Fangelsismálastofnun ríkisins

2022

Hér á eftir verður fjallað um Fangelsismálastofnun og helstu breytingar á refsivist sem orðið hafa undanfarna áratugi. Refsivistarkerfið er sérstakt, svolítið afmarkaður kimi íslenskrar stjórnsýslu, hluti samfélagslegrar þjónustu sem nauðsynleg er hverju réttarríki. Frelsissvipting einstaklinga er ekkert grín og ekki má gleyma að stór hluti verkefna Fangelsismálastofnunar og fangelsanna snýst um að draga úr hugsanlegum skaða sem fangavist getur valdið. Hlutverk Fangelsismálastofnunar er grundvallað á lögum um fullnustu refsinga nr. 15/2016 og stofnunin heyrir undir dómsmálaráðuneytið.
Fjögur fangelsi eru starfrækt á Íslandi. Tvö lokuð, Fangelsið Hólmsheiði og Fangelsið Litla-Hrauni og tvö opin, Fangelsið Kvíabryggju og Fangelsið Sogni. Fangar hefja afplánun á Hólmsheiði. Fangelsið er gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun styttri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Á Litla-Hrauni eru vistaðir karlfangar með langa dóma fyrir alvarleg brot og fangar sem teljast hættulegir umhverfi sínu. Í opnu fangelsunum, Kvíabryggju og Sogni, eru vistaðir fangar sem afplána refsingar fyrir vægari brot, fangar sem eru komnir á seinni hluta afplánunar og hafa hegðað sér vel og ungir fangar sem hafa litla brotasögu að baki. Fangar í opnu fangelsi þurfa að vera tilbúnir til að takast á við vímuefnavanda sinn, taka þátt í endurhæfingu, stunda vinnu eða nám og skrifa undir samning við fangelsið þar um. Fangelsismálastofnun tók til starfa 1. janúar 1989 skv. lögum um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 og tók við af fangelsismáladeild dómsmálaráðuneytis og Skilorðseftirliti ríkisins. Samkvæmt núverandi lögum er hlutverk Fangelsismálastofnunar: Að sjá um fullnustu refsinga og önnur verkefni í samræmi við ákvæði laga um fullnustu refsinga og reglugerða settum samkvæmt þeim. Að hafa umsjón með rekstri fangelsa.

Í reglugerð nr. 240/2018 er nánar kveðið á um hlutverk stofnunarinnar, m.a.:
Að annast eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið og gert að sæta eftirliti, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar.
Að sjá um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta svo sem kveðið er á um í lögum og öðrum reglugerðum. Að annast önnur verkefni í samræmi við ákvæði laga og reglugerða, svo sem að halda utan um tölulegar upplýsingar á sviði stofnunarinnar og stuðla þar með að rannsóknum á sviði fangelsismála. Tilgangur með rekstri fangelsa er að fullnusta refsinga fari fram með öruggum og skilvirkum hætti og að sérstök og almenn varnaðaráhrif refsinga séu virk. Ennfremur að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli aðlögun dómþola að samfélaginu. Til að ná fram þessum markmiðum vinna sérfræðingar Fangelsismálastofnunar meðferðar- og vistunaráætlanir fyrir fanga. Í byrjun árs 2020 tók geðheilsuteymi til starfa innan fangelsanna en heilbrigðisráðuneytið ber ábyrgð á allri heilbrigðisþjónustu fanga. Þessi þjónusta hefur bætt meðferðarstarf og geðhjálp í fangelsum.
Undanfarna áratugi hafa orðið miklar breytingar á húsnæðismálum fangelsanna sem löngum voru í ólestri. Þetta stafar af markvissu starfi Fangelsismálastofnunar til að bæta aðstöðu fanga og starfsfólks. Segja má að í dag standi þau mál í eðlilegum farvegi, þótt nokkuð sé eftir varðandi Litla-Hraun.
Í upphafi var Fangelsismálastofnun til húsa að Sölvhólsgötu 4 í Reykjavík. Síðan var skrifstofan flutt í Borgartún 6 en 2015 flutti stofnunin að Austurströnd 5 á Seltjarnarnesi. Í byrjun störfuðu 8 starfsmenn á skrifstofunni en núna eru starfsmenn 19 talsins. Fyrsti forstjóri var Haraldur Johannessen. Núverandi forstjóri Fangelsismálastofnunar er Páll E. Winkel en hann var skipaður frá 1. janúar 2008. Tilkoma Fangelsismálastofnunar hafði í för með sér verulegar umbætur í fangelsismálum á Íslandi. Í samræmi við lög og reglugerðir var mörkuð stefna m.a. varðandi öryggismál, verkefni, verklagsreglur, starfsmannamál, umönnun fanga, fullnustumál, samskipti við lögreglu, dómstóla, aðstandendur og lögmenn.

Nútímavæðing íslenskra fangelsismála tók stór skref á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Það má að hluta rekja til tengsla við yfirstjórn fangelsismála á hinum Norðurlöndunum. Fullyrða má að umfangsmestu breytingarnar verði samfara setningu laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist. Þar var kveðið á um að stofnsett skyldi sérstök stjórnsýslueining, Fangelsismálastofnun, til að fullnusta refsingar og sjá um rekstur fangelsa. Þá opnaðist farvegur fyrir háskólamenntaða einstaklinga, lögfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa, afbrotafræðinga, ásamt öðru sérhæfðu fagfólki, til að starfa í málaflokki sem áður hafði ekki verið hátt skrifaður. Benda má á ákveðna hugarfarsbreytingu varðandi viðmót og umhyggju í garð þeirra sem sæta fangavist. Áður fyrr var það í besta falli áhugaleysi en í versta falli andúð sem almenningur og jafnvel starfsfólk fangelsa bar til fanga. Markvisst hefur verið unnið að því að breyta viðhorfinu til jákvæðari vegar. Ekki má gleyma að afplánun er refsing sem þar til bær dómstóll kveður á um og einstaklingur, sem hefur framið afbrot, þarf að lúta. Hins vegar er alls ekki við hæfi að refsingin verði þyngri vegna illrar meðferðar eða framkomu þeirra sem fullnusta hana eða starfa við fangelsin. Ekki frekar en að það er við hæfi að fangar þjáist vegna lélegs aðbúnaðar í fangavist. Stjórnvöld bera ábyrgð í þessu samhengi, þeim ber skylda til að vernda skjólstæðinga sína og búa þeim atlæti sem sómi er að. Þessi breyting í jákvæða átt hefur fengið byr í seglin með faglegri vinnubrögðum Fangelsismálastofnunar og þar með starfsfólks fangelsanna.
Tvö önnur lykilatriði er vert að minnast á varðandi starfsemi Fangelsismálastofnunar. Hið fyrra er þrepaskipting afplánunar. Með henni má segja að áhersla hafi verið lögð á að draga eins og unnt er úr vistun fanga í lokuðum fangelsum og nýta fremur opnu fangelsin, vistun á Verndarheimilinu og rafrænt eftirlit. Þessi þróun er snar þáttur í að nútímavæða refsivörslukerfið og gera það mannúðlegra. Það síðara varðar húsakost fangelsanna. Þar hafa orðið gífurlegar breytingar frá fyrri tíð. Gömul og óhentug fangelsi hafa verið aflögð og nýtt húsnæði eða endurbætt aðstaða tekið við.

Um áramótin 2020 voru samtals 132 skilgreind ársverk hjá stofnuninni. Þar af 18 skilgreind ársverk á aðalskrifstofu. Í fangelsunum voru samtals 108 ársverk, þ.e. 71 ársverk almennra fangavarða, 26 ársverk yfirmanna og 6 ársverk starfsfólks á skrifstofum fangelsanna.
Flest starfsfólk fangelsanna eru einkennisklæddir fangaverðir sem ganga vaktir, daga og nætur. Hlutverk þeirra er að gæta reglu og öryggis og halda uppi aga, auk þess sem þeir sjá um stóran hluta af þjónustu við fanga. Aðrir starfsmenn eru forstöðumenn, varðstjórar, deildarstjórar, verkstjórar, skrifstofufólk og fangaflutningsmenn í dagvinnu. Fangelsismálastofnun ákvarðar vistunarstað fanga í fangelsum landsins. Stofnunin getur heimilað fanga að ljúka afplánun utan fangelsis, annað hvort á Verndarheimilinu eða undir rafrænu eftirliti.
Fangelsismálastofnun veitir heimild og hefur umsjón með samfélagsþjónustu. Skilyrði samfélagsþjónustu eru m.a. að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað.

Heildarfjöldi afplánunarfangaplássa í fangelsunum í byrjun árs 2021 var samtals 171 og verða 177 þegar hús 1 á Litla Hrauni kemst aftur í fulla notkun. Ekki er æskilegt að nýta fangelsi meira en 95%.

  • Fangelsið Litla-Hrauni: 83 afplánunarpláss
  • Fangelsið Hólmsheiði: 52 afplánunarpláss
  • Fangelsið Sogni: 21 afplánunarpláss
  • Fangelsið Kvíabryggju: 21 afplánunarpláss

Fangelsismálastofnun ber ábyrgð á fjármálastjórn og mannauðsstjórn fangelsiskerfisins. Einnig ber stofnunin ábyrgð á skjalavörslu, tölfræði, rannsóknum endurkoma í fangelsi, samstarfi við önnur lönd, ráðningum starfsmanna, menntun fangavarða og svo mætti áfram telja.
Fangelsismál á Íslandi hafa tekið gífurlegum framförum undanfarna áratugi og einsýnt er að sú þróun heldur áfram. Varðandi starfsemi Fangelsismálastofnunar má nefna að áfram er unnið að umbótum á fangelsunum, verið er að endurskoða vaktakerfi fangavarða, samningar hafa verið gerðir við heilbrigðisráðuneyti um geðræna aðstoð við fanga og unnið er að endurskipulagningu á menntun fangavarða. Enn fremur, í samráði við dómsmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti, er unnið að því að efla menntun og vinnu fanga, efla meðferð vegna vímuefnavanda og stuðning varðandi atvinnuleit, húsnæðismál og endurkomu fanga út í samfélagið.

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd