Ferðaþjónustan Mjóeyri

2022

Árið 2004 stofnuðu þau Sævar Guðjónsson og Berglind Steina Ingvarsdóttir fjölskyldu-fyrirtækið Ferðaþjónustuna Mjóeyri á Eskifirði. Í fyrstu breyttu þau efri hæðinni í gamla Mjóeyrar húsinu sem byggt var 1895 í gistiheimili með 4 herbergjum. Fljótlega var ákveðið að reyna að auka við starfsemina bæði hvað varðar afþreyingu og gistingu og á árunum 2006-2007 keyptu þau 5 heilsárshús frá Brasilíu og reistu neðarlega á eyrinni. Sama ár keyptu þau 9 báta frá Póllandi og stofnuðu bátaleigu Mjóeyrar og ráku hana til ársins 2016. Árið 2011 byggðu þau svo baðhús í samvinnu við Verkmenntaskóla Austurlands, með sturtum, klósettum og sauna og settu heitan pott í bát við húsið.
Árið 2014 var þremur minni húsum bætt við á Mjóeyri ofan við gamla gistiheimilið og svo aftur fjölgað um 2 hús árið 2016. Árið 2020 eru því í rekstrinum 10 hús auk 4 her-bergja gistiheimilis. Árið 2008 fór Ferðaþjónustan Mjóeyri í samstarf við Sjóminjasafn Austurlands um rekstur Randulffs-sjóhúss sem er gamalt síldarsjóhús í eigu safnsins. Árið 2011 var svo opnaður veitingastaður í sjóhúsinu sem er í rekstri enn þann dag í dag og er opinn alla daga frá júní til september og fyrir hópa þess utan. Þar er áherslan lögð á að bjóða upp á ferskan mat úr firðinum s.s. fisk og hreindýr en einnig hákarl, harðfisk og síld sem allt er framleitt á svæðinu.

Afþreying
Frá upphafi hefur ferðaþjónustan Mjóeyri staðið fyrir ýmiskonar afþreyingu á svæðinu og unnið með mörgum aðilum í því að auka fjölbreytni í þeim efnum. Má þar nefna að ferðaþjónustan Mjóeyri stofnaði Gönguvikuna ,,Á fætur“ í Fjarðabyggð árið 2008 sem er 8 daga gönguvika í lok júní ár hvert. Gönguvikan er samvinnuverkefni ferðaþjónustunnar Mjóeyri, Ferðafélags Fjarðamanna, Gönguklúbbs Suðurfjarða og Fjarðabyggðar. Að auki hefur ferðaþjónustan boðið upp á ýmiskonar gönguferðir á svæðinu m.a. 4 daga sumarleyfisferð um Gerpissvæðið.
Auk gönguferða og söguferða bjóðum við uppá veiðiferðir ýmiskonar svo sem svartfuglaveiði, rjúpnaveiði og hreindýraveiði en Sævar er hreindýraleiðsögumaður og bíður ferðaþjónustan upp á allsherjar lausn fyrir hreindýraveiðimenn á svæðinu þ.e.a.s gistingu, leiðsögn, fláningu og kælingu á dýrinu auk þess sem kjötiðnaðarmaður sér um úrbeiningu og frágang á kjöti fyrir veiðimenn.

Samvinna
Frá upphafi höfum við notað það sem svæðið hefur uppá að bjóða og höfum við m.a starfað með skíðasvæðinu í Oddsskarði frá upphafi og hefur undanfarin ár stóraukist umferð skíðahópa sem nota Mjóeyri sem grunnbúðir í sínum skíðaferðum.
Undanfarin 2 ár höfum við svo í samvinnu við fleiri haldið vetrarhátíðina Austurland freeride festival sem er nokkurskonar gönguvika að vetrarlagi. Þar er boðið upp á ýmiskonar ferðir bæði fyrir bretta- og skíðafólk auk ýmissa viðburða því tengdu.

Eigendur og starfsfólk
Við hjónin erum einu eigendurnir og skipum jafnframt stjórn félagsins.
Sævar er framkvæmdastjóri og sér um leiðsögn í flestum ferðum á okkar vegum en Berglind sér um gistinguna, fjármálin og starfsmannahald.
Hjá fyrirtækinu starfa á bilinu 2-25 manns, mest yfir sumartímann.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd