FISK Seafood ehf. er eitt öflugasta útvegsfyrirtæki landsins og starfar á öllum stigum virðiskeðjunnar, veiðum, vinnslu og sölu. Innan fyrirtækisins er víðtæk þekking og reynsla á veiðum, vinnslu og markaðssetningu, ásamt ríkum skilningi á samþættingu og samvinnu þessara þátta. Starfsfólk fyrirtækisins leggur ríka áherslu á góða umgengni um auðlindir til lands og sjávar ásamt ríkum skilningi á sjálfbærri nýtingu á takmarkaðri náttúruauðlind. Þessi þekking og virðing endurspeglast í allri starfsemi FISK Seafood.
FISK Seafood ehf. hefur orðið til með kaupum og samrunum nokkurra fyrirtækja á umliðnum áratugum. Þessi félög eru: Fiskiðja Sauðárkróks hf., Útgerðarfélag Skagfirðinga hf., Skagfirðingur hf., Skjöldur hf., Hraðfrystihús Grundarfjarðar hf. og Skagstrendingur hf. auk þess hefur félagið styrkt sig mikið á síðustu árum í aflamarki og hefur félagið í dag 23.814 þorskígildi til umráða.
FISK Seafood ehf. er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga sem var stofnað árið 1889.
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Friðbjörn Ásbjörnsson.
Í stjórn FISK Seafood eru: Þórólfur Gíslason stjórnarformaður, Bjarni Maronsson,
Herdís Á. Sæmundardóttir, Sigurjón Rúnar Rafnsson og Ingileif Oddsdóttir.
Upphafið
Upphafið má rekja til stofnunnar Fiskiðju Sauðárkróks hf. á Þorláksmessu 1955 og voru upphaflegir eigendur Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og Sauðárkrókskaupstaður.
Árið 1959 óskaði Sauðárkrókskaupstaður eftir því að losa um tengslin við Fiskiðjuna og varð úr að KS keypti hlut kaupstaðarins í félaginu. Fiskvinnsla var stopul og hráefnisöflun ótrygg allt fram til þess að Útgerðarfélag Skagfirðinga var stofnað 1968. Upp frá því hefur togaraútgerð og vinnsla afla hennar verið mjög ríkur þáttur í atvinnulífi á Sauðárkróki. Framan af gekk rekstur Útgerðarfélags Skagfirðinga nokkuð vel en þó var lausafjárskortur félaginu löngum erfiður og varð það til ráða að lokum að togurum Útgerðafélags Skagfirðinga var skipt upp milli eigenda.
Blásið til sóknar
Skagfirðingur hf. var stofnaður 1989 af KS og Sauðárkrókskaupstað til að sjá um rekstur togara sem kom í hlut nýstofnaðs fyrirtækis, en það voru Hegranes SK-2 (skipnr.1492) og Skafti SK-3 (skipnr.1337) frá Útgerðarfélagi Skagfirðinga og Skagfirðingur SK-4 (skipnr.1285) frá Fiskiðju Sauðárkróks. Árið eftir var síðan togarinn sem bar nafnið Skagfirðingur (skipnr.1285) skipt út fyrir togarann Vigra sem fékk þá nafnið Skagfirðingur SK-4 (skipnr.1265). Ekki var þarna látið staðar numið því á árinu 1993 var hlutur Þormóðs Ramma hf. í Skildi hf. á Sauðárkróki keyptur, þar með kom togarinn Drangey (skipnr.1348), það félag var síðan sameinað Skagfirðingi hf. 1995. Áfram var haldið að auka og bæta togaraflotann því árið 1994 var keyptur frystitogarinn Sjóli HF-1 frá Hafnarfirði og fékk hann nafnið Málmey SK-1 (skipnr.1833). Árið 1995 kaupir Skagfirðingur hf. allar eigur Fiskiðjunnar hf. og var nafni fyrirtækisins breytt í Fiskiðjan Skagfirðingur hf.
Fiskiðjan Skagfirðingur hf. kaupir öll hlutabréf í Skagstrendingi hf. árið 2004 og þar með frystitogarana Arnar HU-1 (skipnr.2265) og Örvar HU-2 (skipnr. 2197). Síðar sama ár var nafni fyrirtækisins breytt í FISK Seafood.
Árið 2017 eignast FISK Seafood útgerðar og fiskvinnslufélagið Soffanías Cecilsson hf. í Grundarfirði og er það nú dótturfélag í 100% eigu FISK Seafood.
Árið 2018 keypti FISK Seafood eignarhaldsfélag þriðjungs hlut alls hlutafjár í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum.
Skipaflotinn
Árið 2021 gera FISK Seafood og Soffanías Cecilsson út fimm skip. Frystitogarinn Arnar HU-1 og togararnir Málmey SK-1 og Drangey SK-2 eru gerðir út frá Sauðárkróki en ísfisktogararnir Farsæll SH-30 og Sigurborg SH-12 eru gerðir út frá Grundarfirði. Frystitogarinn Arnar HU-1 (skipnr.2265) var smíðaður í Tomrefjord Noregi árið 1986. Hann var keyptur hingað til lands frá Rússlandi um áramótin 1995-96 og varð gerður út af Skagstrendingi allt til ársins 2004 en þá færðist eignarhaldið yfir til FISK Seafood sem hefur gert skipið út síðan.
Frystitogarinn Málmey SK-1(skipnr.1833) var smíðaður í Slipp & Maskinfabrikk Flekkefjord Noregi árið 1987. FISK Seafood eignaðist skipið 1994 og gerði skipið út sem frystitogara allt til ársins 2014 en þá var skipinu breytt í ísfisktogara haustið 2014.
Drangey SK-2 (skipnr.2893) var smíðuð í Cemre Shipyard Tyrklandi 2017 fyrir FISK Seafood. Uppbygging búnaðar á millidekki Drangeyjar og Málmeyjar er svipaður. Stærsti kostur millidekks Drangeyjar er að gengið er frá aflanum í ker uppi á vinnsludekki. Kerin fara síðan með lyftu niður í lest skipsins. Þessi aðferð að ganga frá fiskinum í ker á milli dekki við bestu aðstæður bætir mjög alla meðferð á fiskinum og vinnuaðstæður sjómanna.
Farsæll SH-30 (skipnr.2749) var smíðaður í Ching Fu Gaoxiong Taiwan árið 2009. FISK Seafood eignaðist skipið 2019 og er skipið gert út frá Grundarfirði.
Sigurborg SH-12 (skipnr.2740) var smíðuð í Nordship Gdynia Póllandi árið 2006. Soffanías Cecilsson ehf. í Grundarfirði eignaðist skipið 2019 og er skipið gert út frá Grundarfirði.
Landvinnslur
FISK Seafood hefur á síðustu árum unnið markvisst að því að auka afkastagetu landvinnslanna í takti við veiðigetu ísfisktogaranna. Samhliða því hefur á síðustu árum verið lögð mikil vinna í að tæknivæða húsin og auka sjálfvirkni eins og kostur er til að fækka einhæfum og erfiðum störfum.
Frystihús FISK Seafood er staðsett á Sauðárkróki og er uppistaða framleiðslunnar léttsaltaðar þorsk- og ufsaafurðir, sem seldar eru víða um heim en sterkustu markaðssvæðin fyrir léttsaltaðar afurðir eru í suður Evrópu, t.d. á Spáni. Fullkomin þurrkverksmiðja var tekin í gagnið árið 2015 á Sauðárkróki. FISK Seafood hafði áður eingöngu þurrkað úti á hjöllum og var þurrktími venjulega um 2-3 mánuðir. Með tilkomu verksmiðjunnar styttist þurrktíminn í 1-2 vikur og framleiðslan varð stöðugari og gæði afurðana tryggari. Jafnframt urðu vinnuaðstæður miklu betri og öruggari. Afurðarnar fara aðallega til Nígeríu. Saltfiskvinnsla er starfrækt hjá Soffaníasi Cecilssyni ehf. í Grundarfirði en saltfiskverkun hefur verið starfrækt undir nafni Soffanías Cecilssonar frá árinu 1965. Útgerðarsaga félagsins hófst hins vegar árið 1936 er Soffanías ásamt bróður sínum Bæringi keyptu fyrsta bátinn. Afurðir félagsins fara aðalega til Spánar, Ítalíu og Portúgal.
Starfsmenn FISK og Soffaníasar eru samtals 268 í árslok 2020.
Fyrirtæki í sókn
FISK Seafood hefur ávallt lagt áherslu á að hagnýta sér fullkomnustu tækni sem völ er á við veiðar og vinnslu. Ekkert fyrirtæki vex og dafnar án góðs starfsfólks því er ein af grunnstoðum FISK Seafood hæft, traust og áreiðanlegt starfsfólk, bæði til sjós og lands sem er tilbúið að vinna saman. FISK Seafood er vinnustaður þar sem leitast er við að búa vel að starfsfólki hvað varðar vinnuöryggi og aðstöðu. Fyrirtækið hefur öfluga öryggisstefnu þar sem áherslan er á að tryggja velferð og öryggi starfsfólks með fyrirbyggandi aðgerðum. FISK Seafood leggur áherslu á jafnrétti með því að hvetja bæði karla og konur til að ganga til liðs við fyrirtækið. FISK Seafood leggur áherslu á jafnrétti og árið 2020 hlaut félagið jafnlaunavottun skv. ÍST 85:2012 staðli.
FISK Seafood starfar á alþjóðlegum markaði og eru afurðir fyrirtækisins seldar víða um heim. Á þeim grundvelli vinnur fyrirtækið að því að óskir og þarfir markaðarins verði ávallt hafðar að leiðarljósi við framleiðslu, stjórnun og ákvarðanatöku.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd