Hlutverk Ferðamálastofu samkvæmt lögum
Ferðamálastofa er ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Stofnunin fer með stjórnsýslu ferðamála samkvæmt sérstökum lögum sem um hana gilda og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir. Ráðherra skipar ferðamálastjóra til fimm ára í senn og veitir hann Ferðamálastofu forstöðu. Ferðamálastjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar. Ferðamálastofa skal með starfsemi sinni fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi að teknu tilliti til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags ásamt því að vinna að samræmingu, greiningum og rannsóknum í ferðaþjónustu með hliðsjón af stefnu stjórnvalda.
Vinnustaðurinn
Ferðamálastjóri frá ársbyrjun 2018 er Skarphéðinn Berg Steinarsson en hjá Ferðamálstofu starfa rúmlega 20 starfsmenn að fjölbreyttum verkefnum. Ferðamálastofa er með tvær megin starfsstöðvar, í Reykjavík og á Akureyri. Jafnframt er lögð áhersla að auglýsa störf án staðsetningar og þannig geti starfsfólk verið með starfsstöðvar hvar sem það býr. Fjölþætt eðli ferðaþjónustunnar leiðir af sér að mikil nauðsyn er á náinni samvinnu Ferðamálastofu við aðrar stofnanir og samtök, t.d. Íslandsstofu, Samtök ferðaþjónustunnar, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, áfangastaðastofur landshlutanna, atvinnuþróunarfélög og samtök sveitarfélaga. Alþjóðlegt samstarf er t.d. á vettvangi Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) og North Atlantic Tourism Association (NATA), ásamt sértækari og tímabundinna samstarfsverkefna.
Rannsóknir og gagnaöflun
Öflun, miðlun, samræming, greining og úrvinnsla upplýsinga, þar á meðal tölfræðilegra gagna og annarra upplýsinga um viðfangsefni ferðaþjónustu, hefur verið vaxandi þáttur í starfsemi Ferðamálastofu. Þetta er enda afar mikilvægur þáttur í ljósi þess hlutverks sem stofnunni er falið. Ferðamálastofu er ætlað að meta þörf fyrir gagnaöflun, greiningar og rannsóknir, ásamt því móta rannsóknaráætlun og láta framkvæma rannsóknir samkvæmt henni. Rannsóknaráætlun er unnin árlega, til þriggja ára í senn, í samvinnu við atvinnugreinina og rannsóknastofnanir á sviði ferðaþjónustu. Kveðið er á um að vinna stofnunarinnar að gagnaöflun og rannsóknum skuli styðja við ákvarðanatöku og markmiðasetningu í greininni samkvæmt stefnu stjórnvalda.
Sum af þeim verkefnum sem eru í vinnslu á hverjum tíma eru ótímabundin í þeim skilningi að reiknað er með að þau séi hluti af reglulegri starfsemi Ferðamálastofu. Þetta á ekki hvað síst við um öflun, varðveislu, greiningu og miðlun grundvallargagna, svo sem talningu farþega kannanir á ferðahegðun o.fl. Önnur verkefni eru tímabundin og ætlað að ljúka með tiltekinni afurð eða afurðum sem nýtast munu bæði í starfi Ferðamálastofu og til að ná samfélagslegum markmiðum ferðaþjónustunnar.
Miðlun upplýsinga
Gögnum er miðlað eftir fjölbreyttum leiðum og leitast við að nýta nýjustu lausnir í stafrænni tækni. Þetta er meðal annars gert í gegnum Mælaborð ferðaþjónustunnar þar sem flóknum tölfræðiupplýsingum er safnað saman, unnið úr þeim og þær birtar með aðgengilegum hætti.
Óhætt er að segja að hjá Ferðamálastofu sé í víðum skilningi stærsti gagnabanki hér á landi um ferðaþjónustu. Stofnunin heldur utan um og birtir á vef sínum með reglubundnum hætti fjölþættar upplýsingar um þróun greinarinnar. Vefurinn ferdamalastofa.is hefur að geyma ógrynni upplýsinga um starf stofnunarinnar og er um leið gagnaveita um ferðaþjónustu á Íslandi, umfang hennar og þróun.
Leyfisveitingar og stjórnsýsla
Eitt af viðameiri verkefnum Ferðamálastofu snýr að leyfisveitingum og málefnum þeim tengdum. Allir sem bjóða upp á ferðir af einhverju tagi skulu sækja um leyfi til Ferðamálastofu. Auk útgáfu leyfa fellur hér undir eftirlit með leyfisskyldri starfsemi, þar á meðal öryggisáætlunum. Þessu fylgir m.a. umsjón og eftirlit með tryggingaútreikningi og tryggingarskyldu seljenda samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og reglum um bókhald og reikningsskil ferðaskrifstofa. Allir handhafar ferðaskrifstofuleyfa, þ.e. seljendur pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, skulu vera aðilar að Ferðatryggingasjóði og er hann í umsjón Ferðamálastofu. Þetta starf er ekki síst mikilvægur liður í aukinni neytendavernd. Stjórnsýsluleg meðferð mála, umsagnir og álitsgerðir eru einnig á verkefnasviði stofnunarinnar.
Nýsköpun, þróun og gæðamál
Ferðamálastofa hefur látið til sín taka á sviði nýsköpunar, þróunar og gæðamála í ferðaþjónustu með margvíslegum hætti undanfarin ár, enda í samræmi við það hlutverk hennar samkvæmt lögum. Stafræn væðing ferðaþjónustu er eitt af áherslumálum Ferðamálastofu þessi misserin enda mat stofnunarinnar að aukin og betri nýting innan atvinnugreinarinnar á stafrænni tækni sé lykilþáttur í að bæta afkomu hennar til lengri tíma litið.
Gæðamál í ferðaþjónustu hafa einnig verið áherslumál en að þeim er meðal annars unnið á vettvangi Vakans, gæða og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar, sem Ferðamálastofa heldur utan um, og tímabundinna verkefna á borð við Hreint & öruggt / Clean & Safe. Því er ætlað er að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að taka á ábyrgan hátt á móti viðskiptavinum sínum þannig að þeir upplifi sig örugga um leið og þeir skapa góðar minningar.
Áfangastaðaáætlanir, sem Ferðamálastofa hafði forgöngu um að láta vinna, eru eitt stærsta þróunar- og skipulagsverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi á sviði ferðaþjónustu. Þær voru unnar í samvinnu við áfangastaðastofur sem fara með verkefnisstjórn áætlanagerðar á sínum svæðum. Um er að ræða heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði eða áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.
Skipulags-, umhverfis- og öryggismál á ferðamannastöðum
Stórstígar framfarir hafa átt sér stað í umhverfis og öryggismál um á ferðamannastöðum eftir að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða tók til starfa á árinu 2011 en sjóðurinn er í vörslu Ferðamálastofu sem annast rekstur hans. Markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi, að teknu tilliti til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun. Hér er ekki síst horft til framkvæmda sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.
Þá hefur Ferðamálastofa virku hlutverki að gegna þegar vár steðja að, svo sem eldgos eða annað það sem íslensk náttúra býður upp á.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd