Fyrirtækið Fiskmarkaður Vestfjarða í þeirri mynd sem við þekkjum í dag var stofnað árið 2013 þegar Fiskmarkaður Bolungarvíkur og Suðureyrar og Fiskmarkaður Vestfjarða sameinuðust undir nafni þess síðarnefnda. Eigendur Fiskmarkaðs Vestfjarða eru Jakob Valgeir ehf., B15 ehf., Fimbull ehf. og Sammi ehf. Fyrirtækið er til húsa á tveimur stöðum, að Árbæjarkanti 3 og Hafnargötu 12. Í Árbæjarkanti eru skrifstofur, móttaka, slægingaraðstaða, kælir og útkeyrslusalur. Í Hafnargötu er að finna aðstöðu fyrir lyftara, ísvélina, kæli og fleira. Ekki líður þó að löngu þar til að starfsemi fyrirtækisins flytur öll í glænýtt og stærra húsnæði sem verið er að byggja og áætlað er að verði tilbúið í haust. Kemur nýja húsnæðið til með að leysa allt eldra húsnæði af og verður öll starfsemi Fiskmarkaðar Vestfjarða undir sama þaki. Með tilkomu nýja hússins getur fyrirtækið haldið áfram vaxa og dafna og boðið viðskiptavinum upp á framúrskarandi þjónustu.
Mannauður
Hjá markaðnum eru 18 stöðugildi á ársgrunni sem skiptast niður í sölu, afgreiðslu og móttöku, löndunarþjónustu og slægingarþjónustu. Nokkrar sveiflur eru í starfsmannahaldi eftir árstíma en yfir sumartímann þegar strandveiðar og sjóstangveiði byrja og dragnótaveiði eykst þá er oft þörf á fleiri starfskröftum. Framkvæmdarstjóri Fiskmarkaðs Vestfjarða er Samúel Samúelsson og hefur hann gegnt því starfi allt frá stofnun árið 2013. Á þessu tíma hefur reksturinn gengið vel og var fyrirtækið meðal annars í hópi framúrskarandi fyrirtækja á lista Creditinfo árið 2020. Þá eru samfélagsmál fyrirtækinu mikilvæg og hefur það alla tíð styrkt myndarlega við íþróttastarf á svæðinu.
Starfsemi
Starfsemi fyrirtækisins einskorðast þó ekki öll við Bolungarvík þar sem einnig er boðið upp á þjónustu á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Sú þjónusta er unnin af verktökum í samstarfi við Fiskmarkaðinn á hverjum stað fyrir sig og hefur það fyrirkomulag gengið vel.
Fiskmarkaður Vestfjarða er einn stærsti fiskmarkaður á Íslandi og sér meðal annars um að tengja saman útgerðir og fiskvinnslur og miðla fiski frá seljendum til kaupenda. Fiskmarkaðurinn vinnur bæði fyrir kaupendur og seljendur og veitir þeim margvíslega þjónustu í tengslum við meðhöndlun á fiski. Nýverið gerði Fiskmarkaður Vestfjarða samstarfssamning við kerjaleigufyrirtækið iTUB ehf. um að iTUB sjái fiskmarkaðnum og þeirra viðskiptavinum fyrir kerjum fyrir landaðan afla sem lagður er upp til fiskmarkaðarins á Bolungarvík, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Það sem átti stóran hlut í því að markaðurinn ákvað að taka upp ITUB kör er meðal annars það hversu umhverfisvæn þau eru og hversu góða stefnu ITUB er með sem varðar endurnýtingu og endurvinnslu. Þá halda kerin einnig betur þyngd sinni og rétt vigtun afla upp úr sjó á hafnarvigt er lykillinn að því að viðskipti seljanda og kaupanda séu rétt. En allir hlutaðeigandi þurfa að geta treyst því að vigt umbúða sé sem stöðugust til að afli sér rétt vigtaður.
Þrátt fyrir kórónuveirufaraldur um allan heim hefur gengið merkilega vel að selja fisk og var meðalverð gott á síðasta ári. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út þarna í mars í fyrra og gripum við til þess að setja hluta af fólkinu okkar á hlutabótaleiðina, en fljótlega kom í ljós að ótrúlega vel rættist úr sölumálum. Við endurgreiddum því mánuði síðar það sem við höfðum fengið vegna hlutabóta. Verð fyrir fiskinn lækkaði á þessum tíma, en það voru kaupendur að aflanum áfram og bátarnir gátu haldið áfram að róa. Það mátti hins vegar ekki mikið út af bregða og ef magnið var of mikið kom það strax fram í verði og um tíma voru ekki full afköst. Frá því faraldurinn hófst gripum við strax til sóttvarnaraðgerða með því að auka þrif og vera ekki fleiri í vinnu á sama tíma en mátti hverju sinni. Þá var um tíma grímuskylda á staðnum, en í dag er bara að fylgja þessu almenna, spritta sig og mæta ekki til vinnu ef minnstu einkenni eru til staðar.
Árið hefur farið ágætlega af stað en á hverju ári selur markaðurinn um 12.000 – 14.000 tonn sem boðinn er upp eða seldur í beinni sölu alla uppboðsdaga á árinu. Fimm línubátar frá Bolungarvík landa hjá markaðnum en það eru; Otur II ÍS, Einar Hálfdáns ÍS, Jónína Brynja ÍS, Fríða Dagmar ÍS og Guðmundur Einarsson ÍS. Einnig landa þar dragnótabátarnir Þorlákur ÍS, Ásdís ÍS, Finnbjörn ÍS, Egill ÍS og togarinn Sirrý ÍS að hluta. Jakob Valgeir ehf. gerir út þrjá línubátanna og togarann og er stærsti hluthafinn í fiskmarkaðnum, sem sér einnig um slægingu fyrir útgerðina og fleira. Ásamt þessum bátum bætast svo við aðkomubátar af og til yfir árið ásamt strandveiðibátum og sjóstangveiðibátum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd