Flóra garðyrkjustöð í Hveragerði er í eigu tvennra hjóna, þeirra Þorvaldar Snorrasonar og konu hans Sigríðar Sigurðardóttur og systur hennar Rögnu Sigurðardóttur og eiginmanns hennar Kristins Alexanderssonar. Þau hafa rekið stöðina frá því fyrripart árs 2017 en þá keyptu þau Garðyrkjustöð Ingibjargar sem hafði verið starfrækt frá árinu 1981 af hjónunum Ingibjörgu Sigmundsdóttur og Hreini Kristóferssyni. Þorvaldur, sem er garðyrkjufræðingur, hafði starfað hjá þeim hjónum í 6 ár áður en eigendaskiptin urðu.
Fljótlega eftir eigendaskiptin hlaut stöðin nafnið Flóra garðyrkjustöð en hugmyndina að nafninu má rekja til þess að Ingimar, afi Rögnu og Sigríðar, og Ragna systir hans stofnuðu blómabúðina Flóru í Austurstræti 7 árið 1932 og var hún ein fyrsta blómabúðin í Reykjavík.
Starfsemin
Í Flóru fer fram fjölbreytt ræktun en aðaláherslan er þó á framleiðslu sumarblóma og garðplantna af ýmsum toga. Til helstu garðplantna sem boðið er upp á má nefna ýmsar tegundir trjáa, runna, rósa og fjölærra blóma. Auk þess eru ræktaðar ýmsar tegundir krydd- og matjurtaplantna og þar á meðal forræktaðar matjurtir sem eru mjög vinsælar í matjurtagarða landsmanna á vorin.
Einnig eru ræktaðar í Flóru ýmsar tegundir pottaplantna allan ársins hring en sá markaður hefur lifnað verulega við á nýjan leik hér á landi allra síðustu ár eftir talsverða lægð til margra ára. Þá má segja að pottaplöntur séu komnar í tísku á ný.
Þegar um árstíðabundna ræktun eins og sumarblóm er að ræða þá er möguleiki á að nýta gróðurhúsin fyrir annars konar ræktun á móti. Sumarblómatímanum lýkur þegar líður á sumarið og í júlí tekur við ræktun á jólastjörnu í húsunum en hún þarf talsvert pláss og dekur, m.a. þarf að breiða yfir hana svart plast seinnipart dags í 4 vikur, og taka ofan af henni aftur að morgni til þess að háblöðin nái að mynda réttan lit. Algengastur er rauði liturinn sem flestir þekkja en aðrir litir hafa verið að færast í aukana upp á síðkastið, s.s hvítur og ýmsir bleikir litir.
Einnig eru ræktaðar þónokkrar tegundir laukblóma í stöðinni frá hausti og fram eftir vetri, s.s. túlípanar, páskaliljur, hýasintur, amaryllis o.fl.
Aðsetur
Flóra garðyrkjustöð er með sínar höfuðstöðvar við Heiðmörk 38 í Hveragerði. Þar er 150 fm söluskáli fyrir sumarblóma- og pottaplöntusölu auk þess sem rúmgott sölusvæði er þar utandyra með ýmisskonar garðplöntum. Á útisvæðinu er einnig rúmgott plasthús sem hýsir viðkvæmari gróður svo sem ýmsar tegundir skrautrósa og ávaxtaplantna sem þurfa mjög gott skjól í görðum eða jafnvel gróðurskála til að þrífast hér á landi.
Garðyrkjustöðin nær í dag yfir ca. 6000 fm undir gleri auk um ca. 2000 fm í plasthúsum ásamt stóru ræktunarsvæði utandyra.
Afurðir
Afurðir Flóru garðyrkjustöðvar eru að miklum hluta seldar í smásölu heima í söluskálanum í Hveragerði, sérstaklega yfir sumarblómatímann. Þó er einnig gríðarlegt magn sumarblóma sem fer til ýmissa aðila, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, í heildsölu. Yfir mesta annatímann ca. frá maí-júní eru farnar nokkrar ferðir á dag með sendiferðabíl hlaðinn blómum vestur yfir Hellisheiði.
Starfsfólk
Við Flóru starfa að staðaldri, allan ársins hring, 7 starfsmenn. Þar af starfa tveir eigendanna í fullu starfi við stöðina, við ræktun og rekstur, Þorvaldur Snorrason garðyrkjufræðingur og Ragna Sigurðardóttir. Á vorin fjölgar alltaf talsvert í starfsmannahópnum og yfir háannatímann má segja að starfsmannafjöldinn margfaldist en þá starfa allt að 25-30 manns við hin ýmsu störf í stöðinni, hvort sem er við ræktun og umhirðu, að taka til pantanir til að senda burt eða við heimasöluna sem getur verið ansi fjörug á köflum.
Vefsíða: floragardyrkjustod.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd