Málefni barna í forgangi
Félagsmálaráðuneytið var að nýju sett á laggirnar í byrjun árs 2019 eftir uppskiptingu velferðarráðuneytisins sem var starfandi árin 2011-2019. Rökin voru þau að umfang velferðarráðuneytisins þótti of mikið og til að ná skilvirkari stjórnun málaflokkanna, þ.e. heilbrigðis- og félagsmála, væri æskilegt að snúa aftur til fyrra fyrirkomulags. Nýtt félagsmálaráðuneyti hefur verið ótrúlega afkastamikið á stuttum starfstíma og leitt fram skipulagsbreytingar á sviði félags- og barnamála, húsnæðismála og vinnumála.
COVID-19
Árið 2020 verður vafalaust lengi í minnum haft í félagsmálaráðuneytinu. Snemma árs gerði COVID-19 faraldurinn vart við sig og strax í marsmánuði fór afleiðinga hans að gæta um nær alla heimsbyggð. Þó ljóst megi vera að glíma okkar við faraldurinn mun standa eitthvað áfram megum við ekki gleyma þeim verkefnum öðrum sem vinna þarf brautargengi.
Þar ber fyrst að nefna málefni barna. Þau eru auðvitað víðfeðmur málaflokkur sem teygir arma sína inn í fjölmarga undirflokka og inn í fjölmörg ráðuneyti. Samstarf ráðherra og ráðuneytisins við þá aðila sem sinna þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra hefur verið mikilvægt og tekist einkar vel. Í lok nóvember kynnti félags- og barnamálaráðherra frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Frumvarpið er afurð víðtæks og góðs samstarfs fjölda aðila með samþættingu þjónustu í þágu barna að markmiði, sem og að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Verkefnið er umfangsmikið og felur sennilega í sér mestu breytingu sem gerð hefur verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.
Félagsmálaráðuneytið greip til margvíslegra aðgerða til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins á samfélagið og lagði ráðherra mikla áherslu á að standa vörð um fjölskyldur í landinu, bæði þegar kemur að atvinnumálum og félagslega. Strax á fyrstu vikum faraldursins samþykkti Alþingi frumvarp ráðherra um hlutabótaleiðina svokölluðu, sem felur í sér rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda. Markmiðið með henni var einfalt – að stuðla að því að vinnuveitendur haldi virku ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt þrátt fyrir samdrátt í starfsemi. Strax í aprílmánuði 2020 höfðu rúmlega 33 þúsund einstaklingar sótt um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Skemmst er frá því að segja að hlutabótaleiðin var gríðarlega mikilvæg og vel heppnuð aðgerð en einungis 20% þeirra sem fengu greiddar hlutabætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli tímabundið á árinu 2020 voru skráðir án atvinnu í lok ársins. Framhald af þeirri aðgerð var svo ráðning með styrk, en þar geta atvinnurekendur ráðið til sín starfsfólk með ríflegum styrk frá ríkinu. Þá var tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið lengt úr þremur mánuðum í sex mánuði fyrir þá einstaklinga sem misstu starf sitt í tengslum við heimsfaraldurinn.
Komið var til móts við greiðslur íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs. Lög þar að lútandi fela í sér umfangsmikinn stuðning við íþróttafélög sem hafa þurft að sæta takmörkunum og jafnvel fella niður starfsemi vegna sóttvarnarráðstafana.
Sumarstörf
Sumarið 2020 var ráðist í umfangsmikið átak til að búa til sumarstörf fyrir námsmenn en ákveðið var að veita 2,2 milljörðum króna í átaksverkefni til að búa til 3.400 tímabundin störf. Í ljós kom að ekki reyndist þörf á svo mörgum störfum fyrir námsmenn en alls nutu tæplega 2.500 námsmenn úrræðisins á árinu 2020.
Málefni ungs fólks
Málefni ungs fólks voru ofarlega á blaði. Meðal verkefna þar má nefna lengingu fæðingarorlofs, en frumvarp ráðherra þess efnis var samþykkt á Alþingi í desember 2020. Með frumvarpinu lengist réttur foreldra til fæðingarorlofs úr 10 mánuðum í 12, ásamt öðrum mikilvægum breytingum. Frumvarp ráðherra um hlutdeildarlán, sem auðvelda tekjulágum einstaklingum að eignast fyrstu íbúð var samþykkt á Alþingi í september. Lægstu tekjutíundir hafa verið fastar á leigumarkaði og mikill meirihluti þeirra vill komast í eigið húsnæði. Með hlutdeildarlánunum er ríkið að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða þetta fólk við að komast í eigið húsnæði.
Mikill kraftur hefur verið settur í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni. Í dag eru um 500 íbúðir í byggingu um land allt. Markmiðið með þessum verkefnum er að skortur á húsnæði muni ekki lengur standa atvinnusköpun fyrir þrifum, líkt og fjölmörg dæmi hafa verið um í nær öllum sveitarfélögum utan SV-hornsins á síðustu árum.
Aðgerðir vegna Covid-19 fyrir börn
Félagsmálaráðuneytið hefur ráðist í margvíslegar aðgerðir til að styðja með markvissum hætti við börn og ungmenni á tímum Covid-19 faraldursins. Sérstaklega hefur verið horft til barna í viðkvæmri stöðu. Má þar nefna sérstakan íþrótta- og tómstundastyrk fyrir börn á grunnskólaaldri, þar sem markmiðið er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þá var bætt í aðgerðir gegn heimilisofbeldi á Íslandi og ofbeldi gegn börnum, en röskun á rútínu getur reynst börnum sérstaklega erfið og rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi eykst þar sem álag er mikið á fjölskyldur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd