Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var stofnaður árið 1979 og settur í fyrsta sinn þann
22. september sama ár, þá undir heitinu Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki. Fram að þeim tíma hafði verið starfræktur Iðnskóli á Sauðárkróki frá 1946 og framhaldsdeild við Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki frá 1977. Stofnendur skólans voru sveitarfélög á Norðurlandi vestra ásamt ríkissjóði. Jón F. Hjartarson var ráðinn skólameistari og gegndi því starfi til haustannar 2011 þegar hann lét af störfum. Við starfi hans tók Ingileif Oddsdóttir, núverandi skólameistari.
Skólinn
Skólinn er framhaldsskóli með áfangakerfi sem þjónar nemendum fyrst og fremst af Norðurlandi vestra og býður fram bóknám, iðn- og starfsnám auk heimavistarþjónustu. Hann leitast við að bjóða upp á menntun í takt við kröfur tímans og vera leiðandi á því sviði. Um 600 nemendur stunda nám við skólann, þar af u.þ.b. helmingur í verknámsdeildum.
Námsbrautir:
Einkunnarorð skólans eru:
Vinnusemi, virðing, vellíðan. Stjórnendur leitast við á hverjum tíma að skapa þær aðstæður á vinnustað að þar ríki vinnusemi, gagnkvæm virðing starfsfólks og nemenda og vellíðan allra sem við skólann nema og starfa.
Markmið skólans
Hlutverk skólans er kennsla til stúdentsprófs á bóknámsbrautum og kennsla á iðn- og starfsnámsbrautum, starfræksla sérdeildar fyrir fatlaða nemendur og fjarkennsla allt með áfanga- og fjölbrautasniði. Skólinn starfrækir dreifnámsstöðvar á Blönduósi, Hólmavík og Hvammstanga. Nemendur í dreifnámi eru hluti af nemendahópum í FNV og fá kennslu í gegnum Teams í rauntíma. Þá býður skólinn upp á helgarnám í húsasmíði og rafiðnum sem ætlað er nemendum eldri en 23ja ára, auk fjarnáms í almennum bóklegum greinum. Markmið með skólastarfinu er að stuðla að alhliða þroska nemenda, búa þá undir störf og frekara nám, efla með þeim ábyrgðarkennd og víðsýni, þjálfa þá í öguðum vinnubrögðum, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til stöðugrar þekkingarleitar.
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra hefur lagt áherslu á að uppfæra tækjabúnað og þekkingu með það markmið að vera leiðandi á meðal menntastofnana við innleiðingu nýjustu CNC hátækni í iðnmenntun. Sem dæmi um þessa viðleitni má nefna samstarf skólans við HAAS Automation sem vottar gæði námsins með skírteini sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar.
Skólinn hefur boðið upp á nýjungar á borð við nám í kvikmyndagerð í samstarfi við Skotta film. Þá er skólinn í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Sveitarfélagið Skagafjörð um rekstur Fab Lab stofu eða rafrænnar smiðju sem m.a. er ætluð til að auðvelda frumkvöðlum að gera hugmynd að veruleika. Skólinn hefur verið virkur þátttakandi í verkefnum á vegum Menntaáætlunar Evrópusambandsins og Nordplus. Að jafnaði eru um fimm verkefni í gangi á hverjum tíma. Skólinn hefur í samstarfi við grunnskóla á Norðurlandi vestra lagt áherslu á kynningu á iðnnámi fyrir grunnskólanema auk hefðbundinnar kynningar á námsframboði skólansboði skólans. Heimasíða fnv.is
Starfsfólk
Við skólann starfa 65 starfsmenn í 53 stöðugildum, þar af starfa 47 við kennslu. Kennarar og stjórnendur við skólann hafa ýmist háskólamenntun eða iðnmeistararéttindi auk kennsluréttinda. Kynjaskipting starfsfólks við skólann er jöfn og sama er að segja um nemendur.
Skólanefnd:
Formaður: Gunnsteinn Björnsson. Aðrir nefndarmenn: Adolf H. Berndsen, Ásta Pálmadóttir, Guðný Hólmfríður Axelsdóttir og Unnur Valborg Hilmarsdóttir. Fulltrúi starfsmanna: Aðalheiður Reynisdóttir. Skólameistari: Ingileif Oddsdóttir.
Aðstoðarskólameistari: Þorkell V. Þorsteinsson. Áfangastjóri: Kristján Bjarni Halldórsson.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd