Flugakademía Íslands

2022

Forsaga
Flugakademía Íslands varð til við samruna tveggja stærstu flugskóla á Íslandi, Flugskóla Íslands og Flugakademíu Keilis árið 2019. Flugskóli Íslands var stofnaður árið 1998 af íslenska ríkinu eftir að málefni flugkennslu höfðu verið til mikillar endurskoðunar og sætt gagnrýni frá árinu 1988. Sett voru lög um stofnun hans á Alþingi og var fyrsti skólastjóri hans Gylfi Ernst Gíslason flugumferðarstjóri og flugstjóri. Aðrir eigendur auk ríkisins voru Flugleiðir hf., Air Atlanta Icelandic og Íslandsflug ásamt tveimur litlum flugskólum, Flugmennt og Flugtak. Hugmyndin var sú að hagsmunaaðilar kæmu að rekstri skólans og hann myndi þjóna sínum tilgangi best með aðkomu ríkisins og flugfélaganna líkt og tíðkaðist víða erlendis. Lög um stofnun Flugskóla Íslands voru lögð af árið 2006 og keyptu þá eigendur Flugtaks og stjórnendur skólans öll hlutabréf í skólanum og seldu þau svo strax til Fjöltækniskólans, nú Tækniskólans. Tækniskólinn átti svo Flugskóla Íslands til ársins 2018, þegar sömu aðilar og fyrr keyptu nú skólann í annað sinn og seldu hann svo aftur til Flugakademíu Keilis sama ár. Flugakademía Keilis varð til árið 2007 þegar Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs var stofnaður og var Flugakademían einn fjögurra undirskóla Keilis. Kári Kárason varð fyrsti skólastjóri Flugakademíunnar og voru keyptar nýjar flugvélar sem notuðu þotueldsneyti og voru sparneytnari en hefðbundnar kennsluflugvélar. Bóklegt atvinnuflugmannsnám hjá Flugakademíu Keilis hófst árið 2009 og voru því skólarnir tveir, Flugskóli Íslands og Flugakademía Keilis komnir í harða samkeppni sem endaði þó farsællega. Eftir kaup Flugakademíu Keilis á Flugskóla Íslands hófst sameining skólanna tveggja og lauk henni á árinu 2020. Sameinaður skóli hlaut nafnið Flugakademía Íslands og var fyrsti stjórnarformaður Flugakademíunnar Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Í byrjun árs 2021 var kosin ný stjórn Flugakademíunnar og var Jón Björgvin Stefánsson kosinn stjórnarformaður, en hann hafði talsverða reynslu af rekstri Flugskóla Íslands þar sem hann var skólameistari Tækniskólans í þá tíð sem Flugskóli Íslands var í eigu Tækniskólans.

Rekstur
Flugskólarnir stækkuðu ört og þá sérstaklega Flugakademía Keilis sem fékk til sín allmarga erlenda nemendur. Árið 2018 var heildarvelta Flugakademíu Keilis orðin tvöfalt meiri en Flugskóla Íslands. Sameinaður rekstur skólanna tveggja skilaði auknum afköstum árið 2019 en árið 2020 hallaði undan fæti þó svo að útskrifaðir nemendur úr atvinnuflugmannsnámi væru um 80 talsins. Var orsakanna að leita í færri umsóknum í flugnám en einnig vegna umtalsverðra takmarkana á flugkennslu, sem var bönnuð hluta úr ári vegna COVID-19 faraldursins.

Tekjur sameinaðra skóla og áætlanir til næstu ára.

Flugvélafloti
Flugakademía Keilis hóf starfsemi með nýjum flugvélum sem búnar eru til úr koltrefjaefnum. Koltrefjaefnin þykja gríðarlega sterk og hægt er að móta flugvélaskrokkinn til að minnka loftmótstöðu og eldsneytiseyðslu. Styrkur koltrefjaefna kemur sér vel ef flugvélar þurfa að nauðlenda á grófu yfirborði líkt og á hálendi Íslands. Nýir flugvélahreyflar voru einnig teknir í notkun sem eyddu 45% minna eldsneyti en hefðbundnar kennsluflugvélar og notuðu auk þess þotueldsneyti sem er hagstæðara en flugvélabensín. Á 12 árum höfðu þessar flugvélar sparað eldsneyti sem nam 1.5 milljónum lítra borið saman við hefðbundnar kennsluflugvélar. Flugskóli Íslands hafði í gegnum árin ekki eignast sínar eigin flugvélar, heldur leigt þær af fyrirtækjum í eigu lykilstarfsmanna. Vélarnar voru af hefðbundinni gerð með hefðbundna flugvélahreyfla. Endurnýjun á flugflota fór að hluta til fram árið 2016 þegar keyptar voru léttar og sparneytnar flugvélar sem gátu notað venjulegt bílabensín. Árið 2020 var flugfloti Flugakademíu Íslands 18 flugvélar, ein leiguvél, 5 flugvélar á kaupleigu en 12 flugvélar í eigu Flugakademíunnar. Að auki var Flugakademían með tvo flugherma í rekstri.

Tækninýjungar
Tækninni fleygir fram í gerð flugmælitækja og hefur markviss stefna verið sett á að allar kennsluflugvélar Flugakademíunnar séu útbúnar bestu tækjum sem völ er á. Sýndarveruleikamynd (Synthetic Vision System) er kerfi sem sýnir þrívíddarmynd af stöðu vélarinnar miðað við umhverfið og byggist á gagnagrunni og GPS-tækni sem eykur umhverfisvitund flugmannsins þegar flogið er í slæmu skyggni. Rafmagnsflugvélar hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum og stefna hefur verið tekin að innleiða slíkar vélar í rekstur Flugakademíunnar eftir því sem tækninni fleygir fram. Þróunin er komin vel af stað en framundan eru spennandi tímar í nýjungum sem gagnast í rekstri flugskóla.

Aðstaða til flugkennslu
Flugakademía Íslands var með aðstöðu til flugkennslu á tveimur flugvöllum árið 2020, Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli. Gerðar hafa verið tilraunir með fleiri bækistöðvar, meðal annars á Sauðárkróki og Selfossi. Líkur eru á að þörf muni aukast fyrir öflugri aðstöðu til flugkennslu á komandi árum og eru stóru flugvellirnir tveir takmarkaðir hvað varðar aðbúnað eins og flugskýli og kennslurými sem stutt gæti við frekari vöxt. Sérstaklega eru aðstæður erfiðar á Reykjavíkurflugvelli en Reykjavíkurborg hefur lengi stefnt að því að loka flugvellinum og hefta frekari vöxt hans og þróun. Þetta hefur reynst snúin staða því uppsöfnuð þörf til að mæta ákalli nemenda um viðeigandi aðstöðu fer vaxandi.

Mannauður og framtíð
Skólastjóri Flugakademíu Íslands frá árinu 2020 er Davíð Brár Unnarsson flugstjóri og yfirkennari bóklegs náms er Benedikt Arnarson flugstjóri en verkleg flugkennsla er undir stjórn Hlyns Ólafssonar yfirflugkennara. Framkvæmdastjóri Flugakademíu Íslands er Jóhann Friðrik Friðriksson en forstöðumaður er Kári Kárason þjálfunarflugstjóri og stofnandi Flugakademíu Keilis. Hefur Flugakademían á að skipa öflugum hópi sérhæfðra og reynslumikilla flugkennara og annars starfsfólks sem telur um 100 manns en stór hluti starfsmanna eru flugkennarar í hlutastörfum. Samhliða samgönguáætlun 2020-2034, sem samþykkt var á Alþingi 29. júní 2020, var kynnt fyrsta flugstefna Íslands. Tilgangur með mótun flugstefnu er að skapa umhverfi sem viðheldur grunni fyrir flugrekstur og flugtengda starfsemi á Íslandi og styður vöxt hennar. Í því sambandi hefur ríkisstjórn Íslands tekið mikilvæg skref í stuðningi við Flugakademíu Íslands sem var og er á árinu 2021 eini flugskólinn á Íslandi til að sinna kennslu til atvinnuflugmanns og blindflugsréttinda.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd