Félag íslenskra flugumferðarstjóra var stofnað 4. október 1955. Stofnfélagar voru 17 talsins og var fyrsta stjórn félagsins skipuð Valdimar Ólafssyni formanni, Guðlaugi Kristinssyni, Bergi P. Jónssyni, Páli Ásgeirssyni og Arnóri Hjálmarssyni. Fyrstu flugumferðarstjórarnir á Íslandi höfðu tekið við starfinu af bresku herliði 5. maí 1946. Þeim fjölgaði svo fyrstu árin sem leiddi til stofnunar félagsins árið 1955. Fyrsta baráttumálið var að starfsgreinin yrði tekin inn í launalög á þeim tíma og röðun í launaflokka yrði rétt. Stjórn félagsins hefur allt frá upphafi verið skipuð 5 félagsmönnum sem sinna stjórnunarstörfum í sínum eigin frítíma.
Stjórn félagsins í dag er skipuð eftirtöldum: Arnar Hjálmssyni formanni, Hildi Albertsdóttur varaformanni, Víði Leifssyni gjaldkera, Þórhalli Gísla Samúelssyni ritara og Einari Þór Stefánssyni meðstjórnanda.
Félagið
Tilgangur og markmið félagsins er helst, líkt og annarra stéttarfélaga, að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í hvívetna auk þess að vinna að bættu flugöryggi, fara með samninga um kaup og kjör og taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi.
Fyrsta félagsheimili félagsins var á Grensásvegi 16, 1987-1997 og þaðan var flutt í Borgartún 28 árin, 1998-2007. Frá árinu 2007 hefur félagið verið aðili að BSRB og þar af leiðandi haft sína skrifstofu- og fundaraðstöðu á Grettisgötu 89 í Reykjavík.
Félagið er eitt af stofnfélögum alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra IFATCA, sem stofnuð voru árið 1961 og er enn fullgildur meðlimur auk þess að vera virkur þátttakandi í öðru alþjóðasamstarfi.
Í dag eru starfandi innan félagsins þrjár fastanefndir. Öryggisnefnd, orlofshúsanefnd og skemmtinefnd, auk þess sem félagið á og rekur sinn eigin starfsmenntunarsjóð.
Félagsmenn eru 150 talsins og starfa á 5 starfsstöðvum á Íslandi. Í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík starfa um 100 flugumferðarstjórar en aðrar starfsstöðvar eru Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Samgöngustofa.
Nám
Nám til flugumferðarstjórnar er gríðarlega sérhæft og krefjandi nám og tekur að jafnaði um tvö ár til fyrstu réttinda. Samhliða mikilli aukningu á flugi og auknum tækniframförum síðustu ár og áratugi hafa orðið miklar breytingar á starfi flugumferðarstjórans frá því sem áður var.
Framtíðarsýn
Framtíð félagsins er björt. Þróunin hefur verið þannig að það bætist sífellt í hóp félagsmanna og stjórn félagsins sér ekki fram á breytingu þar á, samhliða auknum kröfum og sífelldri aukningu í flugi í heiminum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd