Flúðajörfi er garðyrkjustöð sem var stofnsett árið 1977 af Georgi Óttóssyni og þáverandi konu hans með það fyrir augum að stunda grænmetisrækt yfir sumartímann. Það helgaðist af því að Georg var þá starfandi sem kennari yfir veturinn en vildi hafa garðyrkjustöðina sem aukabúgrein á sumrin. Sú aukabúgrein átti eftir að vaxa hratt í hlutfalli við meiri áhuga hans á garðyrkju og grænmetisræktun sem leiddi til þess að hann hætti kennslu árið 1990. Þá var ræktunin orðin að heilsárs starfsemi svo hann sneri sér alfarið að henni.
Framleiðslan
Að Flúðum í Hrunamannahreppi er kjörin aðstaða til ræktunar innan um sex borholur af sjóðheitu vatni svo það var hafist handa um byggingu gróðurhúsa til að rækta ýmiss konar grænmeti fyrir stækkandi neytendamarkað. Í upphafi voru ræktaðar agúrkur, tómatar, jarðarber og paprikur, en árið 1997 hafði þróunin orðið sú að paprikuframleiðslan varð ofan á og fljótlega upp úr því var Flúðajörfi orðinn stærsti paprikuframleiðandi landsins.
Georg Ottósson varð frumkvöðull í paprikuræktun á Íslandi. Dóttir hans Ragnheiður segir töluvert tilstand í kringum paprikurnar og notar orðið vesen í því sambandi. Vissulega hafa þau ást á paprikunni en sá böggull fylgir skammrifi að paprikan þarf mikið sólarljós til að þrífast svo það gat verið erfitt að rækta hana yfir vetrartímann þannig að í byrjun var ræktunin fyrst og fremst bundin við sumartímann. En með tíð og tíma sköpuðust nýir möguleikar til lýsingar í gróðurhúsunum og þegar hin svokölluðu natríumljós komu fram á sjónarsviðið breyttust allar forsendur paprikuræktunarinnar. Nú er hægt að rækta paprikur fram í desemberbyrjun sem var algjör bylting. Það þýðir að íslensk paprika er einungis ófáanleg í desember og fram í janúar. Í fyrsta skipti í sögu paprikuræktunar hér á landi er nú hægt að senda ferskar íslenskar paprikur á markað frá og með 15. janúar sem ekki var hægt áður. Það má þakka natríumljósunum auk þekkingar í ræktunaraðferðum sem hefur orðið til með þróun og rannsóknum til tuttugu ára sem hafa skapað nýjar hugmyndir sem koma að gagni.
Í dag telur paprikuframleiðslan um 100 tonn á ári en þess utan framleiðir Flúðajörfi 80 tonn af tómötum sem eru sérvaldir og einkenna framleiðslu fyrirtækisins; stundum nefndir pink tómatar. Flúðajörfi leggur mikið upp úr því að hafa sín sérkenni þegar kemur að tómötum, en parprikan er þó alltaf í aðalhlutverki.
Útiræktun fer líka fram yfir sumartímann og þá er verið að rækta kál, gulrætur og spergilkál en fyrirtækið er stærsti gulróta og spergilkálsframleiðandi á Íslandi. Til viðbótar er ræktað hvítkál, rauðkál og blómkál. Spergilkálsframleiðslan telur ein 100 tonn á ári og 300 tonn af gulrótum eru tekin upp á einu bretti að hausti og eru fyrirliggjandi fram í maí.
Mannauður og stjórnendur
Starfsmenn Flúðajörfa eru 15 þegar mest er að gera yfir sumartímann en 10 manns á veturna. Eigandi Flúðajörfa er Georg Ottósson, rekstrarstjóri er Friðrik Rúnar Friðriksson og Ragnheiður Georgsdóttir er sölu- og markaðsstjóri.
Ragnheiður segir í mörg horn að líta hjá sér þar sem hún er sömuleiðis markaðsstjóri Flúðasveppa fyrir utan að vera veitinga- og rekstrarstjóri veitingahúsa sem rekin eru samhliða (Flúðasveppir farmers bistro), en þar er verið að elda úr hráefnum af þeim afurðum sem nærumhverfið gefur.
COVID-19
Á tímum COVID-19 þótti samt nauðsynlegt að loka fyrir veitingasölu en metár varð í framleiðslu og sölu sem kom öllum að óvörum. Leiða má líkum að því að þá hafi fólk verið mikið til heima að elda og matarsóun lítil sem engin.
Íslensk framleiðsla
Ragnheiður segist þess fullviss að íslenskir neytendur velji oftast íslenska framleiðslu þegar grænmeti er annars vegar svo slagorðin: „þú veist hvaðan það kemur“ hlýtur þar af leiðandi að eiga við rök að styðjast.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd