Fjársýsla ríksins

2022

Fjársýsla ríkisins (FJS) er þjónustu- og þekkingarstofnun á sviði opinberra fjármála og veitir fjármálatengda þjónustu til ríkissjóðs og ríkisaðila og annast umsýslu fjármuna. Stofnunin heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra. Lögð er áhersla á skilvirka, hraða og áreiðanlega þjónustu ásamt því að stöðugt sé unnið að framþróun í vinnubrögðum. Helstu þjónustuþættir eru bókhaldsþjónusta, greiðsluþjónusta, launavinnsla og launaþjónusta, fjárstýring, innheimtumál, uppgjörsþjónusta, ásamt rekstri og þróun fjárhagsupplýsingakerfa. Lögð er áhersla á sterka liðsheild, ánægju starfsfólks, gagnkvæma virðingu og gott starfsumhverfi. www.fjs.is

Sögulegt ágrip
FJS á rætur að rekja allt aftur til ársins 1910 þegar ráðinn var aðalbókari á skrifstofu Stjórnarráðsins til að annast bókhald Landsjóðs. Fyrstu lögin um starfsemi Ríkisbókhalds voru sett árið 1931. Árið 1997 varð Ríkisbókhald sérstök ríkisstofnun með lögum nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Embætti ríkisféhirðis var fært undir Ríkisbókhald frá 1. mars 2002 og var þá nafni stofnunarinnar breytt í „Fjársýsla ríkisins“. Lög um opinber fjármál nr. 123/2015 (LOF) tóku gildi 1. janúar 2016 og leysa af hólmi eldri lög um fjárreiður ríkisins. Með tilkomu LOF hefur talsverð breyting orðið á umhverfi ríkisaðila og auknar kröfur til starfsemi FJS með aðkomu að útfærslu, aukinni upplýsingagjöf og sérfræðiþjónustu.

Verkefnin
FJS er ætlað að tryggja tímanlegar og áreiðanlegar upplýsingar um fjármál ríkisins m.a. með útgáfu ríkisreiknings, ársfjórðungs- og mánaðaryfirlita. Stofnuninni er ætlað að vera leiðandi fyrir aðrar stofnanir ríkisins á sviði bókhalds og reikningshalds, ber ábyrgð á að tryggja samræmingu á þessu sviði og tryggja fylgni við reikningsskilastaðla.
Verkefni FJS eru fjölbreytt og umfangsmikil en um 110 stofnanir ríkisins eru í bókhalds- og greiðsluþjónustu stofnunarinnar. Auk þess sér FJS um launakerfi og útgreiðslu launa allra ríkisstarfsmanna að meðaltali um 24 þúsund í hverjum mánuði. Þá sinnir FJS aukinni launaþjónustu við tæplega 80 stofnanir. Tekju- og bókhaldskerfi ríkisins (TBR) heldur utan um útsendar kröfur og eru þær um 2,6 milljónir á ári.
FJS hefur yfirumsjón með rekstri og þróun sameiginlegra upplýsingakerfa sem tengjast fjármálum hjá ríkisaðilum. Þá er fræðsla og ráðgjöf til notenda kerfanna stór þáttur í starfi FJS.

Skipulag
Starfsemi FJS er skipt upp í sex svið. Hverju sviði er stjórnað af forstöðumanni sem ber ábyrgð gagnvart fjársýslustjóra. Fjársýslustjóri ber ábyrgð á stefnu og rekstri stofnunarinnar gagnvart ráðherra og samþættir og leiðir starfsemina. Undir fjársýslustjóra heyra innra eftirlit, mannauður og gæða- og ferlamál. Ingþór Karl Eiríksson var skipaður fjársýslustjóri af fjármála- og efnahagsráðherra í lok árs 2015.
Bókhaldssvið
Hlutverk þess er yfirumsjón með bókhaldi fyrir ríkissjóð, ráðuneyti og ríkisstofnanir sem eru í bókhaldsþjónustu hjá FJS. Þjónustan nær annars vegar til bókunar aðsendra reikninga og hins vegar frágangs á rafrænum reikningum til greiðslu. Forstöðumaður er Alfreð Erlingsson.

Fjárreiðusvið
Hlutverk þess er rekstur og þróun Tekjubókhaldskerfis ríkisins (TBR), viðskiptakrafna í Orra (AR-kerfishluti) og Innheimtuskilakerfis. Sjá um greiðsluþjónustu fyrir ríkissjóð, ráðuneyti og þær ríkisstofnanir sem þess óska. Sviðið sér um móttöku á innheimtufé frá innheimtuembættum ríkisins og innheimtu á skuldabréfum og kröfum fyrir ríkissjóð. Forstöðumaður er Vilhjálmur Örn Sigurhjartarson.

Launasvið
Hlutverk þess er að hafa umsjón með launaafgreiðslu ríkisins sem FJS annast fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Starfsemin tekur til þjónustu við ráðuneyti og ríkisstofnanir við launaafgreiðslu svo og til umsjónar með mannauðshluta Orra og Vinnustund. Forstöðumaður er Lára Hansdóttir.

Rekstrarsvið
Hlutverk þess er einkum að stýra verkefnum sem snúa að daglegum rekstri stofnunarinnar, fjármálum ásamt innri og ytri þjónustu hennar. Forstöðumaður er Ragnheiður Gunnarsdóttir.

Uppgjörssvið
Hlutverk uppgjörssviðs er að tryggja að reikningshald/reikningsskil stofnana ríkisins og ríkissjóðs sé tímanlegt og í samræmi við gildandi lög, reglur og góða reikningsskilavenju. Uppgjörssvið hefur yfirumsjón með gerð ríkisreiknings. Forstöðumaður er Þórir Ólafsson.

Þróunar- og þjónustusvið
Hlutverk þess er ráðgjöf og stefnumótun í hugbúnaðar- og vélbúnaðarmálum stofnunarinnar. Nær það til allra þeirra kerfa sem stofnunin hefur umsjón með sem og eigin þarfa. Forstöðumaður er Stefán Kjærnested sem gegnir jafnframt stöðu varafjársýslustjóra.

Mannauður
Mannauðsstefna FJS veitir yfirsýn yfir starfsumhverfið og er ætluð starfsmönnum til leiðbeiningar um ábyrgð sína, réttindi og skyldur. Hjá FJS njóta allir sömu möguleika til endurmenntunar, starfsþjálfunar, starfsframa og launa. FJS beitir sér fyrir því að starfsmenn geti samræmt starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu eins vel og kostur er. Heildarfjöldi starfsmanna er 86. Mannauðsstjóri er Pétur Ó. Einarsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd