Fiskmarkaður Íslands hf.

2022

Fiskmarkaður Íslands hf. rekur uppboðsmarkað með fisk á Íslandi, fyrirtækið er brú milli útgerðar og fiskvinnslu. Hann miðlar fiski frá seljendum til kaupenda og annast alla umsýslu við þá yfirfærslu. Grundvallarmarkmið starfseminnar er að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart þeim er skipta við markaðinn. Fiskmarkaðurinn vinnur því bæði fyrir kaupendur og seljendur og veitir þeim margvíslega þjónustu í tengslum við meðhöndlun fisksins. Meirihluti þess afla sem seldur er hjá Fiskmarkaði Íslands er af dagróðrarbátum og er fiskurinn oftast seldur áður en honum er landað. Það tryggir kaupandanum góðan og ferskan fisk. Við löndun er þess gætt að fiskurinn sé vel ísaður og að honum sé raðað í einangruð fiskker, jafnframt er hitastig fisksins mælt og það skráð.
Allur fiskur er seldur á uppboði sem fer fram á internetinu í gegnum uppboðskerfi Reiknistofu fiskmarkaða alla virka daga sem og sunnudaga að aðskildum sumarmánuðum. Kaupendur geta tengst uppboðskerfinu frá tölvum sínum hvar sem er í heiminum og boðið í allan þann fisk sem er í boði víða um land. Það fyrirkomulag er mikil bylting frá því sem áður var þegar fiskur var aðeins boðinn upp á hverri starfsstöð fyrir sig á staðbundnum markaði. Fiskmarkaður Íslands heldur á tæpum 40% eignarhaldi í Reiknistofu Fiskmarkaða.

Gæði og vottanir
Fiskmarkaður Íslands leggur mikið upp úr gæðum og tryggir að hráefnið sé geymt við kjöraðstæður hverju sinni. Í febrúar 2017 fékk flokkunar- og slægingarstöð fyrirtækisins rekjanleikavottun MSC og staðfestir sú vottun að hráefni sem fer í gegnum stöðina sé upprunnið úr sjálfbærum fiskstofnum. Reiknistofa fiskmarkaða hefur einnig fengið rekjanleikavottun MSC sem þýðir að allur fiskur sem fellur undir þær fisktegundir sem hafa verið vottaðar og er seldur á uppboði frá Fiskmarkaði Íslands er með slíka vottun, nema fiskurinn komi frá öðrum seljendum en skipum og bátum sem ekki hefur hlotið rekjanleikavottunina. Krafa um MSC vottun hefur aukist mikið síðastliðin ár og með þessu móti hefur Fiskmarkaður Íslands komið til móts við þær auknu kröfur sem gerðar eru til hráefnisins.

Sagan
Fiskmarkaður Íslands hf. á sér sögu allt frá árinu 1991 þegar félagið var fyrst stofnað í nóvember það ár undir heitinu Fiskmarkaður Breiðafjarðar hf. Um var að ræða samstarfsverkefni hjá sveitarfélögunum á Snæfellsnesi en fyrir þann tíma var mikið magn af fiski flutt burt af svæðinu. Með stofnun fiskmarkaðsins vildu Snæfellingar m.a. efla atvinnulíf á svæðinu ásamt því að bæta stöðu sjávarútvegs í héraðinu.

Starfsemin
Eiginleg starfsemi Fiskmarkaðar Breiðafjarðar hf. hófst með opnun starfsstöðvar í Ólafsvík og fór fyrsta uppboðið fram 8. janúar 1992. Fljótlega voru einnig opnaðar starfsstöðvar í öðrum þéttbýliskjörnum á Snæfellsnesi. Fyrst um sinn var starfsemi félagsins rekin í leiguhúsnæði. Árið 1997 var nýtt hús tekið í notkun á hafnarsvæðinu í Ólafsvík undir aðalstöðvar félagsins, þar sem aðalstöðvar Fiskmarkaðs Íslands hf. eru enn, og ári síðar festi félagið kaup á húsnæði í Rifi. Við það breyttist öll aðstaða og ásýnd félagsins til hins betra. Þarna mátti öllum hafa verið orðið ljóst að með víðtæku samstarfi Snæfellinga hafði tekist að byggja upp sterkt og öflugt fyrirtæki á svæðinu.
Á árunum 1999-2001 tvöfölduðust umsvif félagsins. Árið 1999 var Fiskmarkaður Snæfellsness hf., sem einnig var rekinn í Ólafsvík, sameinaður félaginu og ári síðar var Faxamarkaður hf. í Reykjavík, sem einnig var með starfsemi á Akranesi, sameinaður Fiskmarkaði Breiðafjarðar hf. og nafni þess breytt í Fiskmarkaður Íslands hf. Á árinu 2001 keypti félagið allt hlutafé i Fiskmarkaði Suðurlands hf. og sameinaði það Fiskmarkaði Íslands hf. Við það bættist við starfsstöð í Þorlákshöfn.
Flokkunar- og slægingarþjónusta í Rifi bættist við starfsemina 2006 og á árinu 2007 var allt hlutafé í fiskmarkaðnum Örva ehf. á Skagaströnd keypt og það félag sameinað Fiskmarkaði Íslands hf.
Eftir mikinn vöxt á ekki löngum tíma tóku við ár þar sem starfsemi og rekstur Fiskmarkaðs Íslands gekk vel og var félagið var með starfsemi á níu stöðum á landinu.

Þjónustan
Til að bæta þjónustu við viðskiptamenn opnaði Fiskmarkaður Íslands nýja starfsstöð í Bolungarvík haustið 2017 og ári síðar var opnuð ný starfsstöð á Sauðárkróki. Í nóvember árið 2017 lokaði félagið aftur á móti starfsstöð sinni á Akranesi vegna minni umsvifa á því svæði.
Félagið er í dag með starfsemi á tíu stöðum: Arnarstapa, Bolungarvík, Grundarfirði, Ólafsvík, Reykjavík, Rifi, Sauðárkróki, Skagaströnd, Stykkishólmi og Þorlákshöfn.
Starfsemi Fiskmarkaðs Íslands hf. hefur frá upphafi gengið vel og haft jákvæð áhrif á sjávarútveg og samfélögin á starfssvæði sínu. Á síðustu árum hefur félagið selt á bilinu 28-30% af heildarafla sem seldur er á uppboði á fiskmörkuðum landsvísu. Árangur við uppbyggingu og rekstur Fiskmarkaðs Íslands hefur frá upphafi byggst á traustu starfsfólki og viðskiptavinum félagsins

Stjórn
Guðmundur Smári Guðmundsson, formaður.
Meðstjórnendur: Illugi Jens Jónasson, Kristján Guðmundsson, Pétur Pétursson og
Sigurður V. Sigurðsson.
Aron Baldursson, framkvæmdastjóri.

Norðurtangi 6
355 Ólafsvík
430-3700
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd