Fjarðabyggð – Þú ert á góðum stað!
Fjarðabyggð er það sveitarfélag sem austast liggur á landinu og það fjölmennasta af sjö sveitarfélögum Austurlands, með um 5.000 íbúa. Það varð til við samruna 14 sveitarfélaga sem fór fram í nokkrum áföngum á árunum 1988 til 2018 og er Fjarðabyggð því eitt yngsta sveitarfélag landsins. „Þú ert á góðum stað“ eru kjörorð sveitarfélagsins.
Bæjarkjarnar sveitarfélagsins eru sjö talsins og jafnan kenndir við firðina eða víkurnar sem þeir standa við. Það er þó ekki einhlítt. Neskaupstaður í Norðfirði er fjölmennasta byggðin, með um 1.500 íbúa, en minnst er Brekkuþorp í Mjóafirði með 15 íbúa. Á Eskifirði eru íbúar um 1.000 talsins og tæplega 1.300 búa á Reyðarfirði. Á Fáskrúðsfirði eru íbúar um 700, um 200 manns búa á Stöðvarfirði og í Breiðdal búa um 200 manns.
Fjarðabyggð verður til
Á því svæði sem nú myndar Fjarðabyggð voru níu sveitarfélög árið 1987. Fyrr á öldum voru þau aðeins fimm, en þegar þéttbýli fór að myndast við ströndina, með aukinni útgerð um og uppúr aldamótunum 1900 og sérstaklega með tilkomu vélbáta skömmu síðar, urðu til sérstök sveitarfélög utan um þau flest, nánast landlaus, og líklega að kröfu betri bænda í eldri sveitarfélögunum. Fyrir árið 1988 voru eftirtalin sveitarfélög á því svæði sem nú er Fjarðabyggð talið að norðan: Mjóafjarðarhreppur, Norðfjarðarhreppur, Neskaupstaður, Helgustaða-hreppur, Eskifjarðarkaupstaður, Reyðarfjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur og Breiðdalshreppur. Árið 1998 varð fyrsta sameining sveitarfélaga á þessu svæði þegar Eskifjarðarkaupstaður, Neskaupstaður og Reyðarfjarðarhreppur sameinuðust formlega, að undangengnum íbúakosningum. Úr varð að nefna hið nýja sveitarfélag Fjarða-byggð. Fjarðabyggð varð þar með stærsta sveitarfélag á Austurlandi og voru íbúar þess um 3.300 talsins. Árið 2006 var haldið áfram á braut sameiningar en þá sameinuðust Fjarðabyggð, Austurbyggð, Mjóafjarðarhreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur undir nafni Fjarðabyggðar. Nokkru áður, árið 2003, höfðu Búðahreppur og Stöðvahreppur sameinast í sveitarfélagið Austurbyggð Það var svo að lokum í júní 2018 að Breiðdalshreppur og Fjarðabyggð sameinuðust. Að þeirri sameiningu lokinni eru íbúar Fjarðabyggðar orðnir rúmlega 5000 og sveitarfélagið eitt það víðfeðmasta á landinu.
Öflugt atvinnulíf og góð þjónusta
Fjarðabyggð byggir á sterkum grunni hvað atvinnu- og verðmætasköpun varðar. Gjöful fiskimið eru undan ströndum Austfjarða og er útgerð og vinnsla sjávarafurða ein af meginstoðum atvinnulífsins ásamt álframleiðslu og tengdum þjónustugreinum. Verslun og þjónusta gegna einnig mikilvægu hlutverki og hefur ferðaþjónusta vaxið hratt á undanförnum árum. Þá jókst mikilvægi landbúnaðar í Fjarðabyggð árið 2018 með sameiningu sveitarfélagsins við landbúnaðarhéraðið Breiðdal. Sjávarútvegur, fiskvinnsla og stóriðja eru aðalatvinnuvegir í Fjarðabyggð og þar eru þrjú af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, Síldarvinnslan h/f, Eskja hf. og Loðnuvinnslan hf., auk álvers Alcoa-Fjarðaáls. Nokkuð öflugur landbúnaður er í sveitarfélaginu, einkum í Breiðdal, Norðfjarðarsveit og í Fáskrúðsfirði. Frá því að álver Alcoa tók til starfa árið 2006 hafa farið fram miklar framkvæmdir við uppbyggingu innviða um allt sveitarfélagið. Skólabyggingar hafa verið endurnýjaðar og stækkaðar, stórt fjölnota íþróttahús risið og unnið hefur verið við uppbyggingu gatnakerfis og veitna. Í burðarliðnum er svo enn frekari innviðauppbygging á næstunni, framkvæmdir eru hafnar við nýtt íþróttahús á Reyðarfirði og undirbúningur fyrir stækkun leikskólans á Eskifirði er á lokametrunum.
Fjarðabyggðarhafnir eru næststærsta höfn landsins, með tæplega þriðjung af öllum vöruútflutningi landsmanna og sú stærsta ef eingöngu er litið til útflutnings áls og fiskafurða. Sjö hafnir eru í rekstri; í Mjóafirði, Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og á Breiðdalsvík. Starfsemi hafnanna er fjölbreytt og spannar allt frá Norðfjarðarhöfn og Mjóeyrarhöfn, sem eru með stærstu höfnum landsins, að Mjóafjarðarhöfn, sem er með þeim minnstu á landinu. Í Fjarðabyggð er öflug og fjölbreytt þjónusta. Meðal þjónustustofnana má nefna Fjórðungssjúkrahús Austurlands, Verkmenntaskóla Austurlands, útibú Vegagerðar ríkisins, Lögreglustjórann á Austurlandi, Skólaskrifstofu Austurlands, Náttúrustofu Austurlands, Heilbrigðiseftirlit Austurlands, útibú Matís og fleira. Öflugir leikskólar, grunnskólar, tónlistarskólar og æskulýðsmiðstöðvar eru einnig starfræktar í flestum byggðarkjörnunum. Þjónustugjöld skólakerfisins eru með þeim lægstu á landinu. Samhliða þessu er menningar- og félagslíf í miklum blóma ásamt kröftugu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Nýverið var tekin í notkun glæsileg viðbygging við Leikskólann á Reyðarfirði, og fyrirhugað er á næstu árum að hefja viðbyggingu við Leikskólann Dalborg á Eskfirði.
Verslun dafnar vel svo og rekstur hótela, gistihúsa og veitingahúsa. Dagvöru- og lágverðsverslanir, handverksbakari, bankar, lyfjaverslanir og sérverslanir ýmiss konar eru í Fjarðabyggð, svo að nokkur dæmi séu nefnd ásamt fjölda aðila í iðntengdum þjónustugreinum.
Stjórnsýsla
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar er skipuð níu bæjarfulltrúum sem kosnir eru til fjögurra ára í almennum kosningum til sveitarstjórna. Hún fer með yfirstjórn stofnana og fyrirtækja á vegum bæjarins, kemur fram í nafni sveitarfélagsins og gætir hagsmuna þess og íbúa. Bæjarstjórn heldur reglulega fundi tvisvar í mánuði, að jafnaði fyrsta og þriðja fimmtudag hvers mánaðar, að sumarmánuðum undanskildum og fer þá bæjarráð með umboð hennar og afgreiðir mál.
Bæjastjórn ræður málefnum sveitarfélagsins innan þeirra marka sem lög setja og samþykktir um stjórn og fundarsköp Fjarðabyggðar, en svo nefnast þær reglur sem sveitarfélagið hefur sett sér um stjórn þess og stjórnsýslu. Bæjarstjórnarfundir eru að jafnaði haldnir í fundarsal sveitarfélagsins að Hafnargötu 2, Reyðarfirði og hefjast kl. 16.00. Meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar mynda Framsóknarflokkur og Fjarðalisti, en auk þeirra eiga Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkur sæti í bæjarstjórn. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar er Jón Björn Hákonarson, en hann tók við starfinu í október 2020.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd