Fjölbrautaskóli Snæfellinga stendur á einstaklega fallegum stað í Grundarfirði.
Í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneyti árið 2003 var sagt frá undirritun á samningi um nýjan framhaldsskóla í Grundarfirði. Þessi samningur var undirritaður af þáverandi menntamálaráðherra, Tómasi Inga Olrich, og fulltrúum sveitarfélaganna á svæðinu.
Í tilkynningunni kom fram að með Fjölbrautaskóla Snæfellinga hefði verið þróuð ný hugsun i kennsluháttum, skipulagi skólastarfs og skólahúsnæði. Þessi nýi skóli gaf vissulega tækifæri til mikilla breytinga og innleiðingar á nýjum kennsluháttum. Skólinn hóf starfsemi í ágúst 2004 og hófst kennsla sama haust. Stofnendur skólans voru fjögur sveitarfélög á Snæfellsnesi, Grundarfjörður, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, ásamt ríkisjóði.
Skólinn og markmið
Skólinn var óskabarn samfélaganna sem að honum stóðu og réðust sveitarfélögin á svæðinu í það stórvirki að byggja húsnæði yfir skólann. Hugmyndir voru uppi um að nýta upplýsingatækni og möguleika dreifmenntunar þannig að námframboð gæti orðið fjölbreytt. Skólahúsnæði átti ekki að vera með hefðbundnum kennslustofum heldur voru hönnuð opin rými auk lítilla herbergja sem ætluð voru til hópavinnu og einstaklingsvinnu. Skólinn var stofnaður til að kenna nemendum sem færu út á vinnumarkaðinn á 21. öldinni og mörg nýmæli voru boðuð bæði í kennsluháttum og allri starfsemi skólans. Í skólanum starfa allir kennarar sem dreifkennarar en með hugtakinu dreifkennarar og dreifmennt er átt við að kennarar skipuleggi kennsluna með það að markmiði að unnt sé að stunda nám í skólanum eða utan hans. Skólinn er vel búinn og öll aðstaða til fyrirmyndar. Við leggjum áherslu á að taka vel á móti nemendum og að samskipti nemenda og starfsfólks séu bæði frjálsleg og einkennist af gagnkvæmri virðingu. Markmið skólans er að skapa metnaðarfullt námsumhverfi þar sem komið er til móts við þarfir hvers og eins með sveigjanlegu skipulagi. Guðbjörg Aðalbergsdóttir var ráðinn fyrsti skólameistari skólans og núverandi skólameistari er Hrafnhildur Hallvarðsdóttir. Allt frá upphafi hafa kennarar skólans unnið allar kennsluáætlanir með það fyrir augum að þær henti hvort sem er dagskóla- eða dreifnemendum. Þessi tilhögun hefur gert það að verkum að nemendur skólans eru ýmist dagskólanemendur sem sækja skólann daglega eða dreifnemendur sem ekki sækja skólann heldur stunda nám sitt heima þar sem möguleikar upplýsingatækni eru nýttir til hins ýtrasta í kennslu í FSN.
Stofnun skólans hefur haft mikil áhrif á sveitarfélögin á Snæfellsnesi og á sunnanverðum Vestfjörðum. Nú þurfa foreldrar og forráðamenn ekki lengur að senda börn sín í burtu í nám að loknum grunnskóla heldur geta þau stundað nám á framhaldsskólastigi og lokið stúdentsprófi í heimabyggð. Þessi breyting hefur haft þau áhrif að mannlíf hefur orðið fjölbreyttara í þessum samfélögum. Unga fólkið tekur þátt í félagslífi og atvinnulífi í sínum heimabæjum og ekki þarf að taka fram hvað það er auðveldara að geta haft unglinga heima á þessum árum því það er kostnaðarsamt að senda þau til náms fjarri heimili og það er mikilvægt að geta veitt þeim stuðning á þessu mikilvæga tímabili unglingsáranna. Það má einnig sjá áhrif skólans á fjölgun ungs fólks á upptökusvæði skólans því mikið er um að unga fólkið komi aftur heim og settist að í heimabyggð eftir að hafa náð sér í framhaldsnám.
Skólameistari:
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
Aðstoðarskólameistari:
Sólrún Guðjónsdóttir
Skólanefnd:
Námið og nemendur
Í skólanum stunda rúmlega 200 nemendur nám á átta námsbrautum, náttúru- og raunvísindabraut, félags- og hugvísindabraut, íþróttabraut, opinni braut, framhaldsskólabraut 1 og 2 , starfsbraut og nýjasta brautin okkar er nýsköpunar- og frumkvöðlabraut. Nemendur sem stunda dagskólanám koma af norðanverðu Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum en dreifnemendur koma víða að af landinu. Allir nemendur eru með fartölvu og tengjast netinu þráðlaust en öll kennsla miðast við að allir nemendur vinni að verkefnum á netinu, skili verkefnum og fái þar námsmat auk þess sem samstarf á milli nemenda fer of fram á netinu enda er hluti nemanda í fjarnámi. Samskipti kennara og nemanda fara einnig oft fram á netinu. Við skólann starfa 33 starfsmenn. Kennarar sem starfa við skólann hafa allir háskólapróf og kennsluréttindi. Í skólanum er lögð áhersla á öfluga þjónustu, námsráðgjöf og stuðning við þá sem þurfa námsaðstoð. Skólinn hefur tekið þátt í erlendu samstarfi í gegnum Comenius, Eramsus og Nordplus en það gefur nemendum ómetanlegt tækifæri að kynnast nemendum á öðrum menningarsvæðum og víkkar sjóndeildarhringinn. Mörg þróunarverkefni hafa verið unnin í skólanum og er stærsta verkefnið sennilega á sviði námsmats. Vorið 2008 fóru kennarar á námskeið í Kings College í Bretlandi og kynntu sér þar leiðsagnarnám. Sú tegund námsmats hefur verið nýtt í skólanum og hefðbundin lokapróf hafa verið lögð niður.
Framhaldsdeild á Vestfjörðum
Árið 2007 var gerður samningur milli Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps annars vegar og Fjölbrautaskóla Snæfellinga- FSN hins vegar um rekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði. Rekstur deildarinnar var upphaflega þróunarverkefni til fjögurra ára en þar sem reynslan var góð af rekstri deildarinnar er hún nú orðinn hluti af Fjölbrautaskóla Snæfellinga og þaðan hafa margir nemendur lokið stúdentsprófi. Nemendafjöldi deildarinnar hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi. Í framhaldsdeildinni geta nemendur af suðursvæði Vestfjarða stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara í Grundarfirði með aðstoð nútíma upplýsingatækni. Starfsmenn framhaldsdeildar á Patreksfirði veita nemendum leiðsögn á staðnum og halda utan um starfsemina. Allt frá stofnun FSN hefur skólinn unnið allar kennsluáætlanir með það fyrir augum að þær henti hvort sem er dagskóla- eða dreifnemendum. Þessi skipan hefur gert það að verkum að nemendur í dagskóla, framhaldsdeildinni á Patreksfirði og dreifnemendur sem eru í sama áfanga eru öll í sama hópnum. Dreifmennt er góður kostur til að brúa bil milli landshluta og gera einstaklingum kleift að stunda það nám sem þeir kjósa sér hvar sem þeir eru staddir. Sjálfstæði í námi er oft meira þar sem algengt er að nemendur vinna án beinnar tilsagnar kennara og þurfa því að taka mikla ábyrgð á eigin námi. Nám nemenda fer að miklu leyti fram með sjálfstæðri verkefnavinnu, þar sem nemendur vinna einstaklingsverkefni eða hópverkefni, ýmist með nemendum á staðnum eða í Grundarfirði. Reglulegar námsferðir eru farnar til Grundarfjarðar og eru ferðirnar mikilvægur hluti af starfi deildarinnar því í námsferðunum hafa nemendur tækifæri til að hitta nemendur og kennara og taka þátt í félagslífi í stærra skólaumhverfi.
Félagslíf nemenda
Félagslíf nemenda er fjölbreytt. Á hverju ári er haldin árshátíð með heimatilbúnum skemmtiatriðum sem nemendur njóta á meðan þeir gæða sér á ljúffengum veitingum. Jólaskemmtun er líka veglegur atburður þar sem nemendur skemmta sér saman, borða hátíðamat og ljúka samverunni með dansi fram á nótt. Stundum er farið í leikhúsferðir og er það gjarnan í tengslum við námsefni sem verið er að vinna. Minni skemmtanir eru reglulega og má þar nefnda kaffihúsakvöld og íþróttakeppni sem ber nafnið Sólarleikar. West Side er viðburður þar sem nemendur úr framhaldsskólunum þremur á Vesturlandi, FVA og MB koma saman og keppa í ýmsum keppnisíþróttum og halda dansleik um kvöldið.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd