Faxaflóahafnir

2022

Faxaflóahafnir sf. var stofnað 1. janúar 2005. Það á og rekur fjórar hafnir: Akraneshöfn, Borgarneshöfn, Grundartangahöfn og Reykjavíkurhöfn. Faxaflóahafnir byggja starfsemi sína á 100 ára hafnasögu, sem er í senn merkilegur og stór hluti af sögu þeirra sveitarfélaga sem standa að fyrirtækinu. Án hafnar hefði búseta eflaust þróast með öðrum hætti í Reykjavík og á Akranesi, en saga byggðarinnar og atvinulífs er samþætt hafnarstarfseminni. Fyrirtækið er sameign fimm sveitarfélaga: Akranesskaupstaðar, Borgarbyggðar, Hvalfjarðarsveitar, Reykjavíkurborgar og Skorradalshrepps. Það sem gerir fyrirtækið einstakt er að það er lykilaðili í þróun, uppbyggingu og rekstri mikilvægra innviða í flutninga og efnahagskerfi landsins. Nokkur vitundarvakning hefur orðið á undanförnum árum meðal almennings og fyrirtækja um mikilvægi hafna og hafnarstarfsemi. Þetta má m.a. sjá í aukinni aðsókn eftir aðstöðu á svæðum Faxaflóahafna. Fyrir utan útgerðir, flutningafyrirtæki og hafsækinn iðnað, stóran og smáan, hefur á undanförnum árum orðið mikill vöxtur í hafnsækinni ferðaþjónustu. Með þessum vexti fylgir aukið mannlíf og menning. Því er höfnin í rauninni orðin allt í senn sjávarútvegshöfn, ferðaþjónustuhöfn, afþreyingarhöfn og menningarhöfn. Fjölbreytt aðstaða gefur fyrirtækinu mörg sóknarfæri á mörgum sviðum mannlífsins og getur á þeim grunni látið gott af sér leiða í þágu eigenda sinna, almennings og atvinnulífs.

Mannauður
Faxaflóahafnir er ekki stór vinnustaður miðað við alla starfsemina sem er í kringum fyrirtækið. Í lok árs 2017 voru 67 fastráðnir starfsmenn hjá Faxaflóahöfnum sf. og hefur fjöldi þeirra haldist óbreyttur á milli ára. Því má í rauninni segja að Faxaflóahafnir byggja afkomu sína á traustu starfsfólki, öflugum mannvirkum, landrúmi og fjölbreyttum tekjustofnum.

Fjárfestingar og framkvæmdir
Á undanförnum árum hefur verið lagt í miklar fjárfestingar að hálfu Faxaflóahafna sf. til að styrkja innviðina. Harpa setur svip sinn á Gömlu höfnina en nú standa yfir framkvæmdir við Austurbakka, sem munu breyta ásýnd hafnarinnar með nýrri starfsemi og umsvifum sem blandast munu hefðbundinni hafnarstarfsemi. Gamla höfnin er eina höfuðborgarhöfnin Evrópu þar sem fiskvinnsla og útgerð er í forgrunni, það eru verðmæti og einkenni sem verður að varðveita. Sundahöfn er megingátt flutninga til og frá Íslandi. Þar sem flutningaskip eru að stækka þá er verið að vinna að nýjum viðlegubakka utan Klepps, þannig að Sundahafnasvæðið mun taka miklum breytingum á næstu árum. Þróunarhugmyndir á Akranesi til skoðunar og uppbygging á Grundartanga, en það atvinnu- og hafnarsvæði hefur stækkað og eflst, en þar starfa nú yfir 1000 manns.

Umhverfisstjórnunarkerfis vottun
Þann 12. september 2017, voru Faxaflóahafnir sf. fyrst hafna á Íslandi til að ná vottun fyrir umhverfisstjórnunarkerfi sitt í samræmi við alþjóða umhverfisstaðalinn ISO 14001. Kjarni staðalsins er að vinna að stöðugum umbótum til að reyna að draga úr umhverfislegum áhrifum. Vottunin er mikil viðurkenning á heildstæðri umhverfisstefnu Faxaflóahafna og veitir fyrirtækinu ákveðinn gæðastimpil.
Faxaflóahafnir hafa undanfarin ár unnið að ýmsum umhverfisverkefnum, enda eru fjölmargir þættir umhverfismála sem snerta uppbyggingu hafnarsvæða og hafnarreksturs. Umhverfisstefna Faxaflóahafna felur í sér að fyrirtækið ætlar að draga úr neikvæðum umhverfisþáttum í umhverfi sínu. Í því felst meðal annars að þekkja, vakta og stýra mikilvægum umhverfisþáttum í starfsemi fyrirtækisins og birta upplýsingar um árangurinn í Grænu bókhaldi. Grænt bókhald hefur verið haldið frá því árið 2006 og Útstreymisbókhald hefur verið haldið frá árinu 2016. Með því að taka upp virka umhverfisstefnu hefur fyrirtækið náð að auka umhverfisvitund starfsmanna, viðskiptavina og þjónustuaðila sinna. Þann 1. janúar 2016 var á grundvelli reglugerðar tekin sú ákvörðun hálfu Faxaflóahafna að öll skip sem tengst gætu landrafmagni yrðu að tengjast við höfnina. Samhliða þessu hefur verið unnið að því að styrkja rafdreifikerfi hafnarinnar þannig að unnt væri að þjóna þeim skipum sem mögulegt er að tengja rafmagni. Ísland hefur í loftslagsmálum undirgengist skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum um loftslagsmál og til þess að ná árangri á þeim vettvangi er ljóst að hafnir og útgerðaraðilar verða að taka þær skuldbindingar alvarlega. Þrátt fyrir að sjóflutningar séu almennt hagkvæmur flutningamáti þá eru tækifæri til að gera mun betur en gert er í dag á þessu sviði. Stjórn Faxaflóahafna hefur ályktað um að bann verði sett við notkun svartolíu í Norðurhöfum og fyrirtækið undirritað yfirlýsingar þess efnis.

Heilsa og öryggisstjórnunarkerfisvottun
Þann 23. desember 2019, voru Faxaflóahafnir sf. fyrst hafna á Íslandi til að ná vottun fyrir öryggisstjórnunarkerfi sitt í samræmi við alþjóða umhverfisstaðalinn ISO 45001. Það þýðir að fyrirtækið mun leggja í framtíðinni ríka áherslu á heilsu og öryggi á vinnustað. Starfsfólk verður hvatt til að taka virkan þátt í uppbyggingu á slíku stjórnunarkerfi. Þar að auki verður gerð krafa um öryggi almennings, viðskiptavina sem og okkar sjálfra. Það felur í sér að við séum alltaf eins vel undirbúin og hugsast getur. Hafnastarfsemi er flókin og margþætt starfssemi þar sem heilsa og öryggi þarf ávallt að vera í lykilhlutverki.

Jafnlaunavottun
Í desember 2019, voru Faxaflóahafnir sf. búnar að ná jafnlaunavottun. Faxaflóahafnir eru hafnarfyrirtæki og landeigandi sem leggur áherslu á að fyrirtækið sé vinnustaður þar sem hver einstaklingur er metinn að verðleikum eftir hæfn og frammistöðu. Jafnlaunastefna Faxaflóahafna er hluti af launastefnu fyrirtækisins og tekur mið af staðlinum ÍST 85/2012 um jafnlaunakerfi og viðeigandi lögum og reglugerðum. Í jafnréttisstefnu fyrirtækisins felst að uppfylla þarf viðeigandi kröfur laga og reglugerða sem og framfylgja leiðsögn stjórnvalda og eigenda. Fyrirtækið skuldbindur sig til þess að innleiða viðmið við ákvörðun launa sem tryggja að hver og einn fái greitt fyrir starf út frá verðmæti þess, óháð kyni. Ráðningar, laun og önnur umbun byggir ekki á grundvelli kynferðis, kynþáttar, stjórnmálaskoðana eða öðrum ómálefnalegum þáttum.

Samfélagsleg verkefni
Samfélagsleg ábyrgð er höfð að leiðarljós í daglegri ákvarðanatöku Faxaflóahafna sf. Fyrirtækið reynir að fremsta megni að hafa jákvæð áhrif á samfélagið með því að draga úr neikvæðum áhrifum af starfsemi sinni og hafa jákvæð áhrif á þróun samfélagsins með því að nýta sérþekkingu sína í þágu þess. Faxaflóahafnir er styrktaraðili að fjölda samfélagslegra verkefna á vettvangi hafs og hafnar, líkt og sjá má hér að neðan:

Sjóferð um Sundin: Þessi skemmtilega og lærdómsríka sjóferð er í boði Faxaflóahafna fyrir nemendur 6. bekkjar á Faxaflóahafnasvæðinu. Við skipulagningu á þessari sívinsælu sjóferð hefur fyrritækið fengið sér til liðs tvo aðila, Fjölskyldu og Húsdýragarðinn og Sérferðir (Special Tours). Verkefnið fer þannig fram að Fjölskyldu og Húsdýragarðurinn sendir auglýsingar um verkefnið í grunnskóla á Faxaflóahafnasvæðinu og sér um að skrá þátttöku skólanna. Þar að auki sér Fjölskyldu og Húsdýragarðurinn um að útvega leiðbeinendur í sjóferðirnar með nemendum og annast gerð námsgagna. Sérferðir (Special tours) leggur síðan fram skipakosti fyrir ferðirnar. Til að gera sjóferðina sem ævintýralegasta, þá er botnvarpa eða gildrur settar í sjóinn, til að ná upp sjávarfangi til að sýna nemendum.

Ljósmyndasýning Miðbakka: Undanfarin ár hafa Faxaflóahafnir sett upp veglega ljósmyndasýningu, ásamt þeim Guðjóni Inga Haukssyni, sagnfræðingi og Guðmundi Viðarssyni, á steyptum stöplum við Miðbakka. Það myndefni sem valið er hverju sinni á að gefa vegfarendum góða innsýn í þróun byggðar og hafsækinnar starfsemi. Ljósmyndasýningin hefur vakið mikla lukku meðal almennings og er orðin árlegur viðburður. Sýningin opnar rétt fyrir Hátíð hafsins og stendur fram að hausti. Sýningin í ár fjallar um 100 ára sögu Gömlu hafnarinnar í Reykjavík.

Hátíð Hafsins: Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð standa sameiginlega að framkvæmd Hátíð hafsins, sem haldin er fyrstu helgina í júní. Hátíðin er haldin sem ein af megin borgarhátíðum Reykjavíkurborgar, í þeim tilgangi að gefa fjölskyldufólki tilefni til að heimsækja hafnarsvæðið og kynnast störfum sjómanna. Hátíðin er fjölskylduhátíð með áherslu á að fólk þurfi ekki að greiða inn á viðburði eða dagskrá hátíðarinnar.

Hafnir
Hafnir og skip hafa ávallt aðdráttarafl enda vettvangur lífsbjargar þjóðarinnar. Það er mikilvægt verkefni Faxaflóahafna sf. til lengri tíma að þróa hafnarsvæðin þannig að þau styðji við hafnsækna starfsemi hvort heldur er í flutningum, útgerð, fiskvinnslu, ferðaþjónustu eða annarri starfsemi. Verkefnið er einnig að skapa vettvang þar sem almenningur geti notið útivistar og nálægðar við hafnarstarfssemina. Starfið er margt en spennandi verkefni framundan!

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd