Fiskmarkaðurinn / Grillmarkaðurinn

2022

Eftir nám fór Hrefna að starfa á Sjávarkjallaranum sem var nýbúið að opna og starfaði þar til ársins 2007. Þá opnaði hún Fiskmarkaðinn ásamt Ágústi Reynissyni sem hún kynntist á Sjávarkjallaranum. 2011 opnuðu þau svo Grillmarkaðinn ásamt Guðlaugi P. Frímanns-
syni. Grillmarkaðurinn er rammsílenskur veitingastaður hvað snertir hönnun, stíl og matreiðslu. Unnið er náið með bændum landsins til að fá sem allra best hráefni til að matreiða úr. Grillmarkaðurinn fagnar um þessar mundir 10 ára afmæli en hann opnaði árið 2011 eins og áður kom fram og sló rækilega í gegn frá fyrsta degi. Grillmarkaðurinn hefur síðan verið á meðal vinsælustu veitingastaða landsins. Eins og áður sagði er uppspretta hráefnisins í hávegum höfð og taka reyndir matreiðslumenn við því til úrvinnslu með Hrefnu Rósu Sætran fremsta í flokki. Notast er við reyk, kol, eld og við til að ljá matnum sitt einstaka bragð.

Fiskmarkaðurinn ehf.
var stofnaður í ágústmánuði árið 2007. Stofnendur voru Hrefna Rósa Sætran, meistarakokkur og Ágúst Reynisson, meistaraþjónn. Leitast er við að bjóða gestum staðarins upp á hágæða afurðir úr fersku hráefni í bland við kraftmikið og hlýlegt andrúmsloft. Fiskmarkaðurinn hefur enda notið mikilla vinsælda allt frá opnun. Vel er fylgst með stefnum og straumum í matreiðslu og segja má að við höfum í raun aldrei verið betri en einmitt núna. Litir, ilmur og hljóð fylla hugann í morgunsárið þegar fiskurinn er keyptur beint upp úr bátnum. Ferska og svala loftið er þrungið af möguleikum, sem kitla bragðlaukana og leyfa meðvitundinni að njóta líðandi stundar. Fiskmarkaðurinn er að Aðalstræti 12, 101 Reykjavík.

Grillmarkaðurinn ehf.
Staðsetning Grillmarkaðarins fer ekki framhjá neinum sem gengur um miðbæ Reykjvíkur. Húsið sem stendur á gatnamótum Lækjargötu og Austurtrætis á sér glæsta fortíð en það var upphaflega byggt sem kvikmyndahús árið 1920. Hét þá Nýja bíó. Þar var rekið kvikmyndahús allt til ársins 1987. Þá var því breytt í skemmtistað sem varð svo eldi að bráð árið 1988. Í framhaldi af því var húsið rifið. Það voru svo eigendur Grillmarkaðarins sem sáu um hönnun veitingastaðarins í endurbyggðu húsi sem leit dagsins ljós árið 2011. Við hönnunina var notast við íslensk efni eftir því sem við var komið. Sem sagt íslenskt hráefni eins og við matargerðina. Má þar nefna til sögunnar fiskiroð, leður, hraun og bergtegundir úr íslenskri náttúru. Útkoman er eftirminnilegur staður, þar sem bæði er skemmtilegt og notalegt að njóta stundarinnar og góðs matar. Í veitingahúsinu eru hliðarherbergi sem henta vel til að taka á móti misstórum hópum, sem kjósa að vera út af fyrir sig. Mikil eftirspurn er eftir veitingastöðum sem geta tekið á móti stórum hópum sem njóta vilja samveru á góðum veitingastað.
Grillmarkaðurinn er Lækjargötu 2a, 101 Reykjavík.

Eigendur og starfsfólk
Grillmarkaðurinn er enn í eigu Hrefnu Rósu Sætran og félaga sem og Fiskmarkaðurinn. Hafa þeir verið tveir af allra best reknu stöðunum í miðbæ Reykjavíkur um margra ára skeið. Auk þess á fyrirtæki hennar hluta í barnum Skúla Craft Bar síðan 2016.
Hrefna hefur verið mjög áberandi í fjölmiðlum undanfarin ár. Hún hefur meðal annars stýrt matreiðsluþáttum, gefið út matreiðslubækur og eigin vörulínur. Hluti af skýringu velgengni Grill- og Fiskmarkaðarins er kannski fólginn í því að vel er gert við starfsfólkið. Starfsfólkið okkar vinnur lengi með okkur og kemur gjarnan aftur til okkar. Við berum mikla virðinu fyrir þeim og vinnum náið með yfirmönnum þar sem hugmyndir allra fá að skína.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd