Félag heilbrigðisgagnafræðinga / Félag íslenskra læknaritara

  • 2025
    Nýtt hlutverk og framtíðarsýn

    Á undanförnum árum hefur Félag heilbrigðisgagnafræðinga tekið þátt í umfangsmikilli þróun innan heilbrigðiskerfisins. Breytingar á starfsheiti úr „læknaritari“ í „heilbrigðisgagnafræðingur“ hafa endurspeglað aukna faglega sérhæfingu, og nýtt háskólanám í heilbrigðisgagnafræði var sett á laggirnar til að styrkja menntun og hæfni stéttarinnar.

    Félagið hefur lagt áherslu á innleiðingu stafrænna lausna og gæðastjórnun sjúkraskráa, meðal annars í tengslum við DRG-flokkun sem hefur bætt skráningargæði og aukið skilvirkni í heilbrigðisþjónustu. Samhliða þessu hefur félagið stutt við fræðslu og kjaramál, aukið aðgengi að upplýsingum fyrir félagsmenn og nemendur og tryggt örugga gagnageymslu og persónuvernd í samræmi við alþjóðlega staðla.

    Með virku starfi í þróun kóðunarkerfa og stafrænna gæðakerfa hefur félagið fest sig í sessi sem lykilaðili í faglegri þróun heilbrigðisgagna og öryggis innan íslenska heilbrigðiskerfisins.

  • 2022
    Samantekt úr Ísland 2020, atvinnuhættir og menning

    Heilbrigðisgagnafræðingar hafa verið heilbrigðisstétt frá árinu 1970 þegar félag þeirra var stofnað. Fyrir þann tíma handskrifuðu læknar sjálfir sjúkraskrár og utanumhald sjúkraskrár var almennt lítið. Stéttin fékk löggildingu á starfsheiti sínu árið 1986, en þá var starfsheitið læknaritari. Í framhaldi af löggildingunni var nám í læknaritun sett á laggirnar við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Aðsókn að náminu var ekki nægileg til að svara þörfum heilbrigðiskerfisins og hafði staðsetning námsins áhrif á það, því að loknu stúdentsprófi leita nemendur frekar að námi á næsta skólastigi en að fara aftur í nám í fjölbrautaskóla. Í upphafi starfsáranna höfðu læknaritarar það hlutverk að vélrita sjúkraskýrslur á pappír eftir upptöku lækna af segulbandi sem svo voru geymdar í pappírssjúkraskrám í skjalageymslum. Sjúkraskráin fór svo að færast frá því að vera á pappírsformi yfir á rafrænt form og voru þá notuð kerfi byggð á „Access“ grunnum.

    Samræmt rafrænt sjúkraskrárkerfi var fyrst innleitt árið 1997 á heilsugæslustöðvum. Árið 2004 hófst innleiðing rafrænnar sjúkraskrár á Landspítalanum og árið 2009 á sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Við það breyttist starfsumhverfið. Starfið er bæði orðið fjölbreyttara og flóknara. Læknar taka ennþá upp hljóðskrár, sérstaklega þegar um flóknar skráningar er að ræða, en unglæknar skrifa mikið sjálfir einfaldar skráningar í stað þess að taka upp.

    Nám og starf heilbrigðisgagnafræðinga

    Þar sem aðsókn í nám læknaritara var dræm var verulegur skortur á starfsfólki með fagmenntun og því mikið um ráðningar á ófaglærðu starfsfólki þó starfsheitið hafi verið lögverndað frá árinu 1986. Það var því mikið baráttumál stéttarinnar að koma náminu upp í háskóla og tók baráttan rúmlega tuttugu ár. Allsstaðar var skilningur á þörfinni fyrir breyttu námi en fjármagn var af skornum skammti og hafði efnahagskreppan árið 2008 áhrif þar á. Sumarið 2019 urðu vatnaskil er starfsheitinu var breytt. Með reglugerð heilbrigðisráðherra var starfsheitið „læknaritari“ lagt niður og starfsheitið „heilbrigðisgagnafræðingur“ tekið upp. Um haustið hófst nýtt nám í Háskóla Íslands, 90 eininga grunndiplóma í heilbrigðisgagnafræði. Rúmlega 100 nemendur hófu nám, þar af voru um 60 með löggildingu frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla. Heilbrigðisgagnafræðingar hafa sérþekkingu á meðhöndlun heilbrigðisgagna, gæðastöðlum, skilvirkni skráningar og lagaumhverfi heilbrigðisþjónustunnar. Þeir hafa jafnframt haldgóða þekkingu á heilbrigðiskerfinu og innviðum þess. Þeir starfa sjálfstætt í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um meðhöndlun heilbrigðis- og persónuupplýsinga. Þeir gegna lykilhlutverki varðandi heildstætt utanumhald heilbrigðisupplýsinga og sjá til þess að öryggi og aðgengi að þeim sé tryggt. Þeir stýra og sinna gæðaeftirliti sem miðar að því að tryggja áreiðanleika gagna og bera ábyrgð á móttöku heilbrigðisupplýsinga, skipulagningu skráninga, kóðun, úrvinnslu og vistun sem og miðlun upplýsinga. Heilbrigðisgagnafræðingar taka þátt í stefnumótun varðandi þróun rafrænnar sjúkraskrár og eru tengiliðir milli sjúklinga, fagstétta og annarra fagaðila. Einnig sinna þeir kennslu og þjálfun annarra heilbrigðisstétta í notkun á rafrænni sjúkraskrá. Framtíð stéttarinnar er björt.

Stjórn

Stjórnendur

Félag heilbrigðisgagnafræðinga / Félag íslenskra læknaritara

Grettisgötu 89
105 Reykjavík
5258351

Atvinnugreinar

Upplýsingar

1 / ?

Lesa bókina