Fjöruborðið var stofnað vorið 1994 sem kaffihús með um 25 sæti á Stokkseyri. Í dag rúmar veitingahúsið um 360 gesti innan- og utandyra. Upprunalega nafnið var reyndar Við Fjöruborðið en því var breytt 2013 í Fjöruborðið. Reksturinn var í gömlu bátaskýli í eigu björgunarsveitarinnar og þar er nú elsti hluti veitingahússins, inngangurinn og barinn/móttakan. Gömul stálrennihurð sem bátarnir voru dregnir inn um er enn hluti af veitingahúsinu en utan um gamla bátaskýlið er núna nýjasti hluti veitingahússins sem er jafnframt aðal veitingasalurinn með útsýni yfir fjöruna. Þar fyrir framan eru útiborð með sæti fyrir um 60 manns. Áður en þessi nýbygging kom til var þetta þó bara lítið kaffihús en fljótlega fannst eigendum tilvalið að prófa að elda humar í mannskapin enda var í lok síðustu aldar ein stærsta humarvinnsla landsins einmitt á Stokkseyri. Fljótlega náði humarinn miklum vinsældum og ákveðið var að breyta bílskýli björgunarsveitarinnar sem stóð við hliðina í veitingasal. Sá salur nefnist í dag Hafið og rúmar um 60-70 manns. Rúturnar fóru fljótt að streyma að og því var bætt við stóru tjaldi sem rúmar um 100-120 manns. Þannig var uppistaðan af gestum lengi vel hópar en með breyttum ferðavenjum á þessari öld og aðallega á seinni hluta nýliðins áratugar (2. áratug 21. aldar) hefur þetta snúist við, ekki vegna þess að hópum hefur fækkað heldur eru einstaklingar orðnir miklu fleiri og eru nú í lok þessa áratugar um 70-80% af heildargestafjöldanum. Árið 2017 heimsóttu 48.000 gestir Fjöruborðið. www.fjorubordid.is
Sagan af súpunni
Þessi súpa er göldrótt. Hún hefur nefninlega sjálfstæðan vilja, matreidd af freistandi kokkum sem stíga naktir upp úr hafinu við Stokkseyri með aflann sinn; feitsæta humra sem þráðu það eitt að komast í land, það er nefninlega eins með ævintýragjarna einstaklinga úr sjávarheimum, þeir vilja upp til okkar, líkt og við niður til þeirra. Þessa súpu hafa menn barist fyrir með storminn í fangið til þess eins að njóta. Löngunin hefur orðið svo yfirsterk að skynsemi hefur rokið út í veður og vind. Undir svörtum hömrum þrengslanna, á milli fjallasala og undir stjörnunum hafa menn ætt í humátt að sjónum og sest til borðs á meðal manna, veisluglaðra drauga og einhverrar kitlandi nautnar sem umvefur allt sem kemur úr töfrandi skálum Fjöruborðsins. Þar sem þúsund kertaljós kasta birtu á sjóbarin andlit og ástríka vínbelgi. Og hugtakið matarást tekur óvænta en þægilega stefnu.
Fjöruborðið á Stokkseyri er nautnahús í álögum. Menn þurfa að beita sig valdi til að eiga þaðan afturkvæmt. En það er allt í lagi, einungis góðir gjörningar eiga sér stað innan veggja, nokkuð sem kitlar bæði maga og sál.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd