Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur verið framhaldsskóli síðan 1979, en formlega var Fjölbrautaskólinn við Ármúla stofnaður haustið 1981.
Markmið skólans er að undirbúa nemendur undir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi, efla læsi í víðasta skilningi þess orðs og hafa lýðræði, jafnréttishugsjón, menntun til sjálfbærni og sköpunaranda að leiðarljósi. Skólastarfið byggist á því að hver nemandi finni sér nám við hæfi og geti stundað það á eigin námshraða. Fjölbrautaskólinn við Ármúla er áfangaskóli og kjarnaskóli heilbrigðisgreina. Fjölbreytni í námsvali laðar að fjölbreyttan nemendahóp og er stefna skólans að sinna hverjum og einum nemanda á sem bestan hátt. Nemendur sem ekki standast viðmið grunnskólans við innritun fara tímabundið á almenna námsbraut þar sem þeir fá sérstakan stuðning þar til þeir hefja nám á öðrum brautum. Stór hópur nemenda í FÁ er með annað móðurmál en íslensku og skólinn hefur mikinn metnað til að koma til móts við þarfir þeirra og er það starf í stöðugri þróun. Skólinn tekur þátt í fjölmörgum alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem stuðla að viðsýni og samkennd þvert á þjóðerni og landamæri og í öllu starfi sínu leitast skólinn við að starfa með sjálfbærum hætti með umhverfismálin í brennidepli. Í skólanum er hægt að stunda nám til stúdentsprófs á fimm bóknámsbrautum auk viðbótarnáms til stúdentsprófs að loknu starfsnámi. Skólinn býður upp á nám til starfsréttinda á sex brautum á heilbrigðissviði auk framhaldsnáms á fjórða þrepi fyrir lyfjatækna. Við skólann er metnaðarfull nýsköpunar- og listabraut sem leggur áherslu á hagnýtt nám í listgreinum auk þess að undirbúa nemendur fyrir framhaldsnám. Loks er í skólanum sérnámsbraut fyrir nemendur með fötlunargreiningu og er öll aðstaða þar til fyrirmyndar. FÁ rekur öflugt fjarnám allt árið fyrir fjölbreyttan hóp nemenda alls staðar að og þar er á hverri önn val um 80 – 90 áfanga. Nemendur dagskólans nýta sér gjarnan fjarnám til að flýta námi sínu.
Á vorönn 2018 stunduðu rúmlega 2000 nemendur nám við skólann, þ.e. í dagskóla og fjarnámi. Starfsmenn skólans eru rúmlega eitt hundrað, þar af rúmlega 70 fastráðnir kennarar.
Skólinn hefur þríþætt meginmarkmið:
1. Að veita hverjum og einum nemanda almenna menntun sem nýtist í daglegu lífi og tómstundum, sem auðveldi nemendum að taka sjálfstæða afstöðu til manna og málefna og njóta menningarlegra verðmæta.
2. Að búa nemendur undir framhaldsnám í háskólum og sérskólum.
3. Að búa nemendur undir tiltekin störf.
Námsbrautir við FÁ
Bóknám
Skólinn býður upp á hefðbundið nám til stúdentsprófs á félagsfræðabraut, hugvísindabraut, náttúrufræðibraut, íþrótta- og heilbrigðisbraut og viðskipta- og hagfræðibraut. Stúdentspróf er undirbúningur fyrir háskólanám auk þess sem það nýtist þeim sem hafa hug á annars konar námi eða þátttöku í atvinnulífinu.
Félagsfræðabraut; að loknu námi á brautinni skulu nemendur vera undirbúnir fyrir frekara nám í félagsvísindum og skyldum greinum.
Hugvísindabraut; að loknu námi á brautinni skulu nemendur vera undirbúnir fyrir frekara nám í hugvísindum og skyldum greinum.
Íþrótta- og heilbrigðisbraut; er góður undirbúningur fyrir þá sem ætla að mennta sig í íþrótta- og lýðheilsugreinum eða starfa að þeim málum.
Náttúrufræðibraut; að loknu námi á brautinni er ætlast til að nemendur hafi góða undirstöðu í stærðfræði og náttúruvísindum.
Viðskipta- og hagfræðibraut; að loknu námi á brautinni er ætlast til að nemendur hafi góða undirstöðu í viðskipta- og hagfræðigreinum.
Starfsnám
Heilbrigðisskólinn leggur áherslu á fjölbreytt starfsnám á heilbrigðissviði sem ávallt er í takt við þarfir samfélagsins. Nám í heilbrigðisskólanum veitir fjölbreytt starfsréttindi innan og utan stofnana auk þess að undirbúa nemendur fyrir frekara nám í heilbrigðisgreinum. Nemendur sem hefja nám á bóknámsbrautum skólans geta fært sig yfir á starfsmenntabrautir og öfugt.
Sjúkraliðabraut; skiptist í bóklegt nám og vinnustaðanám á heilbrigðisstofnun.
Lyfjatæknabraut; hefur það markmið að sérmennta fólk til starfa við afgreiðslu, sölu og dreifingu lyfja. Námið er bæði bóklegt og verklegt.
Tanntæknabraut; verklegi hluti námsins fer fram við tannlæknadeild Háskóla Íslands.
Heilbrigðisritarabraut; skiptist í bóklegt- og verknám sem fram fer á heilbrigðisstofnunum.
Námsbraut fyrir heilsunuddara; skiptist í bóklegt nám, verknám og starfsþjálfun.
Grunnnám heilbrigðisgreina; námið er ætlað þeim sem hafa hug á starfsmenntun á heilbrigðissviði, en hafa ekki gert upp hug sinn hvaða braut skuli velja.
Nýsköpunar- og listabraut; námi á nýsköpunar- og listabraut er ætlað að veita nemendum góða og almenna undirstöðu í listum og nýsköpun.
Þeim sem vilja kynna sér skólann nánar og fylgjast með nýungum er bent á vefsíðu skólans www.fa.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd