Sveitarfélag Eyja- og Miklaholtshrepps nær yfir suðaustanvert Snæfellsnes. Í austri liggja hreppsmörkin við Haffjarðará, að Borgarbyggð. Í norðaustri eru mörkin dregin við Dalabyggð og skiptast þau við Vatnaleið í norðvestri við Helgafellsveit. Í vestri tengjast mörkin við sveitarfélag Snæfellsbæjar og í suðri blasa síðan við hinar víðfemu Löngufjörur frameftir strandlengjunni.
Eyja- og Miklaholtshreppur er dreifbýlt og friðsælt landbúnaðarsvæði með íbúafjölda í kringum 130 manns. Þar er hefðbundinn búskapur stundaður á um 20 lögbýlum en á nokkrum þeirra fer fram blómleg bygg- og kornrækt. Einnig eru reknar tvær stórar hestamiðstöðvar þar sem umsvifamikið ræktunarstarf er stundað. Á svæðinu eru tveir stórir þéttbýliskjarnar. Annar þeirra er við Miðhraun II þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár í ferðaþjónustu. Hinn þéttbýliskjarninn hefur myndast við Laugagerðisskóla sem rekin er grunn- og leikskóli. Félagsheimili sveitafélagsins er Breiðablik sem stendur steinsnar frá hinni vinalegu og fallegu Fáskrúðarbakkakirkju en í Breiðabliki er rekin gestamóttaka fyrir Snæfellsnes þar sem ferðamenn eru upplýstir um það sem er að gerast á Snæfellsnesi.
Öll innri málefni sveitarfélagsins eru í höndum fimm manna hreppsnefndar sem kosin er á 4 ára fresti.
Útvist og náttúrufar
Snæfellsnesið hefur löngum þjónað dyggilega hlutverki sínu sem einstök útivistarparadís í seilingarfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Þar er Eyja- og Miklaholtshreppur enginn eftirbátur hvað varðar aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Í heildina má segja að náttúrufarið einkennist af grösugum og búsældarlegum sveitum, þar sem stutt er á milli fjalls og fjöru. Á svæðinu má finna gjöfular veiðár eins og Haffjarðar- og Straumfjarðará þar sem renna má fyrir laxi og bleikju. Um Löngufjörur liggur síðan alkunn og mögnuð hestamannaleið en þar er nú hægt að komast í útreiðtúra undir leiðsögn. Athyglisverðar náttúruminjar eru nokkrar í sveitarfélaginu og telst þar frægastur stuðlabergshamar Gerðubergs í Hnappadal, sem nú er á náttúruminjaskrá. Snæfellsnesið býr að þeim náttúrkostum að hafa innan sinna marka flestar ölkeldur á Íslandi. Þar er um að ræða heilnæmar vatnsuppsprettur sem eiga uppruna sinn í iðandi kviku í iðrum jarðar og innihalda því töluvert meiri koltvísýring heldur en hefbundið lindarvatn. Innan marka Eyja- og Miklaholtshrepps má finna svonefnda Rauðamelsölkeldu sem staðsett er við samnefndan kirkjustað. Fyrir ferðalanga sem leið eiga um sveitarfélagið skal bent á að rétt við vestari hreppsmörkin, þar sem beygt er til norðurs yfir Vatnleið, má finna hina rótgrónu þjónustumiðstöð Vegamót. Þar hefur verið rekin ferðamannaþjónusta og veitingasala alveg frá árinu 1930.
Fjölbreyttur landbúnaður
Eins og fyrr greinir er fjölbreyttur landbúnaður stundaður í Eyja- og Miklaholtshreppi.
Þar sem Snæfellshólfið er hreint hólf hefur veirð mikið sótt í gripi héðan til kynbóta en jafnframt hefur í samfélaginu verið markvisst stunduð góð ræktun gripa sem sótt er í bæði í sauðfjárrækt og nautgriparækt.
Hrossarækt stendur einnig í miklum blóma en í sveitarfélaginu eru reknar tvær hestamiðstöðvar í stærri kantinum. Í Söðulsholti og Hrísdal standa nýreistar og myndarlegar reiðhallir þar sem stundaðar eru tamningar á milli þess sem sýningar fara fram. Óhætt er að segja að helsti vaxtarbroddurinn í landbúnaðinum liggi í umfangsmikilli ræktun og þurrkun á byggi og korni. Í því skyni hafa nokkrir bændur stofnað með sér einkahlutafélagið Yrkjar sem einbeitir sér að tæknivæðingu framleiðslunnar og hagkvæmri nýtingu afurðanna. Þess ber að geta að í sveitarfélaginu eru starfræktar tvær litlar hitaveitur sem hafa stutt við uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu.
Ferðaþjónusta
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustu í sveitarfélaginu eins og víða á landinu undanfarin ár. Ljóst er að mörg tækifæri eru í þeirri grein til framtíðar.
Hreppsnefnd frá 2018 til 2022
Eggert Kjartansson bóndi á Hofsstöðum, oddviti
Halldór Jónsson bóndi á Þverá
Katrín Gísladóttir bóndi á Minni Borg
Gísli Guðmundsson hrossa og ferðaþjónustubóndi á Hömluholti
Atli Sveinn Svansson bóndi á Dalsmynni, varaoddviti.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd