Fjallabyggð varð til við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar árið 2006. Í bæjarfélaginu eru tveir þéttbýliskjarnar, bæirnir Ólafsfjörður og Siglufjörður. Í seinni tíð hefur fjölbreytnin í atvinnulífinu aukist og mikill vaxtarbroddur er í hátækniiðnaði og ferðaþjónustu. Fjallabyggð býr að stórbrotinni náttúrufegurð þar sem fegurð fjalla og fjarða er stórfengleg og möguleikar á sviði útivistar og tómstunda eru óþrjótandi. Návígið við náttúruna er ávallt innan seilingar. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru í Fjallabyggð og Skógræktin í Skarðsdal á Siglufirði er sannkölluð náttúruperla, hvort sem er að vetri eða sumri. Ólafsfjarðarvatn, sem er á náttúruminjaskrá, er mjög sérstakt náttúrufyrirbrigði. Tvær hafnir eru í Fjallabyggð; Ólafsfjarðarhöfn og Siglufjarðarhöfn. Töluverð umsvif hafa verið hjá höfnunum í Fjallabyggð. Til viðbótar við landanir úr stórum og smáum fiskiskipum koma skemmtiferðaskip reglulega til Siglufjarðar yfir sumarið. Fyrsta skemmtiferðaskipið kom árið 1990. Frá árinu 2015 hefur komum skemmtiferðaskipa farið fjölgandi jafnt og þétt. www.fjallabyggd.is
Öflugt skóla- og íþróttastarf
Fjallabyggð býr við þá sérstöðu að þar er starfandi leik-, grunn- og framhaldsskóli ásamt tónlistarskóla. Í því felast tækifæri til að auka menntunarstig samfélagsins og að tryggja íbúum farsæla búsetu. Grunnskólinn starfar á tveimur starfstöðvum þar sem yngri börn sækja skóla á Siglufirði og eldri börn í Ólafsfirði. Skólarúta ekur á milli bæjarkjarna. Leikskóli Fjallabyggðar er starfandi í báðum bæjarkjörnum og er boðið upp á leikskólavist frá 12 mánaða aldri. Í Fjallabyggð er öflugt íþróttastarf. Íþróttamiðstöðvar eru í báðum byggðakjörnum, í Ólafsfirði er útisundlaug og líkamsrækt. Á Siglufirði er innisundlaug og líkamsrækt. Aðal knattspyrnusvæði Fjallabyggðar er í Ólafsfirði en einnig er knattspyrnuvöllur við Hól á Siglufirði. Tveir 9 holu golfvellir eru í Fjallabyggð. Ólafsfjörður nýtur vaxandi áhuga þeirra sem stunda sjóbretti enda hentar fjörðurinn ákaflega vel fyrir þá tómstundaiðju. Í Fjallabyggð eru einnig tvö skíðasvæði, skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði og skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði.
Blómlegt menningar- og listastarf
Í Fjallabyggð er blómlegt menningarlíf, fjöldi gallería og listamannavinnustofa, safna og setra. Fjöldi félagasamtaka setur svip sinn á bæjarbraginn með öflugu starfi og ýmsum viðburðum. Hér eru haldnar veglegar tónlistar- fjölskyldu- og íþróttahátíðir á hverju ári sem fjöldi gesta sækir.
Söfn og setur
Síldarminjasafn Íslands – Síldarminjasafnið er eitt stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins. Í þremur ólíkum húsum kynnumst við síldveiðum og vinnslu á silfri hafsins. Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnverðlaunin árið 2000 er þau voru veitt í fyrsta sinn og Evrópuverðlaun safna árið 2004, Micheletti verðlaunin, þegar safnið var valið besta nýja iðnaðarsafn Evrópu það árið.
Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar – Hlutverk Þjóðlagasetursins er að varðveita og kynna íslensk þjóðlög og þjóðdansa með upptökum, útgáfu, sýningum, tónleikum og árlegri Þjóðlagahátíð á Siglufirði.
Ljóðasetur Íslands – Á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði er hægt að kynna sér strauma og stefnur í íslenskum kveðskap allt frá landnámsöld til okkar tíma.
Listasafn Fjallabyggðar – Fjallabyggð á hátt í 200 listaverk eftir okkar þekktustu listamenn eins og Kjarval, Erró, Þorvald Skúlason, Nínu Tryggvadóttur og Alfreð Flóka auk nokkurra erlendra listamanna og er þar þekktastur Salvador Dali.
Pálshús – Náttúrugripasafnið í Ólafsfirði – Pálshús hýsir Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar og hina skemmtilegu grunnsýningu ,,Flugþrá”. Þar má skoða alla íslensku fuglaflóruna ásamt því að fjallað er um flugþrá mannsins og draum hans að geta flogið.
Saga-Fotografica – Ljósmyndasögusafnið á Siglufirði – Á safninu eru til sýnis fjölbreytt tæki og tól sem tengjast ljósmyndun. Safnið stendur einnig fyrir ljósmyndasýningum í húsinu.
Árlegir viðburðir í Fjallabyggð
Sjómannadagshátíð í Ólafsfirði fyrstu helgina í júní.
Sjómannadagurinn hefur lengi verið haldinn hátíðlegur í Ólafsfirði þar sem lögð er áhersla á dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Þjóðlagahátíð á Siglufirði fyrstu vikuna í júlí
Þjóðlagahátíðin er alhliða tónlistarhátíð með rót sína í þjóðlagaarfinum.
Trilludagar á Siglufirði
Trilludagar eru öðruvísi fjölskylduhátíð sem haldin er á Siglufirði síðasta laugardag í júlí.
Á Trilludögum er gestum boðið frítt á sjóstöng út á fjörðinn fagra. Skemmtileg afþreying og skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Berjadagar klassísk tónlistarhátíð í Ólafsfirði í ágúst
Á Berjadögum er lögð áhersla á klassíska tónlist þar sem fjölbreytileikinn ræður ríkjum. Fjölmargir listamenn víðs vegar að koma fram á hátíðinni.
Ljóðahátíðin Haustglæður á Siglufirði í september/október
Ungmennafélagið Glói og Félag um Ljóðasetur Íslands heldur árlega Ljóðahátíðina ,,Haustglæður” þar sem landsþekkt skáld koma í heimsókn og heimamenn láta ljós
sitt skína.
Árið 2006 sameinuðust Ólafsfjarðarbær og Siglufjarðarkaupstaður undir nafni Fjallabyggðar. Á milli þeirra liggur mikilfenglegt samgöngumannvirki Héðinsfjarðarganga sem nær yfir heila 11 km, í tveimur hlutum, en fjarlægðin á milli bæjanna er um 17 km. Fjallabyggð byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi ásamt tengdri þjónustu við greinina. Í seinni tíð hefur helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins legið í ferðaþjónustu ásamt t.d. fjarvinnslu fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu, Heildaríbúafjöldi svæðisins er rúmlega 2.000 manns.
Héðinsfjarðargöng, sem rækilega hafa sannað gildi sitt, tengir bæina saman. Með tilkomu þeirra hefur Tröllaskagi orðið að ákjósanlegum áfangastað ferðalanga. Siglufjörður kom sterkur inn í könnun sem Ferðamálastofa gerði um ferðalög Íslendinga 2011 og lenti í fimmta sæti yfir þá staði sem flestir landsmenn heimsóttu á því ári.
Í Fjallabyggð eru tvö skíðasvæði, í Skarðsdal á Siglufirði og í Tindaöxl í Ólafsfirði. Skíðasvæðið í Skarðsdal má tvímælalaust telja með þeim bestu á landinu. Í Ólafsfirði er upplýst gönguskíðabraut sem nýtist göngufólki einnig að sumri til.
Öflugt skólastarf
Fjallabyggð er mjög ákjósanlegur og fjölskylduvænn framtíðarstaður, þar sem foreldrar geta tryggt börnum sínum góða og farsæla menntun.
Miklar breytingar hafa verið á undanförnum árum í skólamálum í Fjallabyggð. Árið 2010 sameinuðust skólarnir í Ólafsfirði og Siglufirði í einn leikskóla, einn tónskóla og grunnskóla. Mikil gróska og metnaðarfullt starf er unnið í nýju skólum sveitarfélagsins sem miðar að því að hlúa vel að hverjum einstaklingi fyrir sig. Unnið er eftir Olweusaráætlun gegn einelti í grunnskólanum líkt og víða annars staðar á landinu en einnig í leik- og tónskóla sem hefur vakið athygli á landsvísu. Heilbrigt skólastarfið er síðan undirstrikað með rekstri góðra íþróttahúsa og sundlauga á svæðinu.
Menntaskólinn á Tröllaskaga er dreifnámsskóli í Ólafsfirði sem hóf störf haustið 2010. Skólinn starfar eftir nýjum lögum um framhaldsskóla sem gefa aukið svigrúm í námsvali til stúdentsprófs og framhaldsskólaprófs. Menntaskólinn býður upp á metnaðarfullt nám með fjölbreyttum kennsluháttum sem miða að virkni nemenda og sjálfstæði.
Fagurt umhverfi
Fjallabyggð býr að stórbrotinni náttúrufegurð í „faðmi fjalla blárra“, þar sem möguleikar á sviði útivistar og tómstunda eru hreint óþrjótandi. Návígið við náttúruna er ávallt innan seilingar, hvort heldur haldið er í gönguferðir, farið í golf, skellt sér á skíði eða veitt í vötnum, ám eða sjó. Helsta aðdráttaraflið að þessu leyti er t.d. dorg- og stangveiðar í Ólafsfjarðarvatni og Ólafsfjarðará, miðnætursiglingar um firðina, fjölskrúðugt fuglalífið við Leirurnar, ásamt fjölþættum gönguleiðum um fjöll og dali. Við slíkar aðstæður hefur nær ósnortið og friðsælt náttúrufar Héðinsfjarðarins notið mikillar hylli hjá ferðafólki. Gönguleiðakort eru fyrirliggjandi inni á heimasíðunni: www.fjallabyggd.is. Til gamans má geta að örnefni Héðins- og Siglufjarðar er um 1.300, en þau má nálgast inni á
www.snokur.is
Ólafsfjarðarvatn sem er á náttúruminjaskrá er sérstakt fyrirbrigði í náttúrunni og þá hafa Snjóflóðavarnagarðarnir á Siglufirði vakið athygli fyrir góða hönnun og hafa hönnuðir hlotið viðurkenningar fyrir verkið.
Blómleg menning
Þéttbýliskjarnar Fjallabyggðar halda uppi blómlegu menningarstarfi þar sem félagsleg virkni er samgróin inn í bæjarbraginn á hverjum stað. Staðirnir eru margrómaðir fyrir öflugt og lifandi félagslíf sem fjölmörg félagasamtök, tónlistarhópar, kórar og leikfélög bera glöggt vitni um. Gallerí og listavinnustofur eru í Fjallabyggð sem gaman er að heimsækja. Samheldni bæjarbúa sýnir sig ekki síst með sérlega skemmtilegri veitingahúsamenningu, þar sem allir eru ófeimnir við að sýna sig og sjá aðra.
Gestrisni heimamanna nær síðan miklum hæðum með ýmsum árlegum uppákomum, annarsvegar með Blúshátíð og Berjadögum í Ólafsfirði og hinsvegar með Þjóðlagahátíð og Síldarævintýri á Siglufirði. Reitir, alþjóðlegt samstarfsverkefni skapandi greina, verður í fyrsta sinn haldið sumarið 2012 á vegum Alþýðuhússins, en þar er mikil áhersla lögð á fjölbreytni starfsgreina og skapandi hugsun. Síðasta skipulagða hátíðin er svo Ljóðahátíð á Siglufirði í september ár hvert.
Uppbygging safna á svæðinu hefur einnig verið mjög blómleg. Síldarminjasafn Íslands er stærsta iðnaðar- og sjóminjasafn landsins og hlaut evrópsku safnaverðlaunin 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn Evrópu. Á Siglufirði er líka að finna Þjóðlagasetrið, sem geymir mikið safn íslenskra þjóðlaga og í Ljóðasetri Íslands má finna ljóðabækur og hlusta á landsþekkt ljóðaskáld og aðra listamenn. Loks má nefna einkar áhugaverða listaverkaeign sveitarfélagsins en árið 1980 færðu hjónin Arngrímur Ingimundarson og Bergþóra Jóelsdóttir Siglfirðingum höfðinglega gjöf, alls 124 listaverk eftir okkar þekktustu listamenn. Með gjöfinni var lagður grunnur að Listasafni Fjallabyggðar. Í Ólafsfirði er að finna myndarlegt náttúrugripasafn.
Árlegt Nikulásarmót verður í Ólafsfirði um miðjan júlí, en um er að ræða fótboltamót fyrir unga og áhugasama knattspyrnumenn. Annað mót fyrir stelpur, Pæjumót er svo haldið á Siglufirði í ágúst.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd