Ferðaskrifstofa Íslands ehf. er ein stærsta og elsta ferðaskrifstofa landsins sem rekur ferðaskrifstofurnar Úrval Útsýn, Sumarferðir, Plúsferðir og Iceland Travel Bureau (Iceland Beyond). Fyrirtækið hefur selt landsmönnum ferðir til útlanda, allt frá árinu 1955 þegar Útsýn var stofnað af Ingólfi Guðbrandssyni sem var síðan forstjóri þess til ársins 1988.
Í raun má þó rekja sögu fyrirtækisins allt aftur til ársins 1936 þegar Ferðaskrifstofa ríkisins var stofnuð. Henni var svo breytt í hlutafélag árið 1988 og 2/3 hlutanna seldir starfsmönnum undir heiti Ferðaskrifstofu Íslands. Ferðaskrifstofan Úrval var stofnuð af Eimskip þegar félagið var með Gullfoss í farþegasiglingum. Úrval sem var til húsa í Pósthússtræti og var í eigu Flugleiða og Eimskip þegar það kaupir ferðaskrifstofuna Útsýn árið 1989 og sameinuðust þá skrifstofurnar undir nafninu Úrval-Útsýn.
Því má með sanni segja að saga ferðaskrifstofunnar Úrvals-Útsýnar sé samofin ferðalögum Íslendinga til útlanda frá fyrstu tíð. Plúsferðir voru stofnaðar árið 1995 og hafa verið í eigu Úrvals Útsýnar frá upphafi. Sumarferðir voru stofnað ar wárið 2003 m.a. af Helga Jóhannssyni sem áður rak Samvinnuferðir. Árið 2006 kaupa Sumarferðir Ferðaskrifstofu Íslands ehf. Framkvæmdastjóri félagsins í dag er Þórunn Reynisdóttir og er öll starfsemi fyrirtækisins rekin á einum stað í húsnæði þess að Hlíðasmára 19 í Kópavogi.
Í dag byggir ferðaskrifstofan svo sannarlega á þeirri reynslu og hefð, sem safnast hefur saman í gegnum árin. Starfsfólk ferðaskrifstofunnar hefur dýrmæta reynslu í skipulagningu ferða um allan heim, en skrifstofan hefur á að skipa einvalaliði sem tekur vel á móti viðskiptavinum sinum.
Sérfræðingar félagsins kappkosta að finna hagstæðustu og þægilegustu ferðina fyrir viðskiptavini sína. Það er keppikefli félagsins að bjóða upp á fjölbreytta og faglega þjónustu á öllum sviðum. Það á við um hvort sem ferðinni er heitið í afslöppun til sólarlanda, skemmtiferðasiglingu, skíðaferð, viðskiptaferð, borgarferð eða hópferð í verslunar- og skemmtiferð með vinum eða vinnustaðnum.
Úrval Útsýn
Úrval Útsýn er ein umsvifamesta ferðaskrifstofa Íslands, með rætur sem hægt er að rekja til frumkvöðla ferðaþjónustu á Íslandi. Úrval Útsýn býður upp á fjölbreytt úrval ferða og persónulega þjónustu fyrir alla farþega á meðan á ferðinni stendur.
Plúsferðir
Plúsferðir er ferðaskrifstofa sem selur ferðir eingöngu á netinu og hefur að leiðarljósi að halda kostnaði niðri til að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á ódýrar ferðir í borg og sól.
Sumarferðir
Sumarferðir sérhæfa sig í ferðum fyrir fjölskyldur af öllum stærðum og gerðum. Þessar ferðir eru aðallega sniðnar að fjölskylduvænum og skemmtilegum áfangastöðum til sólarlanda.
Iceland Beyond
Iceland Beyond er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í sérsniðnum ferðum um Ísland og býður erlendum ferðamönnum upp á persónulega þjónustu með ráðgjöf sérfræðinga sem aðstoða við skipulagningu ferðarinnar frá a til ö.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd