Stofnun Fjölbrautaskólans á Akranesi árið 1977 markaði tímamót í menntamálum á Vesturlandi. Mikil undirbúningsvinna hafði átt sér stað áður en draumur um að stofna framhaldsskóla á Skaganum rættist. Skipst var á skoðunum um það hvort ætti yfirhöfuð að stofna framhaldsskóla á Akranesi. Flestir voru hlynntir því en nokkrir höfðu miklar efasemdir og höfðu áhyggjur af því að slíkur skóli gæti orðið of stór og efuðust jafnvel um að nám þar yrði tekið gilt. Rúmum 40 árum síðar eru um 500 nemendur í FVA og starfsmenn eru um 70, þar af rúmlega 50 kennarar. Námsframboð er fjölbreytt og ættu flestir að geta fundið nám við sitt hæfi í FVA. Auk stúdentsbrauta er í boði nám á framhaldsskólabraut, í húsasmíði, rafvirkjun, vélvirkjun, sjúkraliðabraut og starfsbraut. Haustið 2022 er stefnt á að bæta við námsbraut fyrir félagsliða. Boðið er upp á dreif- og helgarnám í iðnnámi og á sjúkraliðabraut. Haustið 2020 var í fyrsta sinn boðið upp á svið lista og skapandi greina. Skólameistari frá 1. janúar 2020 er Steinunn Inga Óttarsdóttir. Við embættistöku hófst hún strax handa við að bæta kjör og aðbúnað starfsfólks og efla ímynd og starfsanda í skólanum með áherslu á lýðræðislega stjórnun og þjónandi forystu. Svo vill til að stjórnendateymið er eingöngu skipað konum næstu árin. Auk skólameistara er Dröfn Viðarsdóttir aðstoðarskólameistari og áfangastjóri er Jónína Halla Víglundsdóttir.
Húsnæði skólans
Skólinn stendur á góðum stað við Vogabraut 5 á Akranesi. Skólahúsnæðið telur rúma 8000 fermetra og aðstaðan er góð, m.a. er öndvegis bókasafn og tölvuþjónusta við skólann, stórt mötuneyti og hátíðarsalur. Um þessar mundir er þörf á endurbótum á húsnæðinu orðin mikil, einkum í elstu byggingunni. Heimavist með 30 tveggja manna herbergjum er hinum megin við götuna.
Fjör í Fjölbraut
Nemendur í skólanum árið 1977 voru 180 talsins og voru orðnir um 500 tíu árum síðar.
Á árunum 1977-1987 luku 740 nemendur burtfararprófi frá skólanum á yfir 30 námsbrautum. Fjöldi nemenda hefur verið nokkuð breytilegur. Árið 2022 eru ársnemendur um 480 talsins. Oft er mikið fjör í félagslífinu. Nemendafélag skólans, NFFA, stendur fyrir hefðbundnum viðburðum, s.s. leiksýningu, Skammhlaupi og dansleikjahaldi. Stoðþjónusta FVA er afar öflug og áhersla lögð á að sinna henni markvisst og af fagmennsku.
Að menntast og mennta
Á 25 ára afmæli skólans árið 2002 var gefið út afmælisrit og þar segir Þórir Ólafsson, fyrrverandi skólameistara FVA, um samruna Gagnfræða- og Fjölbrautaskólans: „Það voru mörg ljón á veginum og verkefnið í raun risavaxið. Fáir þekktu áfangakerfið. Það þurfti að sameina tvær rótgrónar menntastofnanir. Námsefni vantaði víða. Námskrár lágu ekki fyrir. Húsnæði var mjög þröngt og tækjakostur fábreyttur. Það þurfti að taka upp ný vinnubrögð á fjölmörgum sviðum. Þetta gekk upp og með því varð Fjölbrautaskólinn á Akranesi hluti af mjög merkilegum þætti í sögu framhaldsmenntunar á Íslandi. Innra hreyfiafl skólans í samspili við áhuga heimamanna átti stóran þátt í að skapa ný og betri menntunarskilyrði. Starfsmenn skólans voru tilbúnir að menntast til að geta betur menntað aðra.“
Á 40 ára afmæli skólans var einnig gefið út veglegt afmælisrit. Í blaðinu er viðtal við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, yngstu konu sem sest hefur í ráðherrastól á Íslandi en hún lauk stúdentsprófi af félagsfræðabraut í FVA. Aðspurð hvernig var að vera nemandi í FVA sagði hún: „Það var alveg ótrúlega skemmtilegt, ég held að fjölbrautaskólaárin mín hafi verið með svona skemmtilegri árunum mínum.“
Gildi skólans:
JAFNRÉTTI – VIRÐING – FJÖLBREYTILEIKI
Sterkur kennarahópur
Í FVA hefur alltaf verið sterkur kennarahópur. Í ávarpi til útskriftarárgangs vorannar 2016 sagði Sigurbjörg Þrastardóttir, skáld og stúdent frá FVA: „Ég hef raunar aldrei skilið hvernig kennurum lukkast að framreiða námsefni sitt þannig að það passi öllum í einu, þegar skólastofan er skipuð jafn mörgum og mismunandi einstaklingum, en ég á heldur aldrei eftir að skilja töfra kennslu og þau kraftaverk sem kennarar vinna á hverjum degi.“
Kennarar skólans hafa góða menntun og langflestir eru með kennsluréttindi. Það á einnig við um verknám en slíkir kennarar eru ekki á hverju strái. Árið 2022 eru laun kennara FVA vel samkeppnishæf eftir nokkra lægð og starfsandi mælist mjög góður.
Skólameistarar FVA
Fjölbreytt samstarf
FVA á gott samstarf við fjölda aðila á svæðinu og leggur áherslu á góða tengingu við atvinnulífið. Auk samstarfs við aðra fjölbrautaskóla, MB og FSN, og FSS og FSU, er gott samstarf við Stóriðjuskólann, Tónlistarskólann á Akranesi, Akraneskaupstað, Heilsugæslu Vesturlands, Nýsköpunarsetrið, barnaverndaryfirvöld o.m.fl. Árið 2016 var skrifað undir samning milli FVA, Akraneskaupstaðar og og ÍA um formlegt samstarf um að nemendur sem vilja stunda sína íþrótt að hætti afreksfólks fái handleiðslu sérmenntaðra þjálfara i í stundatöflu og einingar að launum. Fjöldi þessara nemenda hefur sveifast nokkuð en er á bilinu 30-50 manns á ári og fer hróður þeirra víða.
Sérstaða og áherslur
Sérstaða og áherslur skólans frá 2020 til næstu ára felast í lýðræðislegum stjórnunar- og kennsluháttum, sterkum tengslum við atvinnulíf og íþróttir á svæðinu, persónulegri þjónustu, notalegu andrúmslofti og fjölbreyttu námsframboði. Starfsemin er í anda gilda skólans og heimsmarkmiða SÞ um heilsu og vellíðan, atvinnumöguleika og jöfnuð. Markmiðið er að ungmenni á Vesturlandi geti stundað farsælt og hagnýtt nám í heimabyggð og séu reiðubúin til starfa eða frekara náms, hafi opinn huga og temji sér jákvæðni, umburðarlyndi og lýðræðisvitund.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd