Fiskmarkaður Vestmannaeyja hf.

2022

Sjávarútvegur hefur ávallt verið einn af máttarstólpum Vestmannaeyja og því liggur í augum uppi að hér þurfi að vera starfandi fiskmarkaður.

Sagan
Boðað var til stofnfundar um rekstur Fiskmarkaðar í Vestmannaeyjum 8. október 1987 og formlega tók markaðurinn til starfa 12. janúar 1988 er fyrsta uppboðið fór fram undir stjórn nýráðins framkvæmdastjóra, Finns Sigurgeirssonar. Stjórnina skipuðu stjórnarformaður Sigurður Einarsson, Arnar Sigurmundsson, Steingrímur Sigurðsson, Bjarni Sveinsson, Hilmar Rósmundsson og Jóhannes Kristinsson.
Þessi mynd af Fiskmarkaði Vestmannaeyja var þó ekki mjög langlíf þar sem það vantaði betri tengsl uppá land og of fáir kaupendur hér á eyjunni.
Þar var þó farið af stað aftur árið 1991 þegar félagarnir Sigurður Gísli Þórarinsson og Snorri Jónsson ákváðu að láta slag standa og stofna Fiskmarkað Vestmannaeyja, aftur.
Þeir ráku þá hvor sitt útflutningsfyrirtækið hér í bæ og voru farnir að selja fisk bæði innan bæjar og upp á land án þess að hafa nokkra greiðslutryggingu. Þetta fannst þeim óvarlegt og ótryggt gagnvart útgerðum þeim sem þeir seldu fyrir og ræddu þetta oft á bryggjunum og bar allt að sama brunni, þeim fannst að þetta væri möguleiki.
Eitt af því fyrsta sem þurfti að athuga var hvort Herjólfur, og þá sérstaklega nýr Herjólfur, mundi flytja fisk til meginlandsins ef hann seldist þangað. Svarið var jákvætt en það gekk illa að fá fiskinn fluttan þegar að kom og gekk svo langt að einu sinni var fullum vagni, sem búið var að koma um borð og ganga frá, ekið aftur í land hér og fiskurinn skilinn eftir. En þetta er auðvitað liðin tíð og nú fer ferskur fiskur á hverjum virkum degi milli lands og eyja með Herjólfi.
Þeir félagar skrifuðu fiskverkendum, útgerðum og þjónustufyrirtækjum við sjávarútveginn og töldu að þau fyrirtæki sem þjónuðu flotanum hefðu áhuga á að halda bátunum heima við, en mikið var farið að bera á því að útgerðarmenn létu báta sína landa á stóru fiskmörkuðunum í Hafnarfirði og Reykjavík. Þar með fluttist þjónusta við þessa báta að einhverju leyti úr plássinu. Einnig fannst þeim að með tilkomu markaðar hér væri líklegt að aðkomubátar kæmu til löndunar og þyrftu þar með einhverja fyrirgreiðslu. En skemmst er frá að segja að sárafá þjónustufyrirtæki sáu sér hag í því að taka þátt í opnun markaðarins. Eftir að hafa rætt við ýmsa aðila, tryggt sér húsnæði og fleira var haldinn undirbúningsfundur í Alþýðuhúsinu. Þar mættu allmargir heimamenn ásamt stórum hópi Suðurnesjamanna sem hingað kom með þá hugsun að stofna hér útibú frá Fiskmarkaði Suðurnesja. En það varð úr að á þessum fundi var kosin undirbúningsnefnd að stofnun fiskmarkaðar.
Nefnd þessi hóf störf þá um haustið og ákveðið að hefja rekstur markaðar í byrjun vertíðar. Formlegur stofnfundur var svo haldinn í Akógeshúsinu þann 4. október 1991.
Fyrsta uppboðið fór fram í ársbyrjun 1992 og voru seld 418 tonn fyrsta mánuðinn. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið af fiski verið selt í gegnum FMV.

Aðsetur
Á tveggja ára afmæli markaðarins var svo komið að hann var búinn að sprengja utan af sér upphaflega húsnæðið, þó að mönnum þætti það gróflega stórt í upphafi. Fiskmarkaðurinn fluttist í Stakkhúsið en er nú til húsa á botni Friðarhafnar.

Þjónusta
Fiskmarkaður Vestmannaeyja hefur fest sig í sessi hér á landi og á ári fara um 5.500 tonn af fiski í gegnum markaðinn.
Fiskmarkaður Vestmannaeyja þjónustar aðallega útgerðirnar hér í Vestmannaeyjum og einnig þær fjölmörgu trillur sem eru duglegar við veiðar. Fiskurinn kemur í hús og er vigtaður eftir kúnstarinnar reglum áður en hann er skráður á uppboð Reiknistofu Fiskmarkaðanna. Þar er hann boðinn upp og að lokum sendur um land allt til þeirra fjölmörgu kaupenda sem skráðir eru. Á sama tíma og þetta er starf sem krefst mikillar vinnur þá þarf að vanda til verka. Fiskurinn þarf að vera rétt vigtaður svo allar upplýsingar séu réttar, bæði fyrir seljendur og kaupendur.
Kaupendur og seljendur treysta því að rétt sé farið með hráefnið og að allir viti hvað þeir eru að kaupa og selja. Það getur reynst krefjandi að vigta og skrá allan afla fyrir uppboðið á hverjum degi og þá sér í lagi þegar nokkur hundruð kör af fiski er landað á morgnana. Það er þó þannig að starfsmenn Fiskmarkaðs Vestmannaeyja er duglegt fólk sem lætur þétta vinnutörn ekki á sig fá.

Starfsfólk og stjórnendur
Hjá fyrirtækinu starfa 4 starfsmenn og stjórn Fiskmarkaðs Vestmannaeyja er þannig skipuð:
Stjórnarformaður: Eyþór Harðarson. Stjórn: Aron Baldursson, Leifur Gunnarsson, Sindri Viðarsson og Þórður Rafn Sigurðsson. Framkvæmdastjóri: Garðar B. Sigurjónsson.

Botni v/ Friðarhöfn
900 Vestmannaeyjum
4813220
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd