Félag iðn- og tæknigreina var stofnað 15. júní 2003 en saga FIT er þó í raun miklu lengri því félög sem sameinuðust í FIT eiga sum hver rúmlega 100 ára sögu.
FIT er félag iðnaðarmanna
Félagar í stéttarfélaginu eru rúmlega 5.000 sem flestir koma úr eftirtöldum greinum; Bygginga- og mannvirkjagreinum, farartækja- og flutningsgreinum, málm-, véltækni- og framleiðslugreinum, þjónustugreinum, náttúrunýtingu, hönnun og tækniteiknun. Styrkur Félags iðn- og tæknigreina felst m.a. í fjölbreytni og stærð. Félagið kemur að gerð kjarasamninga fyrir sína félagsmenn og sinnir margþættu hlutverki og skyldum í þágu félagsmanna. Kjör og réttindi félaganna eru lykilverkefni FIT og berst því fyrir bættum kjörum og lífsgæðum allra félaga. Stjórn FIT skipa 13 aðilar, kjörnir til tveggja ára á aðalfundi. Trúnaðarráð FIT er skipað 37 aðalfulltrúum og 37 til vara. Þá eiga trúnaðarmenn starfsfólks á vinnustöðum sæti í trúnaðarráði. Formaður FIT er Hilmar Harðarson. Aðalfundur FIT kýs einnig fulltrúa í fulltrúaráð þeirra lífeyrissjóða sem félagsmenn eiga aðild að samkvæmt kjarasamningum.
FIT er aðili að Samiðn, sambandi iðnfélaga og Alþýðusambandi Íslands og kýs fulltrúa úr hópi félagsmanna til að sitja þing Samiðnar og ASÍ. Einnig er FIT aðili að norrænum sem og alþjóðlegum samtökum.
FIT rekur mælingarstofur í byggingargreinum.
FIT eykur lífsgæði
Starfsfólk FIT býr yfir margvíslegri sérfræðiþekkingu sem kemur félagsmönnum til góða við úrlausn margvíslegra mál m.a. vegna kjarasamninga, menntamála, sjúkrasjóðs, orlofsmála, launakrafna, vinnumarkaðs og vinnueftirlits. Starfsfólk veitir félagsmönnum góða og hraða þjónustu og rekur í því skyni fimm skrifstofur og veitir lögfræðiaðstoð ef á þarf að halda. Þjónustuskrifstofur félagsins eru á eftirtöldum stöðum; Stórhöfða 31 í Reykjavík, Kross-móa 4 í Reykjanesbæ, Austurvegi 56 á Selfossi, Kirkjubraut 40 á Akranesi og Heiðarvegi 7 í Vestmannaeyjum.
Styrkir og sjóðir
Meðal þess sem félagið sinnir í þágu félagsmanna er rekstur sjúkrasjóðs, menntasjóðs, orlofssjóðs og vinnudeilusjóðs. Sjúkrasjóður greiðir 90% af launum eftir að kjarasamningsbundnum veikindarétti lýkur hjá atvinnurekenda. Aðstandendur geta sótt um dánarbætur. Einnig geta félagar sótt um ýmsa styrki og styður sjóðurinn félagsmenn á ýmsan uppbyggilegan hátt með áherslu á heilsueflandi þætti.
Menntasjóður greiðir styrki til náms, endurmenntunar og til almennar fræðslu. Endurmenntunargjald félagsmanna rennur til Iðunnar – fræðsluseturs þar sem félagsmenn geta sótt ýmis niðurgreidd námskeið til að bæta hæfni sína. Sjá nánar: idan.is.
Orlofssjóður á og rekur yfir 30 orlofsbústaði vítt og breytt um landið sem og hús í Florida þar sem félagsmenn geta notið dvalar fyrir lágt endurgjald. Einnig bjóðast margvísleg fríðindi og sérkjör í gegnum aðild að FIT. Virk – starfsendurhæfingarsjóður aðstoðar félagsmenn í alvarlegum veikindum eða slysum. Starfsfólk Virk aðstoðar við að efla færni og vinnugetu á ný.
Vinnudeilusjóður er til að tryggja félögum FIT laun samkvæmt úthlutunarreglum þegar þeir eiga í kjaradeilum.
FIT er bakhjarl sem veitir þjónustu
Flest launafólk ver u.þ.b. helmingi af vökutíma sínum í vinnunni. Stéttarfélagið er mikilvægur bakhjarl á vinnumarkaði. Á stundum þegar allt leikur í lyndi léttir félagið undir með þér hvort sem þú leitar upplýsinga um kaup og kjör, þarft ný gleraugu, ætlar á námskeið, kaupa kort í ræktina eða langar í sumarbústað. Mikilvægi öflugs bakhjarls er þó mest þegar á móti blæs, eins þegar kemur upp ágreiningur um kaup, kjör og réttindi. Einnig þegar félagsmenn verða fyrir atvinnumissi, veikindum eða slysi. Þá er ómetanlegt að eiga öflugan bandamann.
Sjá nánar um skipulag félagsins, lög og starfsemi á vefnum: fit.is
Félög iðnaðarmanna sem mynduðu FIT eru eftirfarandi í aldursröð:
Múrarafélag Reykjavíkur 2. febrúar 1917
Málarafélag Reykjavíkur 4. mars 1928
Sveinafélag pípulagningamanna 11. maí 1932
Félag bifvélavirkja 17. janúar 1935
Félag blikksmiða 12. júní 1935
Félag bifreiðasmiða 18. mars 1938
Iðnsveinafélag Suðurnesja 2. desember 1942
Félag garðyrkjumanna 27. júní 1943
Iðnaðarmannafélag Rangæinga 5. nóvember 1950
Félag bílamálara 24. nóvember 1956
Félag byggingariðnaðarmanna Árnesssýslu 20. apríl 1959
Sveinafélag járniðnaðarmanna Vestmannaeyjum 26. Júní 1963
Sveinafélag málmiðnaðarmanna Akranesi 7. apríl 1966
Félag byggingariðnaðarmanna í Hafnarfirði 16. desember 1967
Félag tækniteiknara 31. október 1969
Bíliðnaðarfélag / Félag blikksmiða 1. júní 1991
Sunniðn 12. mars 1995
Þótt listinn sé langur er hann ekki tæmandi yfir þau félög og þá faghópa sem mynda grunninn að því sem í dag er Félag iðn- og tæknigreina.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd