Foss stéttarfélag í almannaþjónustu er félag starfsmanna ríkisins á Suðurlandi. Það tekur til allra sveitarfélaga frá sveitarfélaginu Ölfus austur að Höfn í Hornafirði ásamt uppsveitum Árnessýslu. Félagið var stofnað árið 1973. Þá voru stofnfélagar 28 talsins frá 5 sveitarfélögum. Í dag eru félagsmenn í kringum 1.400.
Starfsemin
Árný Erla Bjarnadóttir er starfandi formaður félagsins sem er með skrifstofu sína að Eyrarvegi 27 á Selfossi. Hún segir starfið fyrir stéttarfélagið hafa tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum. Það snúist ekki eingöngu um kröfugerðir, samningagerð og kjaraviðræður heldur hafi aðrir málaflokkar komið til kasta félagsins eins og samskiptavandi, einelti, kynferðislegt ofbeldi á vinnustöðum og ýmis önnur erfið mál sem þarf að fást við. Slík mál eru oft viðkvæm og persónubundin sem er gjörólíkt því að standa í framlínunni í kjara- og réttindabaráttu fyrir fólkið í félaginu. Þá þarf oftar en ekki að leita á náðir utanaðkomandi aðila, ráðgjafa, vinnusálfræðinga og annarra sem hafa til þess menntun og hæfni.
Í dag er Árný í fullu starfi á skrifstofunni allan daginn ásamt starfsmanni í 50% starfi sem sér um fræðslumál, orlofsmál og heimasíðu. Bókhaldsvinnu hefur verið útvistað en það er þörf á aukningu á starfshlutfalli á skrifstofunni í takt við fjölgun verkefna og stærð þeirra.
Foss er aðildarfélag innan BSRB og tekur þátt ásamt öðrum aðildarfélögum í undirbúningi fyrir gerð kjarasamninga. Samningseininganefndir taka til starfa og vinna náið með félögunum. Kjaramál er lúta að pólitíkinni eins og húsnæðiskerfi, barnabætur, vextir og sem dæmi vinnustyttingin sem samið var um í síðustu kjarasamningum, sér BSRB um fyrir hönd félaganna. Við viljum krónutöluhækkun en það þarf að leiða til aukins kaupmáttar.
Innan Foss stéttarfélags eru allar starfsgreinar sem koma að sveitarfélögum eins og skólum, leikskólum, þjónustu við fatlaða, heimaþjónustu, sundlaugar og íþróttahús. Auk þess eru starfsgreinar innan Fjölbrautarskóla Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands ásamt nokkrum sjálfseignarstofnunum, dvalarheimili, á Suðurlandi.
Árný hafði starfað á skrifstofu Foss frá árinu 2012 í kjaramálum með bakgrunn í launamálum sveitarfélaga; svo þegar fyrrum formaður hætti störfum þá bauð sig enginn fram. Þá tók Árný þá ákvörðun að prófa að fara alla leið til að afla sér aukinnar reynslu og þekkingar með því að bjóða sig fram til formanns. Þar sem ekkert mótframboð barst hlaut hún rússneska kosningu. Kosið er til tveggja ára í senn og sem stendur er kjörtímabili hennar að ljúka og aðalfundur framundan. Þegar þetta er skrifað hefur ekkert mótframboð borist svo líkast til mun hún hljóta rússneska kosningu aftur svo fremi hún sækist eftir endurkjöri.
Nú eru samningar akkúrat að falla úr gildi og nýtt samningstímabil framundan, en þegar Árný tók til starfa var nýbúið að semja. Hún er spennt fyrir því að fá að taka þátt í að móta nýja kjarasamninga eða skerpa á túlkun þeirra ákvæða sem fyrir eru og hlakkar til að vera með í þeirri vinnu. Hún segist vera fylgin sér en telur að lipurð og kurteisi séu betur til þess fallin að fá einhverju framgengt en fara fram með herópi og látum.
Orlofsmál
Eins og önnur stéttarfélög þá á félagið sumarhús í Munaðarnesi í Borgarfirði, Reykjaskógi í Biskupstungum, en auk þess íbúðir í Reykjavík og á Akureyri. Félagið á líka íbúð í Torrevieja á Spáni en þá íbúð á félagið ásamt Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar. Félagsmenn geti nýtt sér þessa orlofskosti sem eru þá niðurgreiddir af félaginu og margir eru nú á faraldsfæti eftir að takmarkanir vegna COVID- 19 voru afnumdar.
Styrkir
Styrkir til fræðslu er í boði auk annarra styrkja sem hægt er að sækja í nokkra af þeim sjóðum sem til eru bæði innan félagsins og hjá BSRB.
Trúnaðarmenn
FOSS er með stóran og sterkan trúnaðarmannahóp sem vinnur ötullega úti á vinnustöðum að markmiðum félagsins með félaginu. Haldin eru trúnaðarmannanámskeið til að efla þá í sinni vinnu og eru trúnaðarmenn tengiliðir okkar við félagsmenn.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Árnýjar fyrir hönd Foss stéttarfélags er alltaf sú að gera góða kjarasamninga, veita félagsmönnum góða þjónustu á allan hátt í öllum þeim spurningum sem koma á borð félagsins. Ef það tekst þá leiðir það mögulega af sér fjölgun félagsmanna.
Foss stéttarfélag stendur sterkt í dag og vinnur ötullega að hag og velsæld sinna félagsmanna og -kvenna. Það má aldrei missa sjónar á því að félagsmenn eru félagið en stjórnir og starfsmenn þess koma og fara.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd