Miðlun sjávarafurða frá fiskiskipum til neytenda hefur þróast ört á síðustu þrjátíu árum. Með tilkomu fiskmarkaða hafa söluferli orðið skilvirkari og allar boðleiðir styst til muna sem stuðlar að hraðara söluferli, þannig að ferskleiki og gæði vörunnar haldast óskert alla leið. Í dag eru afurðir boðnar upp á frjálsum uppboðsmarkaði og geta viðskiptavinir í því skyni nýtt sér fullkomin uppboðskerfi á Internetinu. Þetta gerir að verkum að stærsti hluti viðskipta fer fram úti á rúmsjó, afurðin hefur jafnan verið seld þegar spriklandi fiskurinn kemur inn fyrir borðstokkinn. Þegar skipin koma í land bíða starfsmenn fiskmarkaða við bryggju og eru reiðubúnir að taka við aflanum og miðla honum til framleiðenda.
Starfsemin
Í dag er Fiskmarkaður Suðurnesja næststærstur sinnar tegundar hér á landi. Megintilgangur starfseminnar er að reka öflugt miðlunarnet sjávarafurða um land allt auk þess að stýra reglulegum uppboðum í landi. Aðalskrifstofa fyrirtækisins er að Hafnargötu 8 í Sandgerði en útstöðvar eru reknar við fjórar aðrar hafnir sem er að finna í Grindavík, á Ísafirði, á Höfn á Hornafirði og í Hafnarfirði. Fiskmarkaður Suðurnesja fer jafnframt með hlut í Fiskmarkaði Siglufjarðar (75%), Fiskmarkaði Patreksfjarðar (51%), Umbúðamiðlun (38,7%) og Reiknistofu fiskmarkaða (53%).
Starfsfólk
Hjá Fiskmarkaði Suðurnesja starfa 20 manns sem sinna fjölþættum hlutverkum um land allt. Fyrirtækið þykir eftirsóttur vinnustaður en meðalstarfsaldur þar er um 15 ár. Meðaltalsvelta á ársgrundvelli er um 460 milljónir króna.
Samræmd uppboð
Fiskmarkaður Suðurnesja er sá elsti sinnar tegundar sem enn er starfræktur. Starfsemin hófst þann 24. maí 1987 og fór fyrsta uppboðið fram þann 14. september sama ár. Strax í upphafi var ákveðið að halda uppboð á nýveiddu sjávarfangi á tveimur stöðum samtímis, í Njarðvík og Grindavík. Þetta var fyrir tíma Internets og farsíma og því notuðust kaupendur og seljendur við þá einföldu aðferð að hringja hver í annan úr borðsímum. Þrátt fyrir frumstæða tækni til að byrja með tóku fleiri fiskmarkaðir að bætast við eins og Hafnarfjörður, Þorlákshöfn og Sandgerði. Árið 1992 stóð Fiskmarkaður Suðurnesja í fyrsta skipti fyrir rafrænu uppboði með samræmdri tækni síma og tölvu. Með því var stigið mikilvægt skref í stofnun Reiknistofu fiskmarkaða sem einnig kemur við sögu í þessu ritverki. Meginhlutverk hennar er að tengja saman alla fiskmarkaði landsins í gegnum sölu- og uppboðskerfi ásamt umsjón með sérhæfðri uppboðsklukku. Reiknistofa fiskmarkaða sér jafnframt um alla umsýslu uppboðskerfa og greiðslumiðlun, auk þess að hafa auga með hvort allar ábyrgðir séu í lagi. Þetta fyrirkomulag samræmdra uppboða hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og þykir í raun einsdæmi í heiminum, sem fleiri þjóðir hafa tekið upp þó í litlum mæli sé.
Þjónusta við sjávarútveginn
Þegar starfsemi Fiskmarkaðs Suðurnesja hófst var þjónustuhluti fyrirtækisins frekar ómótaður. Engar móttökustöðvar voru starfræktar og var ætlast til þess að kaupendur kæmu sjálfir upp að skipshlið og vitjuðu afurða sinna. Brátt kom í ljós að við þessar aðstæður væri full þörf á að mynda heppilega tengingu á milli seljenda og kaupenda. Í kjölfarið þróaðist þetta fyrirkomulag hjá Fiskmarkaði Suðurnesja þar sem tekið er á móti nýveiddum sjávarafurðum við bryggju. Þar eru fiskikörin til reiðu og afurðir vigtaðar, ísaðar og teknar í hús áður en þeim er komið til kaupenda. Einnig gefst möguleiki á því að láta útvega fyrir sig ákveðna fisktegund eða vissa aflasamsetningu og er þá unnið að því að finna seljanda fyrir viðkomandi beiðni. Í öllu þjónustuferlinu verður síðan að hafa í huga að ferskleiki og útlit vörunnar búa til virði hennar gagnvart neytendum og því er lögð rík áhersla á að allur flutningur og afhending gangi snögglega og snyrtilega fyrir sig.
Framsækin miðlun sjávarafurða
Fiskmarkaður Suðurnesja er nútímalegur og framsækinn vinnustaður þar sem gagnvirk tölvuvæðing hefur orðið til þess að staðsetning athafnasvæða er ekki lengur nein fyrirstaða. Seljandinn er úti á sjó og kaupandinn í landi en saman eiga þeir blómleg viðskipti í gegnum uppboðskerfi fiskmarkaða og hittast jafnvel aldrei í eigin persónu. Af þessu má ráða að liðin er sú tíð þegar hafnarverkamenn á eyrinni eyddu morgninum við uppskipun eða útskipun og komu síðan að aðgerðarvinnu eftir hádegi. Í dag er fyrirkomulagið með þeim hætti að frá bátnum berast nákvæmar sundurliðanir á magni, samsetningu og stærð aflans ásamt tilkynningum um löndunarstað og komutíma. Stöðvarstjórar í hverri höfn sjá um að mata upplýsingar inn í uppboðskerfið. Síðan er það hlutverk Fiskmarkaðs Suðurnesja að sjá um að miðla aflanum til væntanlegra viðskiptavina með milligöngu Reiknistofu fiskmarkaða. Þróunin hefur orðið sú að um 65-70% sjávarafurða eru þegar seld áður en skipin ná landi. Sá fiskur sem eftir stendur er boðinn upp í móttökuhúsum fyrirtækisins og fara uppboð fram alla daga vikunnar nema laugardaga, kl. 13:00 að staðartíma.
Móttökuhús
Á ársgrundvelli fara í gegnum fyrirtækið um 25.000 tonn af sjávarafurðum. Tæplega helmingur hefur viðkomu í tveimur móttökuhúsum. Annað þeirra er 1.700 fm og er í höfuðstöðvunum í Sandgerði og hitt er um 1.400 fm og er að finna í Grindavík. Hið síðarnefnda var tekið í notkun árið 2008 og hlaut þetta sama ár sérstaka viðurkenningu frá Grindavíkurbæ fyrir snyrtilegt umhverfi. Að öðru leyti eru öll athafnasvæði fyrirtækisins hringinn í kringum landið eins og best verður á kosið.
Starfsemin á nýrri öld
Á nýrri öld hefur starfsemi Fiskmarkaðs Suðurnesja verið í sífelldri þróun og mikið verið hagrætt í rekstrinum en á sama tíma unnið hörðum höndum að því að efla skilvirkni og minnka allan rekstrarkostnað. Fyrirtækið hefur ýmist sameinast félögum sem það átti stóran hlut í eða selt önnur úr rekstrinum. Á sama tíma hefur rekstrinum á öðrum stöðum verið breytt. Þá hefur jafnframt mikil áhersla verið lögð á að hlúa vel að öllum vaxtarbroddum í rekstri en þegar þetta er ritað hefur t.d. markaðurinn á Höfn á Hornarfirði komið mjög vel út á ársgrundvelli. Í farsælum rekstri Fiskmarkaðs Suðurnesja er framtíðin uppfull af ferskum tækifærum.
Framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja hf. síðustu 19 árin hefur verið Ragnar H. Kristjánsson. www.fms.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd