framhaldi af því keypti félag þeirra hjóna, Þorsteins Kristjánssonar og Bjarkar Aðalsteinsdóttur allt hlutafé Elfars og Kristins Aðalsteinssonar og hefur Þorsteinn verið forstjóri Eskju síðan. Þorsteinn hefur staðið fyrir endurnýjun skipaflota félagsins og nú hefur verið reist nýtt og nútímalegt uppsjávarfrystihús við hlið mjöl- og lýsisvinnslu, þannig að nú er starfsemi félagsins í landi öll á sama stað.

Eskja 2020
Á síðustu árum hefur félagið snúið sér eingöngu að veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski, loðnu, síld, makríl og kolmunna. Það á fjögur stór uppsjávarveiðiskip, Jón Kjartansson SU 111, Aðalstein Jónsson SU 11, Guðrúnu Þorkelsdóttur SU 211 og Jón Kjartansson II SU 311.
Í landi starfrækir félagið, mjöl og lýsisvinnslu, uppsjávarfrystihús og loðnuhrognavinnslu. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 130 talsins.
Framleiðsluvörur Eskju eru fyrst og fremst fiskafurðir til útflutnings, fiskimjöl og lýsi, fryst síld og makríll auk frystrar hrognaloðnu og loðnuhrogna.
Markmið fyrirtækisins eru að standa í fremstu röð, nota ávallt bestu framleiðslutækni sem völ er á og framleiða hágæðavörur úr íslenskum fiski fyrir kröfuhörðustu markaði heims. Þá leggjum við einnig ríka áherslu á fræðslu og endurmenntun starfsfólks okkar.
Eskja hefur frá fyrstu tíð haft það að leiðarljósi að umgangast fiskimiðin umhverfis Ísland af ábyrgð og virðingu í samræmi við lög og reglur og að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar.
Að lokum skulu dregin fram orð Alla ríka sem hann lauk hverjum fundi félagsins með:
,,Það er bjart framundan“.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd