Rúnar Óskarsson keypti sinn fyrsta hópferðabíl 1982. Tilgangurinn var að keyra börn úr hans sveit, Reykjahverfi, í Hafralækjarskóla í Aðaldal. Tíu árum seinna eða 1992 stofnaði hann og eiginkona hans Hulda Jóna Jónasdóttir, hlutafélag um starfsemina, það félag fékk heitið Rúnar Óskarsson hf. Það ár var hafist handa við að byggja verkstæði undir starfsemina, sem hafði þá þegar aukist og breyst, þar sem Rúnar var einnig farinn að keyra ferðamenn á sumrin fyrir innlendar ferðaskrifstofur. Einnig var hann á þessu tímabili búinn að smíða sjálfur lítinn fjórhjóladrifinn hópferðabíl heima hjá sér í bílskúrnum. Verkstæðið er í Smiðjuteigi 7, Reykjahverfi en þar eru höfuðstöðvar fyrirtækisins.
Starfsfólk og eigendur
Starfsmenn Fjallasýnar hafa gegnum öll árin séð alfarið sjálfir um viðhald, þrif, viðgerðir, nýsmíði og breytingar á öllum bílum, búnaði og húsnæði félagsins. Fyrirtækið hefur frá upphafi verið leiðandi á sviði fólksflutninga og afþreyingar á svæðinu. Fyrirtækið hefur verið svo heppið að hafa haft starfsmenn með ómetanlega starfsreynslu í viðhaldi og nýsmíði farartækja og búnaðar og hafa þessir starfsmenn flestir unnið hér um árabil. Eigendur eru Ásgeir Rúnar Óskarsson, sem jafnframt er framkvæmdastjóri og bílstjóri með meiru. Hulda Jóna Jónasdóttir sér um fjármál, bókhald og bókanir. Þau hjón eru enn þann dag í dag einu eigendur félagsins sem nú heitir Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf. Þau starfa enn við stjórnun fyrirtækisins. Einnig starfar við fyrirtækið næst elsti sonur þeirra Andri Rúnarsson en hann sér að stórum hluta um viðhald og snjómoksturshluta starfseminnar. Í hefðbundnu árferði er starfsmannafjöldi rúmlega 10 yfir vetrartímann en nær 20 á sumrin auk fjölda lausráðinna starfsmanna og verktaka sem koma að akstri og leiðsögn.
Starfsemin
Upp úr aldamótunum 2000 sameinaðist Rúnar Óskarsson ehf. og félagið Fjallasýn ehf. Þá var til einkahlutafélagið Fjallsýn Rúnars Óskarssonar ehf. með sömu kennitölu og Rúnar Óskarsson hf. fékk í upphafi. Rúnar stofnaði Fjallasýn ehf. með fleiri ferðaþjónustuaðilum í héraði 1997. Tilgangur þess félags var í upphafi starfsemi kringum vetrarferðamennsku út frá Húsavík. Þar var brotið blað í ferðaþjónustu á Íslandi því ekki hafði áður verið rekin afþreyingarferðaþjónusta út á landsbyggðinni að vetri með svo fjölþættri afþreyingu án lágmarksfjölda þátttakenda. Fjallasýn átti þá og rak ýmsan búnað til vetrarferðamennsku svo sem snjósleða, skíði og tilheyrandi búnað. Þetta var góð viðbót til betri nýtingar hópferðabíla Rúnars að vetri, en þeim hafði fjölgað smám saman á þessum tíma frá upphafsárunum. Um árabil kringum aldamótin 2000 bjó Fjallasýn til mikinn fjölda ýmiss konar náttúruskoðunarferða um Þingeyjarsýslur og víðar fyrir einstaklinga og litla hópa. Unnin var mikil nýsköpunar- og þróunarvinna kringum þá ferðamennsku, sem var að mestu með erlenda ferðamenn bæði að vetri og sumri. Ekki er lengur lögð áhersla á slíkar ferðir í dag, enda mörg önnur fyrirtæki farin að sinna slíkum ferðum. Starfsemi fyrirtækisins hefur þróast og breyst á þeim tæpu fjörtíu árum sem það hefur starfað. Eftir að augljóst var að ferðamennska að vetrarlagi stóð ekki traustum fótum, eftir að flugi til Húsavíkur var hætt í september 1999, var farið í að útvíkka verkefnin til að skapa fleiri heilsársstörf, en það er mjög erfitt að vera alltaf með nýtt starfsfólks í upphafi sumars þegar mesta vinnan er framundan. Keypt voru tæki og tól til snjómoksturs sem hefur sum ár gefið töluverða vinnu en minni önnur ár, allt eftir veðurfari. Upphafleg starfsemi hófst kringum akstur með skólabörn úr Reykjahverfi og hefur félagið (Rúnar) séð um þann akstur frá árinu 1982. Félagið sá einnig um akstur með skólabörn úr Kinn í Hafralækjarskóla í marga vetur kringum aldamótin. Í dag sér Fjallasýn um akstur með börn í skóla úr Reykjahverfi í Borgarhólsskóla á Húsavík, úr Reykjadal í Þingeyjarskóla í Aðaldal og úr Kelduhverfi í Öxarfjarðarskóla 2017-2021. Árið 2007 fól Sveitarfélagið Norðurþing, Fjallasýn að sjá um akstur sérbúins ferlibíls til akstur milli staða á Húsavík með fatlaða og eldri borgara og hefur fyrirtækið sinnt þeim akstri allar götur síðan. Megin starfsemi félagsins fyrir Covid 19 (og verður vonandi eftir Covid 19 líka) felst í akstri um Ísland með innlenda og erlenda ferðamenn, sér í lagi á sumrin. Mikil aukning hefur verið allra síðustu ár í akstri og leiðsögn úr skemmtiferðaskipum í Akureyrar- og Húsavíkurhöfn og víðar, allra síðustu ár. Um tíma átti Fjallasýn þó nokkra fjórhjóladrifsbíla sem leiddi til þess að mikið var ferðast um hálendið með hópa fyrir ferðaskrifstofur og einkaaðila, þar á meðal voru áætlunarferðir í Öskju á sumrin. Dregið hefur úr þessum ferðum enda bílaflotinn í dag í meira mæli svokallaðir götubílar.
Félagið er með leyfi til reksturs ferðaskrifstofu auk almenns rekstrarleyfis til aksturs hópferðabíla, breyttra bíla, bíla með ferðaþjónustuleyfi og farmflutninga.
Á veturna er starfsemin mest í kringum akstur með skólabörn, ferliþjónustu, akstur strætó fyrir Vegagerðina og einnig snjómokstur fyrir Landsvirkjun á leiðinni Þeistareykir – Húsavík en sú þjónusta hófst 2012 í tengslum við virkjunarframkvæmdir á Þeistareykjum. Fjallasýn sá um snjómokstur á heimreiðum í Reykjahverfi í yfir 20 ár.
Reksturinn
Fjallasýn á og rekur í dag 7 hópferðabíla 30 til 56 sæta, u.þ.b. tug minni hópferðabíla, auk jeppa og nokkurra smábíla. Auk þess 3 stórar dráttarvélar með snjóplógum og snjóblásurum, einnig stóra vörubifreið með tönn sem nýtist mest við snjóhreinsun og söndun á veginum milli Húsavíkur og Þeistareykja.
Reksturinn hefur gengið misvel, en alla tíð hafa eigendur lagt á sig mikla vinnu til að halda rekstrinum gangandi. Það er gaman að segja frá því að þrjú síðustu ár, þ.e. 2018, 2019 og 2020 var Fjallasýn eitt af fáum fyrirtækjum á svæðinu útnefnt „Framúrskarandi fyrirtæki“ af Credit Info. – Hvað sem verður eftir þetta skrítna ár 2020 þegar Covid 19 heimsfaraldurinn setur strik í allan atvinnurekstur í ferðaþjónustu og tekjufallið er allt að 90% í þeim þáttum rekstursins sem snúa að almennum fólksflutningum með ferðamenn.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd