Í tuttugu og tvö ár samfleytt hefur Geir Vilhjálmsson staðið vaktina á bak við afgreiðsluborðið hjá Fiskbúðinni Hafbergi í Gnoðarvogi 44 eða frá því að hann var aðins 25 ára. Geir tók árið 2015 við rekstrinum en það var faðir hans, Vilhjálmur Hafberg, matreiðslumeistari og eiginkona hans Svala Geirsdóttir, sem stofnuðu og opnuðu fiskbúðina 12. nóvember árið 1995 eða fyrir 25 árum. Geir er í dag 47 ára gamall og kvartar ekki yfir því að hafa selt fisk hálfa ævina. „Starfið er oft erfitt og vinnudagarnir langir, en á móti kemur að hér er gaman í vinnunni og góður félagsskapur af skemmtilegum viðskiptavinum,“ segir Geir.
Það voru sem sagt foreldrar Geirs sem stofnaðu fiskbúðina og ávann hún sér fljótt hylli viðskiptavina. Vilhjálmur, faðir Geirs, er fæddur árið 1953 og ólst upp á Hellissandi. Hann er matreiðslumaður að mennt eins og Geir og kemur sú menntun feðganna sér vel í rekstrinum. Umtalsverð breyting hefur orðið á versluninni á þessum rúmlega tveimur áratugum sem Geir hefur verið að störfum í Hafbergi. Gamla soðningin heyrir sögunni til. Vöruúrvalið í fiskborðinu er glæsilegt og fjölbreytt. Tilbúnir fiskréttir eiga nú orðið miklum vinsældum að fagna. Þar kennir margra grasa og allir finna eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttu úrvali fiskrétta.
Árið 2008 bættist svo við veitingastaðurinn vinsæli framan við fiskborðið. Þar er þægilegt að setjast niður með heitan og hollan fiskrétt og geta fengið sér kaffibolla á eftir.
En það að reka fiskbúð felst ekki bara í því að afgreiða fiskinn yfir borðið. Það þarf að afla aðfanga, kaupa inn ferskan fisk fyrir dag hvern. Áður fyrr þurftu menn að fara á markaðinn og velja inn magn og tegundir fyrir komandi dag. Nú orðið er tæknin notuð og innkaupin gerð rafrænt. Þá er eftir öll vinnan við bókahald og launagreiðslur um hver mánaðamót. Starfið er því fjölþætt hjá þeim sem rekur fiskbúð.
Mannauður
Því er nauðsynlegt að dreifa álaginu og hafa gott starfsfólk í afgreiðslunni. Starfsmenn Hafbergs eru nú 6 talsins. Einn þeirra, Óskar Guðmundsson hefur starfað í búðinni í alls 11 ár. Á hann marga fasta viðskiptavini til margra ára. Guðmundur Óskar Reynisson hefur verið hjá Hafbergi í 10 ár. Margir aðrir góðir starfsmenn hafa komið við sögu. Á árum áður voru allt að 15 manns að störfum hjá Hafbergi en þá var allur fiskur unnin á staðnum, sem kallaði á aukinn starfskraft. Svo reyndist auðveldara og einfaldara að fá fiskinn frá örðum fiskvinnslum og markaði í bland. Þá fækkaði og nú eru starfsmenn alls 6 talsins og hefur reksturinn aldrei gengið betur.
COVID-19
Þegar COVID -19 lét á sér kræla varð að breyta ýmsum háttum í búðinni til að halda fyrirmæli og reglur Almannavarna. Meðal annars hefur verið gripið til heimsendingarþjónustu. Mikið var um símapantanir á þessum óvissutíma og kom fólk og sótti sína pöntun um leið og 2ja metra reglan var í hávegum höfð. Fólk hættir aldrei að borða fisk og því er sjálfsagt að færa hann heim ef fólk kemst ekki í fiskbúðina. Að mati Geirs hafa áhrif COVID-19 faraldursins haft frekar jákvæð áhrif á rekstur fiskbúðarinnar, þar eð fólk lagði aukna áherslu á að borða hollan og næringarríkan mat eins og alls konar fisk. „Fólki leið líka betur að versla í sérverslun en fjölmennum stórmarkaði. Segja má að nýr viðskiptamannahópur hafi orðið til, sem sagt yngra fólk og ungar barnafjölskyldur sem annt er um heilsu sína og sinna. Það fólk hefur áttað sig á að fiskur er fyrir ALLA. Þeim sem borða hreina fæðu, fisk eða kjöt, líður yfirleitt mun betur og eru ekki í vandamálum með aukakílóin,” segir Geir.
Rekstur
Velta Hafbergs hefur aukist um 10 til 15% ár eftir ár og framtíðin er björt í augum eigenda ekki síst vegna þess að framboð og úrval fiskjar og fiskrétta er glæsilegt og fólk hefur í sívaxandi mæli áttað sig á hollustu þess að neyta fiskjar.
Í dag er laxa- og bleikjusala orðin meiri en sala á þorski og ýsu. Yfir 20 rétti er að finna í fiskborðinu. Þar má til dæmis nefna þorskhnakka, bleikju, lax úr landeldi, íslenskan humar og lúðu sem allt á miklum vinsældum að fagna.
Mikil samkeppni ríkir á markaði fiskbúða en sérstaða Hafbergs felst í því að allir réttir eru heimalagaðir, starfsfólkið er frábært, þjónustustig og þjónustulund með besta móti, mikil vöruþekking starfsfólks og vörugæðin mikil.
Þá hefur hagkvæmnin í eldhúsi veitingahússins, sem er undir stjórn Sigfúsar Jónssonar og Örnu Sifjar Gunnarsdóttur, sannað sig og staðfest að menn eiga að einbeita sér að því sem þeir eru bestir í. Undir þeirra stjórn hefur velta veitingahússins þrefaldast á skömmum tíma.
Markmið eigenda Hafbergs er að reka „lúxus” fiskbúð með hágæðahráefni og fyrirmyndar-þjónustu. Hafberg var í flokki fyrimyndafyritækja árið 2018 og er meðlimur Samtaka fiskvinnslu án útgerðar.
Hafberg er til húsa í eigin húsnæði að Gnoðarvogi 44. Heimasíða: www.hafberg.is
Framtíð
„Við lítum til baka yfir 25 ára feril og erum sátt með árangurinn og höldum í það sem virkar og horfum fram á veginn,” segir Geir.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd