Finnur ehf.

2022

Verktakafyrirtækið Finnur ehf. á Akureyri var stofnað vorið 2003 af Finni Aðalbjörnssyni og Höllu Berglindi Arnarsdóttur. Fyrirtækið er nú að fullu í eigu Finns. Finnur Aðalbjörnsson er fæddur og uppalinn á Laugarholti í Eyjafjarðarsveit þar sem lengi var rekið stórt kúabú. Hann fetaði slóð foreldra sinna, sótti sér nám í búfræðum og hóf árið 1995 kúabúskap á Ytra-Laugalandi á móti frænda sínum, Jóni Elvari Hjörleifssyni. Búskapinn stundaði Finnur til ársins 1999 þegar hann slasaðist alvarlega í vélsleðaslysi. Í kjölfarið hætti hann búskap og flutti til Akureyrar. Nú voru góð ráð dýr. Eitthvert lífsviðurværi þurfti Finnur að hafa og úr varð að hann afréð árið 2003 að stofna verktakafyrirtækið Finn ehf. Áður hafði hann um nokkurra ára skeið þjónustað bændur með ýmiskonar verktakastarfsemi og aflað sér dýrmætrar reynslu og þekkingar á því sviði.

Sagan
Finnur ehf. var til að byrja með til húsa að Dalsbraut 1 og var vélakosturinn ein dráttarvél, sturtuvagn og Bobcat grafa. Fyrsti starfsmaður, Eiríkur Jónsson, var ráðinn til starfa fljótlega eftir að fyrirtækið hóf rekstur. Annar starfsmaðurinn var Hrannar Örn Sigursteinsson og er hann ennþá við störf hjá Finni ehf. Frá 2007 hefur fyrirtækið verið að Óseyri 2. Á árinu 2021 verður ráðist í byggingu nýs 520 fermetra húss á aðliggjandi lóð, sem mun bæta verulega aðstöðuna fyrir starfsmenn fyrirtækisins og tæki og tól.

Starfsemin
Fljótlega eftir að Finnur ehf. var sett á stofn tók hann að sér ýmis verkefni fyrir Akureyrarbæ, t.d. skólplagnir, fráveituviðgerðir o.fl. Einnig haslaði fyrirtækið sér völl í hellulögnum fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Átján árum eftir stofnun fyrirtækisins er það enn í fjölbreyttum jarðvinnuverkefnum, gatnagerð, hellulögnum og viðhaldsverkefnum. Yfir veturinn er snjómokstur drjúgur hluti verkefna Finns ehf.

Verkefnin
Verkefnin eru víða en bróðurpartur þeirra er á Akureyri og í nærsveitum. Akureyrarbær og veitufyrirtækið Norðurorka hafa frá upphafi verið stærstu viðskiptavinir fyrirtækisins.
Fyrir Akureyrarbæ hefur Finnur ehf. verið mikið í snjómokstri, endurnýjun lagna og gatnaframkvæmdum. Meðal verkefna fyrir bæjarfélagið var endurnýjun lagna, lagning ljósleiðara og endurnýjun gatnakerfisins í Hrísey. Fyrir Norðurorku hefur Finnur ehf. verið mikið í heimtaugum, nýtengingum og viðgerðum á fráveitu- og aðveitukerfi. Stærsta verkefnið til þessa fyrir Norðurorku er lagning hluta nýrrar aðveituæðar hitaveitu frá Hjalteyri til Akureyrar.

Starfsmenn
Árið 2005 var fyrirtækið með fimm starfsmenn og þremur árum síðar voru þeir tíu. Frá árinu 2017 hafa á þriðja tug starfsmanna starfað hjá fyrirtækinu. Frá stofnun þess hefur starfsmannavelta verið hverfandi. Fyrsta rekstrarárið var veltan rösklega tíu milljónir en árið 2020 nam hún ríflega sjö hundruð milljónum króna. Á árinu 2020 voru skoðunarskyld tæki Finns ehf. á áttunda tuginn.
Árið 2018 stofnaði Finnur ehf. Malbikun Norðurlands ásamt þremur einstaklingum. Rekstur fyrirtækjanna er aðskilinn en að hluta starfa sömu starfsmennirnir hjá báðum fyrirtækjum. Vöxtur Malbikunar Norðurlands hefur verið mikill. Á fyrsta starfsárinu voru lögð út 2700 tonn af malbiki en á árinu 2020 voru þau um 25 þúsund.

Framtíðin
Á árinu 2021 verður stærsta verkefni Finns ehf. lagning jarðstrengs frá Rangárvöllum ofan Akureyrar í suður yfir Glerárgil og áfram í átt að Kjarnaskógi. Við Hamra sveigir lögnin í austur, þvera þarf þjóðveginn og áfram liggur hún í ídráttarrör undir Eyjafjarðará í stefnu á Kaupang í Eyjafjarðarsveit. Áfram verður haldið upp í spennuvirki í Vaðlaheiði. Verkkaupi er Landsnet og er þetta stærsta útboðsverkefni sem Finnur ehf. hefur tekið að sér. Það segir sína sögu um umfang verksins, að um er að ræða þrjá ellefu sentímetra svera strengi. Lengdarmetrinn er 12 kg að þyngd og því er eitt strengjakefli um 18 tonn.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd