Fiskeldi Austfjarða hf. / Ice Fish Pharm

2022

Þegar Fiskeldi Austfjarða var sett á laggirnar árið 2012 þá hafði mikið vatn runnið til sjávar í fiskeldismálum og sitt sýndist hverjum um að ráðast í stórar fjárfestingar og laxeldi í kvíum við Íslandsstrendur. Ýmsir sáu þó kostina við slíkan rekstur og svo vitnað sé til Guðmundar Gíslasonar, forsvarsmanns fyrirækisins þá hafði hann ástríðu til að stofna fyrirtæki með það fyrir augum að framleiða hágæða eldislax fyrir kröfuharðan erlendan markað. Hugmyndir um framleiðsluhætti voru nú talsvert breyttar frá því sem áður var. Það þótti t.d. vænlegra að setja stærri og öflugri seiði í sjó fyrsta kastið, tryggja betri flutningsmáta á milli seiðastöðva og sjávar, og með sterkari seiðum var líklegra að þau þyldu íslenskar aðstæður betur þyrftu þar af leiðandi skemmri vaxtartíma í sjónum.

Starfsemin
Í dag samanstendur framleiðslan af seiðastöðvum í landi og sjókvíum á Austurlandi. Búnaður við sjókvíarnar er í dag orðinn mun betri en hann var fyrr á árum. Kvíarnar eru mun stærri en áður, sem gefur fiskinum meira rými. Sem dæmi þá er fiskfylli í einni sjókví ekki nema 2% af heildarrými kvíarinnar. Í þriðja lagi kemur til fóðrið sem notað er við eldið. Gamla fóðrið samanstóð af fiskilýsi sem átti það til að storkna í kulda, en laxinn gat átt í erfiðleikum með að melta það fóður. Fóðrið sem notað er í dag er úr repjuolíu sem storknar ekki þótt kalt sé í veðri yfir vetrartímann svo fiskurinn dafnar og vex þrátt fyrir lágan sjávarhita.
Með þetta til staðar; stærri seiði, stærri kvíar, betri flutningsmáta og fóður sem hentar skapaðist grundvöllur til að fara út í laxeldi á ný. Vestfirðingar voru komnir rétt af stað en ákveðin svæði við Norður-Noreg með svipaða hitakúrfu og Ísland þykja henta best til laxeldis af öllum svæðum í heiminum. Sem þýðir: Lægstur kostnaður við framleiðsluna og bestur árangur.
Hafist var handa í Berufirði þar sem Grandi hafði verið með kvíar undir þorskeldi sem ekki tókst sem skyldi og þar reis fyrsta laxeldisstöðin. Regnbogasilungur var einnig alinn þarna en árangurinn af því varð undir væntingum svo menn einbeittu sér að laxinum sem virtist dafna vel.

Eigendur og fjárfestingar
Með Guðmundi Gíslasyni voru þeir Þórður Þórðarson, lögfræðingur og Jónatan Þórðarson, fiskeldisfræðingur sem báðir höfðu haft talsverða reynslu af fiskeldi, en Guðmundur hafði áður verið hjá Bifreiðum og Landbúnaðarvélum; alls ófróður um allt sem viðkom fiskeldi en með yfirgripsmikla þekkingu á viðskiptum og markaðsmálum.
Við að feta sig inn á nýtt starfssvið hafði hann löngun til að skapa einhverja framleiðsluvöru sem gæti fært auknar gjaldeyristekjur til landsins og sá fyrir sér að það mætti vel hugsa sér að gera það með laxeldi, nú þegar réttar aðstæður voru fyrir hendi. Að framleiða hágæða eldislax; ef ekki besta lax í heimi og selja hann til Whole Foods, kröfuharðasta matvælakaupanda í heimi, var það markmið sem lagt var upp með. Allt kapp var lagt á að sannfæra fjárfesta og aðra sem málið varðaði um að þetta væri mögulegt en hljómgrunnur var fremur lítill framan af svo menn þurftu að vinna í hlutunum sjálfir. Tveimur árum síðar var hægt að sýna fram á vöxt og árangur, svo þá fóru fjárfestar að taka við sér. Stærri kvíum var komið fyrir, öflugri tækjum og fleira fólk fengið til starfa þannig að unnt væri að taka næsta skref fram á við.
Fyrirtækið eignaðist helmingshlut í seiðaeldisstöðinni Ísþór í Þorlákshöfn 2014 og komst í að rækta stærri og öflugri seiði sem fóru í sjó 2016 og 2018 var farið að slátra. Þá voru sjálfbærnisvottanir og ýmsar aðrar mikilvægar vottanir komnar í hús. Þar á meðal Whole Foods vottun og lífræn vottun ESB en aðeins fjögur önnur fyrirtæki í heiminum standast þau ströngu skilyrði sem sett eru fyrir slíkri vottun. Óneitanlega kom það sér vel fyrir frekari sókn á breiðari markaði á heimsvísu með vistvænan hágæða eldislax frá Íslandsströndum.

Vinnsla
Aðstæður fyrir austan þykja afspyrnu góðar fyrir laxeldi frá landfæðilegu sjónarmiði sökum þess að þar er að finna djúpa firði og en ekki síst öflugt fólk sem starfar við eldið og vinnsluna.
Útgerðarfélagið Vísir á Djúpavogi hafði verið með fiskvinnslu á staðnum og var leitað eftir samstarfi við að slátra laxinum í vinnslusalnum en þegar til átti að taka þá var annað látið ganga fyrir. Vísismenn fóru síðar frá Djúpavogi og afhentu Fiskeldi Austfjarða vinnsluhúsið sem tókst að halda þar í vinnu á bilinu 20 til 30 manns og þar með halda samfélaginu gangandi ásamt því að fá úthlutað byggðakvóta svo hægt væri að róa til fiskjar á móti. Vinnsluhúsið var og er nægilega stórt til að deila því í tvo hluta, hvar í öðrum hlutanum fer fram vinnsla á þorski og öðrum fiski sem veiðist og laxaslátrunin fer fram í hinum hlutanum.
Vinnslan á eldislaxi í dag telur um 150 tonn af laxi á dag sem er búið ganga frá, pakka í kassa og raða út í gám til flutnings í lok dags.

Framtíðarsýn
Allt snýst um stærðarhagkvæmni, en í dag er framleiðslumagnið ekki nægilegt til að setja upp fullvinnslu þannig að öðru hverju verður framleiðsluhlé sem er viðráðanlegt á meðan ekki er fleira fólk í vinnu.
Til að unnt verði að ná upp æskilegri stærðarhagkvæmni þá þarf að fjárfesta enn frekar í stórum og dýrum tækjabúnaði til að auka framleiðsluna enn frekar og sækja á fleiri markaði erlendis. Það er framtíðarsýn þeirra hjá Fiskeldi Austfjarða.

Nesbala 122
170 Seltjarnarnesbæ
8960426
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd