Festi hf. er eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í rekstri félaga sem eru leiðandi í smásölu á dagvörum, raftækjum og sölu á eldsneyti og rafmagni á Íslandi í gegnum rekstrarfélögin Krónuna, ELKO, N1, Festi fasteignir og Bakkann vöruhótel. Festi er skráð á aðallista NASDAQ OMX Iceland og er eignarhald dreift.
Sagan
Árið 1889 var Det Danske Petroleums Aktieselskab (DDPA) stofnað í Danmörku. Þar sem Ísland var á þessum tíma mjög háð innflutningi frá Danmörku hóf DDPA innflutning á steinolíu. DDPA opnaði skrifstofu á Íslandi 1908 og stofnaði dótturfélag árið 1913. Sama ár var Hið íslenska steinolíufélag stofnað og tók það yfir starfsemi DDPA á Íslandi. Árið 1920 var fyrsta bensínstöð þess félags opnuð. Skömmu eftir seinni heimstyrjöldina var Hið íslenska steinolíufélag í nokkrum kröggum og var þá ákveðið að nokkur samvinnufélög ásamt öðrum tækju yfir starfsemi þess. Í þeim tilgangi var Olíufélagið hf. stofnað árið 1946. Helstu stofnendur Olíufélagsins hf. voru SÍS (Samband íslenskra samvinnufélaga), Skúli Thorarensen, Olíusamlag Keflavíkur, Olíusamlag Vestmannaeyja, önnur samvinnufélög og útgerðaraðilar. Árið 1994 voru hlutabréf Olíufélagsins hf. tekin til viðskipta á Verðbréfaþingi Íslands sem síðar varð Kauphöll Íslands og ber nú jafnframt heitið Nasdaq Iceland hf.
Árið 2002 var nafni Olíufélagsins hf. breytt í Ker hf. og Olíufélagið ehf. stofnað í lok árs 2001 um rekstur félagsins er tók til sölu á fljótandi eldsneyti, en Ker hf. stóð eftir sem eignarhaldsfélag um hluti í Olíufélaginu ehf. og öðrum félögum ásamt fasteignum sem færðar voru í sérstakt félag með skiptingu Kers hf. sama ár. Ker hf. var afskráð úr Kauphöll Íslands árið 2003 í kjölfar yfirtökutilboðs Vörðubergs hf. Árið 2006 var Olíufélagið ehf. selt BNB ehf. sem var stofnað 13. febrúar 2006 en nafni og félagsformi þess síðarnefnda var breytt í N1 hf. árið 2007, samhliða samruna nokkurra félaga innan samstæðunnar. Bílanaust hf., Funahöfði 13 ehf., Hjólbarðahöllin ehf., Hjólbarðaviðgerðin ehf., Hjólvest ehf., Ísdekk ehf., Kúlulegusalan ehf. og Radíóþjónusta Sigga Harðar ehf. voru sameinuð N1 hf. frá 1. janúar 2007. N1 hf. og Umtak fasteignafélag ehf., félag utan um fasteignir N1 hf., voru í fyrstu bæði í eigu BNT ehf., en 2007 fór Umtak fasteignafélag ehf., í eigu Olíufélagsins ehf. sem N1 hf. átti 49% í og Hafsilfur ehf. og Hrómundur ehf. samtals 51%, en við fjárhagslega endurskipulagningu 2011 keypti N1 hf. allar fasteignir af Umtaki fasteignafélagi ehf. Samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu eftir svokallaðan frjálsan nauðasamning 2011 yfirtóku kröfuhafar eignarhald á félaginu. Í árslok 2012 var rekstur N1 á sjö sérverslunum með varahluti, aukahluti í bíla, verkfæri, rekstrar- og iðnaðarvörur ásamt söludeild og tækniþjónustuverkstæði færður í nýstofnað dótturfélag, Bílanaust ehf., og var það selt í maí 2013. Þann 3. október 2017 tilkynnti N1 um kaup félagsins á öllu hlutafé í Festi hf. Kaupin voru m.a. háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið veitti samþykki sitt fyrir kaupunum þann 30. júlí 2018 með skilyrðum sem fram koma í sátt sem undirrituð var á milli N1 og Samkeppniseftirlitsins. Festi hf. var stofnað þann 3. september 2013. Var félagið stofnað í þeim tilgangi að kaupa hluta af innlendri starfsemi Norvik ásamt hluta af fasteignasafni Smáragarðs ehf. Með kaupunum eignaðist Festi hf. allt hlutafé í Krónunni ehf. (áður Kaupás ehf.), ELKO ehf., Festi fasteignum ehf. (áður SMG 1 ehf.), Höfðaeignum ehf. (áður SMG 2 ehf.), EXPO Kópavogi ehf. og ISP á Íslandi ehf. Krónan sem er stærsta rekstrarfélag samstæðunnar varð til í maí 1999 með samruna verslana Nóatúns, Kaupfélags Árnesinga og klukkubúðanna 11-11. Krónan rekur jafnframt verslanir undir vörumerkjunum Kjarval og KR en rekstur verslunarinnar Nóatún hefur verið færður yfir í félagið Nóatún ehf. Rekstri EXPO Kópavogi var hætt á árinu 2016 og félaginu slitið. Þá var hlutafé félagsins ISP á Íslandi selt í upphafi ársins 2018.
Stjórn Festi
Hluthafar
Hluthafar félagsins í lok ársins voru 880 en þeir voru 795 í upphafi ársins og fjölgaði því um 85 á árinu. Stærstu hluthafar félagsins í árslok eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-, B- og S – deild, Gildi – lífeyrissjóður, Stefnir – ÍS 5, ÍS 15, Stapi lífeyrissjóður, Birta lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn. Í stjórn Festi sitja; Þórður Már Jóhannesson, formaður, Guðjón Karl Reynisson, varaformaður, Margrét Guðmundsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir og Þórey G. Guðmundsdóttir. Forstjóri er Eggert Þór Kristófersson. Framkvæmdastjórn er skipuð forstjóra og fimm framkvæmdastjórum félagsins þar sem hver framkvæmdastjóri ber ábyrgð á tilteknu sviði gagnvart forstjóra. Magnús Kristinn Ingason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, Kolbeinn Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri ELKO, Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, Hinrik Bjarnason, framkvæmdasjóri N1.
Framkvæmdastjórn Festi
Markmið, hlutverk og gildi
Festi hf. á að stýra fjárfestingum samstæðunnar með virðisaukandi hætti og styðja við virðisinnlausn rekstrarfélaga samstæðunnar með framúrskarandi og hagkvæmri stoðþjónustu.
Hlutverk Festi er að stýra fjárfestingum, styðja við verðmætasköpun og skapa ný tækifæri. Styðja rekstarfélög til vaxtar og leita nýrra tækifæra með hagkvæmari stoðþjónustu á sviði rekstrar, fjármögnunar, mannauðsmála, stafrænna lausna og sjálfbærni.
Gildi Festi eru: Virði, samvinna og traust og endurspeglast þau í markmiðum félagsins.
Dagleg starfsemi
Dagleg starfsemi Festi skiptist annars vegar í rekstur stoðþjónustu fyrir rekstrarfélögin og hins vegar í fjárfestingarstarfsemi. Þau verkefni sem falla þar undir snúa að upplýsingatækni, fjármálum, þ.m.t. daglegri fjárstýringu og fjármögnun, mannauði, umsjón og rekstri fasteigna og gæða- og öryggismálum. Framkvæmdastjórn Festi er hluti af yfirstjórn rekstarfélaga og tekur þátt í mánaðarlegum framkvæmdastjórafundum rekstrarfélaga og fulltrúar Festi skipa stjórnir rekstrarfélaganna.
Festi og rekstarfélög reka 200 stafsstöðvar víðsvegar um landið, auk fasteigna í útleigu. Starfsemi félagsins er þess eðlis að nauðsynlegt er að afla ýmissa leyfa og heimilda frá yfirvöldum. Starfsstöðvar rekstarfélaga Festi eru flest allar starfsleyfisskyldar og lúta fjölmörgum lögum, reglugerðum og reglum og heyra undir eftirlit fjölmargra stofnana. Á hverju ári eru gerðar úttektir á starfsleyfisskyldri starfsemi rekstrarfélaga Festi hjá viðkomandi eftirlitsaðilum sveitarfélaga og úr þeim er unnið í samráði við þá.
Mannauður
Stöðugildi hjá Festi og dótturfélögum eru að meðaltali umreiknuð í heilsárstörf, 1.145 árið 2020. Festi leggur mikla áherslu á velferð starfsmanna sinna, stuðlar að heilbrigðu líferni og jöfnum tækifærum. Stefna Festi og rekstrarfélaga er að laða að og halda í hæft og traust starfsfólk. Það er gert með því að skapa því gott og hvetjandi starfsumhverfi, efla það og styrkja með markvissri þjálfun og starfsþróun. Lögð er áhersla á að starfsfólk þekki hlutverk, stefnu og gildi félagsins í því skyni að ná betri árangri. Öll rekstrarfélög Festi hafa markað sér starfsmanna-, jafnlauna- og jafnréttisstefnu sem endurspeglar þá staðreynd að einn mikilvægasti auður félagsins er fólginn í starfsfólkinu, þekkingu þess og færni. Á árinu var unnið að samræmingu jafnlaunakerfis Festi og rekstrarfélaga í samræmi við staðalinn IST 85:2012. Vinnunni lauk í desember og fóru félögin í vottunarúttekt hjá iCert í janúar 2021. Úttektin var frávikalaus og hefur iCert gefið út nýtt vottunarskírteini. Eldri vottorð um Jafnlaunavottun voru gefin út af BSI á Íslandi fyrir N1 en Vottun gaf út vottorð númer 85-3 fyrir Krónuna, ELKO og Bakkann, þau hafa verið felld niður. Festi leggur mikla áherslu á að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf sé ekki mismunað í launum og styður þannig heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna og heimsmarkmið 10 um aukinn jöfnuð. Rekstrarfélög Festi eru öll með jafnlauna-, jafnréttis- og mannauðsstefnur í samræmi við Jafnlaunakerfi ÍST 85:2015
Starfsmannavelta hjá Festi og rekstrarfélögum endurspeglar fjölbreytta starfsemi félaganna auk þess sem starfsstöðvar Festi eru oft fyrsti starfsvettvangur margra starfsmanna. Einnig spilar inn í árstímabundið álag í verslunum, á þjónustustöðvum, í bílaþjónustu og vöruhúsi.Hjá Festi er rekin „núll“ slysastefna. Árlega eru haldin öryggis- og vinnuverndarnámskeið en þá er efst á baugi að efla öryggis- og heilsuvitund starfsmanna. Áhersla er lögð á öryggi í starfsumhverfinu og athygli vakin á heilbrigði og hreyfingu. Námskeið og fræðslufyrirlestrar eru m.a. tengdir skyndihjálp, eldvörnum, efnum og efnavörum, gæða-, umhverfis- og öryggismálum, viðbrögðum við ráni og þjófnaði, ógnandi hegðun og rýrnun ásamt fyrirlestrum um heilsu, mismunun, einelti og áreiti. Markmið mannauðsdeildar Festi er að efla rafræna þjálfun til að auka aðgengi starfsmanna um land allt að fræðslustarfsemi Festi og rekstrarfélaganna, það er lykilatriði í móttöku og þjálfun nýliða. Með því móti verður starfsfólk samsteypunnar öflugra og teljum við það vera lið í að minnka starfsmannaveltu. Verið er að ljúka uppsetningu á tveimur rafrænum námskeiðum hjá Krónunni til að hefja þessa vegferð.
ELKO
ELKO er stærsta raftækjaverslun landsins og rekur sex verslanir, þar af eina vefverslun. Á árinu var opnuð glæsileg raftækjaverslun ELKO á Akureyri. Markmiðið er að bjóða þekkt vörumerki raftækja á lágu verði og hjálpa öllum að njóta ótrúlegrar tækni.
ELKO opnaði fyrstu verslun sína í febrúar 1998 og varð strax frá upphafi leiðandi í sölu raftækja á Íslandi. ELKO kappkostar að bjóða þekkt vörumerki á lágu verði þar sem rík áhersla er lögð á framúrskarandi þjónustu ásamt eftirkaupaþjónustu. Í stefnu fyrirtækisins eru neytendur hafðir í fyrirrúmi og til marks um það má nefna 30 daga skilarétt, verðöryggi, viðbótartryggingu og inneignarnótur án gildistíma sem og verulega lengdan skilarétt í kringum jól og fermingar. Allt eru þetta aðgreinandi þjónustuþættir frá samkeppnisaðilum sem sýna að það sem skiptir viðskiptavini máli, skiptir okkur máli. Þetta er gegnumgangandi loforð sem á bæði við innávið og útávið þar sem markmiðið er að byggja gott langtímasamband við viðskiptavininn. ELKO er með sérleyfissamning við norska fyrirtækið ELKJÖP sem rekur um 400 verslanir á Norðurlöndunum. ELKJÖP er í eigu breska raftækjarisans Dixons Carphone sem rekur samtals um 1600 verslanir í Bretlandi, Írlandi og Norður-Evrópu. Með sameiginlegum innkaupum fyrirtækjanna nást einstök kjör á þekktum vörumerkjum raftækja og nýtur ELKO þar góðs af.
Stefna
Stefna ELKO er að miklu leyti þjónustudrifin þar sem markmiðið er að eiga ánægðustu viðskiptavinina á raftækjamarkaði. Á árinu var mikil áhersla lögð á stafræna þróun og var fjárfestingarþörf ársins að stórum hluta óefnisleg. Verulegar breytingar voru gerðar á vefverslun ELKO.is þar sem hraðvirkari vefur ásamt nýrri og öflugri leitarvél komu fyrirtækinu í gegnum árið þrátt fyrir þær samkomutakmarkanir sem ríktu í verslunum. Verslun ELKO í Flugstöð Leifs Eiríkssonar var breytt, algerlega endurnýjuð og opnuð formlega aftur í júní. ELKO opnaði nýja glæsilega verslun á Akureyri í desember 2020. ELKO vinnur eftir fjórum af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og eru ábyrgir viðskiptahættir sem og umhverfis- og loftslagsmál þar í forgrunni.
ELKO leggur áherslu á jafnrétti kynjanna með jafnlaunavottun, jafnlaunastefnu og markvissum aðgerðum til að jafna stöðu allra kynja á vinnustaðnum.
ELKO leggur mikið upp úr sjálfbærni og hefur fyrirtækið sett sér skýr markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka úrgang frá starfsemi og auka endurvinnslu. Í dag er tekið á móti notuðum raftækjum, ljósaperum, tölvum og símum til endurvinnslu. Fyrirtækið kaupir einnig notuð raftæki í vissum vöruflokkum og kemur þeim í réttan farveg. Eru þau ýmist endurunnin eða yfirfarin af viðurkenndum erlendum aðilum og seld aftur sem notuð vara. Þannig er líftími vörunnar lengdur og dregið úr sóun til að fleiri njóti góðs af.
ELKO leggur áherslu á að draga úr neyslu og framleiðslu með því að tryggja að viðskiptavinir kaupi aðeins þær vörur sem henta þeim. 30 daga skilaréttur tryggir að neytendur geta auðveldlega skilað vörum sem ekki henta, en þær eru svo seldar með afslætti til að lágmarka sóun. ELKO leggur áherslu á að styðja við loftslagsmarkmið með því að draga úr losun og kolefnisjafna alla starfsemi fyrirtækisins. ELKO stuðlar að umhverfisvernd með margvíslegum hætti svo sem að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka úrgang frá starfsemi og auka endurvinnslu auk þess að koma eldri raftækjum í endurvinnslu fyrir viðskiptavini. Viðskiptavinir geta skilað inn gömlum símum og tölvum og sé tækið metið hæft til endurnýtingar fær viðskiptavinurinn inneign. Með þessum hætti hafa 2.000 notuð raftæki frá íslenskum neytendum farið í hringrásarhagkerfið og endursölu hjá Replace.
Krónan
Krónan er lágvöruverslun sem leggur áherslu á ferskvöru, hún rekur 26 verslanir undir merkjum Krónunnar, Kr. og vefverslun Krónunnar. Á árinu voru opnaðar 3 nýjar Krónubúðir og vefverslun Krónunnar. Markmið Krónunnar er að koma réttu vöruúrvali í hendur neytenda á eins ódýran hátt og mögulegt er. Allar verslanir Krónunnar eru Svansvottaðar, fyrstar dagvöruverslana á Íslandi.
Loforð Krónunnar er fyrst og fremst að koma réttu vöruúrvali í hendur viðskiptavina á eins ódýran hátt og mögulegt er. Krónuverslanir hafa verið starfræktar á Íslandi frá árinu 2000. Krónuverslanir má finna í flestum hverfum höfuðborgarsvæðisins og í ýmsum bæjum um landið.
Kr. er smærri Krónuverslun aðlöguð að bæjarfélaginu og stendur Kr. fyrir Krónu. Á sama hátt og tilgangur skammstöfunar er að einfalda og spara tíma er hlutverk Kr. að færa viðskiptavinum fjölbreytt vöruúrval á lægra vöruverði. Krónan elskar hollar og ferskar vörur. Þrátt fyrir lágt vöruverð gefur Krónan engan afslátt af ferskleikanum og leitar á hverjum degi leiða til þess að gera úrvalið ferskara, hollara og heilnæmara.
Mannauður
Hjá Krónunni starfa um 960 einstaklingar og eru margir þeirra að stíga sín fyrstu skref á atvinnumarkaði. Það er því mikilvægt að standa vel að fræðslu starfsfólks og á árinu hóf göngu sína Krónuskólinn – fræðsluapp fyrir starfsmenn. Í appinu eru stutt og hnitmiðuð myndbönd sem hjálpa nýju starfsfólki að taka sín fyrstu skref í Krónunni sem og öllu starfsfólki að auka við og sækja sér þekkingu.
Nýsköpun og umhverfismál
Nýsköpun og efling íslenskrar matvælaframleiðslu skiptir Krónuna miklu máli. Á árinu var farið í samstarf við Samtök smáframleiðenda matvæla en innan þeirra eru um 75 framleiðendur. Hafist var handa við að hanna sérstaka innréttingu til að stilla fram vörum smáframleiðenda og byrjaði verkefnið í Krónuverslunum á Granda, í Lindum og á Selfossi en flakkar nú á milli Krónuverslana. Hvert sölutímabil er 2 mánuðir og taka um 20 smáframleiðendur þátt hverju sinni. Krónan leikur stórt hlutverk í samfélaginu. Við gerum okkur grein fyrir að í krafti stærðar okkar getum við haft áhrif til góðs og þess vegna erum við sífellt að leita leiða til að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.
Við reynum líka að draga úr umhverfisáhrifum, bjóða upp á heilsusamari valkosti og efla lýðheilsu, í samstarfi við viðskiptavini okkar. Þannig leggjum við okkar lóð á vogaskálarnar í baráttunni um betri heim. Við leggjum áherslu á að minnka matarsóun, draga úr umbúðum, gefa hollustunni besta plássið og auka úrvalið af grænkeravörum og annarri matvöru sem hefur minni áhrif á umhverfi og náttúru en aðrir valkostir.
Umhverfismál, lýðheilsa og upplýst val skipta okkur máli
Allar verslanir Krónunnar hafa hlotið Svansvottun. Kröfur Svansins fyrir dagvöruverslanir ná yfir umhverfisþætti í rekstri verslana, svo sem matarsóun og flokkun úrgangs, orkunotkun, og framboð lífrænna og umhverfisvottaðra vara.
Í lok árs 2019 hlaut Krónan Svansvottun á verslanir sínar við Akrabraut og Rofabæ og voru það fyrstu verslanirnar á Íslandi sem hlotið hafa Svansvottun. Ári síðar var lokamarkmiðinu náð með vottun allrar keðjunnar.
Framtíðarsýn
Með nýjum verslunum og aukningu á sölu í gegnum Snjallverslun Krónunnar horfum við fram á enn eitt spennandi árið hjá Krónunni. Lögð verður enn meiri áhersla á ferskvöru, ávexti og grænmeti sem og fljótlegar en hollar lausnir sem einfalda líf viðskiptavina okkar. Við munum setja lýðheilsu á dagskrá sem aldrei fyrr, prófa okkur áfram með umbúðalausar vörur í samtali og samstarfi við birgja og viðskiptavini, og minnka matarsóun enn frekar. Við vitum og höfum reynslu af því að með samtali koma bestu hugmyndirnar fram. Því munum við efla enn frekar samtal okkar við viðskiptavini um allt sem snýr að starfsemi okkar og leita leiða til að gera enn betur í að mæta þeirra þörfum.
N1
N1 er orkusali Festi samstæðunnar og sér fólki og fyrirtækjum fyrir eldsneyti, raforku, rekstrarvörum, veitingum og afþreyingu á þjónustustöðvum félagsins um allt land. Hlutverk N1 er að halda samfélaginu á hreyfingu með persónulegri þjónustu og markvissu vöruúrvali sem uppfyllir kröfur viðskiptavina hvert sem ferð þeirra er heitið.
N1 sparar viðskiptavinum bæði tíma og fyrirhöfn með þéttu neti þjónustustöðva og umbunar þeim með margvíslegum ávinningi af viðskiptunum, m.a. með N1 kortinu sem safnar punktum er nýtast á N1 stöðvum um land allt. N1 starfar út frá þremur grunngildum sem eru: Virðing, einfaldleiki og kraftur. Við sýnum hvert öðru virðingu, veitum þjónustu sem við getum verið stolt af og berum virðingu fyrir umhverfinu. Við leggjum okkur fram við að einfalda líf viðskiptavina okkar og liðsinna með góðu aðgengi að vörum okkar og þjónustu. Við hleypum krafti í samfélagið með öflugri dreifingu og afgreiðslu eldsneytis en einnig með stuðningi við hreyfingu, heilsubót og góð málefni sem auðga mannlífið.
Starfsemin
Vel staðsettar þjónustustöðvar og verslanir um land allt, fyrsta flokks dekkja- og smurþjónusta og öflug fyrirtækjaþjónusta gera N1 að sterkri heild sem er mikilvægur hluti af íslensku samfélagi. Kaup N1 á rekstri Íseyjar Skyrbara styrkir stöðu félagsins í hollari valkostum í veitingum fyrir fólk á ferðinni. Hefur þessi viðbót við vöruframboð N1 mælst virkilega vel fyrir hjá viðskiptavinum félagsins.
Bílaþjónusta N1 er einnig gríðarlega öflug og gekk vel þrátt fyrir áföll hjá stórum viðskiptavinum í ferðaþjónustunni. Frábær þjónusta og gott vöruval hefur styrkt stöðu N1 enn frekar á hjólbarðamarkaðinum á Íslandi og sífellt fleiri viðskiptavinir kjósa að eiga viðskipti við N1.
Íslensk Orkumiðlun varð að dótturfélagi N1 árið 2020 og styrkir það félagið verulega til framtíðar og undirstrikar þá umbreytingu N1 að verða orkufélag. Á síðastliðnu ári voru um 17% af allri orku sem N1 seldi raforka og mun það hlutfall aukast verulega á komandi árum. Þann 1. mars 2020 undirritaði Festi samning um kaup á öllu hlutafé í Íslenskri orkumiðlun ehf. (ÍOM). Íslensk orkumiðlun ehf. var stofnuð í janúar 2017 og fékk leyfi til að stunda raforkuviðskipti 16. febrúar. Raforkusala hófst síðan 1. júlí 2017.
Allt rafmagn sem ÍOM selur kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, annaðhvort vatnsafli eða jarðvarma. Markaðshlutdeild félagsins er tæplega 7% þó að það hafi aðeins verið með starfsemi í þrjú ár og sýnir það sterka stöðu fyrirtækisins. Af því rafmagnsmagni sem skipti um orkusala á árinu 2018 fóru 42% til ÍOM og 75% af því orkumagni sem flutti sig árið 2019. Félagið hafði rekstrartekjur upp á tæplega 1,4 milljarða á síðasta ári og jukust rekstrartekjur um ríflega 45% á milli ára. Viðskiptavinir í sjávarútvegi eru stærstu viðskiptavinir félagsins. N1 bætti þannig við þá sölu sem fyrir var, annars vegar jarðefnaeldsneytis og hins vegar endurnýjanlegra orkugjafa, bæði til fyrirtækja og almennings. N1 ætlar sér að vera leiðandi í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi. N1 keypti Hlöðu á árinu 2019 og með kaupum á ÍOM er N1 með alla innviði til að taka fullan þátt í raforkusölu og geta t.a.m. þjónustað rafbílaeigendur bæði með búnað og raforku.
Markmið
N1 vinnur eftir sex heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem snerta starfsemi félagsins mest til þess að auka enn frekar áherslur á ábyrga viðskiptahætti og umhverfis- og loftslagsmál. N1 leggur áherslu á jafnrétti kynjanna með jafnlaunavottun og jafnlaunastefnu.
Samfélagsleg ábyrgð skiptir miklu máli í starfsemi N1. Fyrirtækið hefur unnið að því að auka samfélagslega ábyrgð í aðfangakeðjunni með margvíslegum hætti á undanförnum árum. Það er sjálfsagður hluti af samfélagslegri ábyrgð N1 að umhverfið beri ekki skaða af starfseminni en auk þess að vera leiðandi í þjónustu hefur fyrirtækið verið leiðandi í umhverfisvænum lausnum á eldsneytismarkaði með sölu á metani og rafmagni. Það er áskorun að finna og bjóða upp á umhverfisvænni valmöguleika í margbreytilegu vöruúrvali N1 og að þjóna með þeim hætti þörfum viðskiptavina ekki síður en umhverfisins.
Átján þjónustustöðvar N1 eru vottaðar samkvæmt umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001 og öll hjólbarðaverkstæði N1 eru vottuð Michelin Quality dealer. Frá árinu 2014 hefur N1 unnið samfélagsskýrslur um starfsemi sína.
Þjónustustöðvar
Fyrirtækið býr yfir gríðarlega öflugu þjónustu- og dreifineti fyrir sínar vörur og þjónustu. Þjónustunetið mun nýtast félaginu vel þrátt fyrir orkuskipti í samgöngum sem verða á næstu árum. Með kaupunum á Íslenskri Orkumiðlun er N1 orðinn virkur þátttakandi á raforkumarkaði og ætlar sér stóra hluti þar til framtíðar. Með kaupunum hefur enn styrkari stoðum verið skotið undir rekstur félagsins til framtíðar. N1 vinnur að uppsetningu rafhleðslustöðva um landið og munu þær ásamt fjölbreyttu vöruúrvali enn frekar gera þjónustustöðvar N1 að fyrsta valkosti fólks á ferð um landið. Á þjónustustöðvum félagsins er boðið upp á fjölbreytta valkosti í veitingum og aukin áhersla lögð á hollari valkosti. Kaup félagsins á rekstri Íseyjar Skyrbara á stöðvum N1 hefur mælst vel fyrir meðal viðskiptavina félagsins og undirstrika þá stefnu N1 að bjóða upp á hollari valkosti. Fyrirtækjaþjónusta N1 er mjög öflug og er sífellt verið að leita leiða til að styrkja þá þjónustu enn frekar. Nýverið var vefverslun opnuð sem miðar að því að þjónusta fyrirtæki enn betur en gert er í dag. Mörg þúsund fyrirtæki vítt og breitt um landið kjósa að eiga viðskipti við N1 í hverjum mánuði og er það markmið félagsins að þjónusta viðskiptavini vel og einfalda þeim lífið.
Bakkinn
Bakkinn vöruhótel rekur tvö vöruhús sem sérhæfa sig í vöruhúsaþjónustu og dreifingu á vörum fyrir viðskiptavini sem kjósa að úthýsa vöruhúsastarfsemi sinni að einhverju eða öllu leyti.
Starfsemi Bakkans er mikilvægur hlekkur í aðfangakeðju samsteypunnar með dreifingu og afhendingu á vörum fyrir rekstrarfélög Festi. Bakkinn leggur áherslu á skilvirkni í þjónustu og hagkvæmni í öllum ferlum. Á árinu var nýtt vöruhúsakerfi tekið í notkun til að efla öryggi pantana og tryggja rauntíma afhendingu. Bakkinn gefur á árinu 2021 út sína fyrstu samfélagsskýrslu í samræmi við ESG viðmið Nasdaq.
Þjónustan
Boðið er upp á hágæða þjónustu til þeirra sem vilja úthýsa vöruhúsaþjónustu og dreifingu að hluta eða öllu leyti. Lögð er mikil áhersla á skilvirkni í þjónustu og hagkvæmni í ferlum.
Vandað gæða- og öryggiseftirlit er fyrir hendi sem endurspeglar gildi Bakkans;
Þjónusta – Gæði – Öryggi.
Á árinu 2020 var unnið að innleiðingu nýs vöruhúsakerfis sem mun bæta þjónustu og lækka einingakostnað. Innleiðingunni mun ljúka á árinu 2021. Félagið hefur til fjölda ára leitast við að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og minnka sóun í allri sinni starfsemi. Á árinu 2020 hóf Bakkinn að móta sérstök markmið í samfélagslegri ábyrgð og samræma þau við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í samræmi við kjarnastarfsemi sína: Í framhaldinu var ákveðið að gefa út sérstaka samfélagsskýrslu fyrir Bakkann þar sem sett eru fram skilmerkileg markmið til framtíðar. Bakkinn hefur valið að einbeita sér að heimsmarkmiðum númer 5, 10, 12 og 13, en þau standa fyrir jafnrétti kynja, aukinn jöfnuð, ábyrga neyslu og framleiðslu og aðgerðir í loftlagsmálum. Umhverfismál eru gríðarlega mikilvæg í starfsemi Bakkans en lögð hefur verið áhersla á að minnka kolefnissporin. Beinni losun hefur verið kolefnisjafnað frá kjarnastarfseminni til nokkurra ára í gegnum móðurfélagið Festi.
Með innleiðingu nýs vöruhúsakerfis og frekari fjárfestingu í sjálfvirkni mun Bakkinn geta boðið viðskiptavinum sínum lausnir á góðu verði sem ráða betur við slík tilvik og tryggja þannig samkeppnishæfni félagsins til framtíðar þar sem gæði, þjónusta og öryggi gegna lykilhlutverki.
Festi fasteignir
Fasteignarekstur samstæðunnar fer fram í tveimur félögum. Annars vegar í Festi hf. sem á og rekur fasteignir sem tilheyra starfsemi N1 og hins vegar í dótturfélaginu Festi fasteignum ehf. sem á og rekur allar aðrar fasteignir samstæðunnar. Festi fasteignir sérhæfir sig í útleigu atvinnuhúsnæðis til félaga í verslunarrekstri og eru fasteignirnar að mestu leyti í útleigu til dótturfélaga Festi. Starfsmenn halda utan um allar framkvæmdir á fasteignum og lóðum samstæðunnar hvort sem er í viðhaldsverkefnum eða nýfjárfestingum. Fasteignastarfsemin er rekin með það að markmiði að fjárbinding í fasteignum sé arðbær og styðji við kjarnastarfsemi samstæðunnar. Heildarfjöldi fasteigna í eigu samstæðunnar í árslok 2020 var 93 og eru þær samtals um 106 þúsund fermetrar.
Endurbætur og nýfjárfestingar
Unnið var að fjölmörgum endurbótum og nýfjárfestingum á árinu en þessar voru helstar:
Í byrjun árs var lokið við gagngerar endurbætur á þjónustustöð N1 á Höfn í Hornafirði. Endurbæturnar fólu meðal annars í sér að bæta aðstöðu viðskiptavina og starfsfólks. Í mars var lokið við að setja upp nýjar verslanir ELKO í komu- og brottfarasal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Um sumarið var lokið við byggingu á nýju 1.500 fm atvinnuhúsnæði við Norðurhellu í Hafnarfirði. Við hönnun og byggingu húsnæðisins var haft í huga að lágmarka rekstrarkostnað og kolefnisspor starfseminnar í fasteigninni. Krónan opnaði verslun í húsnæðinu í október og N1 opnaði fjölorkustöð á lóðinni á svipuðum tíma. Hluti húsnæðisins er síðan í útleigu til þriðja aðila.
Lokið var við uppsetningu á tveimur nýjum verslunum Krónunnar í Reykjavík. Verslun Nóatúns í Austurveri var breytt í Krónuverslun og voru allsherjar endurbætur gerðar á húsnæðinu. Þá var Super1 verslun á Hallveigarstíg breytt í Krónubúð. Endurbæturnar á báðum verslunum voru framkvæmdar með vörumerki og markmið Krónunnar í huga. Það felur meðal annars í sér að verslanir Krónunnar eru Svansvottaðar og er einn þáttur þess að lágmarka orkunotkun í rekstri. Öll hönnun og uppsetning verslana tekur mið af því.
Ný fyrirtækjaverslun N1 var opnuð í endurbættu húsnæði við Glerárgötu á Akureyri í lok sumars. Í framhaldinu voru gerðar stórfelldar endurbætur á húsnæðinu við Tryggvabraut sem áður hýsti verslun N1 og var þar opnuð ný verslun ELKO í byrjun desember s.l.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd