Það var árið 1970 sem hjónin Hörður Guðmundsson og Jónína Guðmundsdóttir stofnuðu Flugfélagið Ernir á Ísafirði. Félagið fagnaði því hálfrar aldar afmæli í júní árið 2020, sem gerir félagið að elsta starfrækta flugfélagi á Íslandi. Flugfélagið Ernir er fjölskyldufyrirtæki og hefur frá upphafi verið stjórnað og í eigu þeirra hjóna og barna þeirra. Hægt er að segja að flugfélagið sæki margt vestur á firði, en auk þess að fjölskyldan sé þaðan og fyrirtækið hóf göngu sína þar, þá kemur nafn fyrirtækisins einnig þaðan. Flugfélagið ber nafn fjalls sem er fyrir ofan Bolungarvík, þaðan sem Jónína kemur og er uppalin. Fyrst um sinn sinnti flugfélagið áætlunarflugi fyrir póstinn ásamt því að sinna sjúkra- og fraktflugi. Árið 1988 fór áætlunarflugið í loftið var það fyrst um sinn einungis á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Árið 1989 hefst samvinna félagsins við Rauða krossinn og sinnti fyrirtækið nokkrum verkefnum á þeirra vegum í Afríku. Frá upphafi hefur Ernir boðið upp á leiguflug innanlands og einnig til nágrannalandanna Grænlands, Færeyja og Norðurlandanna, árin 1981 – 1992. Árið 1988 voru keyptar stærri flugvélar og einnig var byggt stórt og vandað flugskýli á Ísafirði og það er merkilegt að segja frá því að Flugfélagið Ernir var fyrsta félagið hér á landi sem byggði yfir starfsemi sína frá grunni alveg sjálft. Þegar flugskýlið var reist var á sama tíma fjárfest í flugafgreiðslu á Reykjavíkurflugvelli og hófst áætlunarflug þar á milli. Seint árið 1989 til ársins 1990 tók flugfélagið þátt í þróunarverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kenya og tók að sér flug á þeirra vegum. Árið 1995 hætti félagið rekstri vegna breytinga í starfsumhverfi innanlandsflugfélaga. Flugfélagið Ernir var þó aldrei lagt niður en síðsumars 2003 hóf félagið sig aftur til flugs með nýjum áherslum og það ár voru skrifstofur Flugfélagsins færðar til Reykjavíkur frá Ísafirði þar sem þær höfðu verið til þessa, öll starfsemin er í dag rekin á Reykjavíkurflugvelli.
Ernir í dag – Skipulag og sérstaða
Flugfélagið Ernir er meðalstórt fjölskyldufyrirtæki og starfa hjá félaginu að meðaltali 60 manns árið um kring. Starfsfólkið dreifist víðsvegar um landið og skiptast þeir í flugmenn, flugþjóna, hlaðmenn, flugvirkja, starfsfólk í bókhaldi, afgreiðsla og skrifstofa. Í fyrstu sinnti félagið einungis flutningum á frakt, póstþjónustu og sjúklingum en í dag sinnir félagið áætlunarflugi innalands, leiguflugum innanlands sem og erlendis og einnig sjúkraflugum til nágrannalanda. Árið 2018 tók félagið í notkun 32 sæta Dornier skrúfþotu og þar með bættust við þrjár flugfreyjur við starfshópinn í fyrsta sinn í sögu Ernis. Stofnendur og aðaleigendur félagsins, Hörður Guðmundsson og Jónína Guðmundsdóttir stjórna félaginu enn þann dag í dag 50 árum frá stofnun.
Leiguflug
Ernir býður upp á leiguflug innanlands sem og erlendis, fyrir einstaklinga eða hópa. Flugfélagið Ernir gerir tilboð í hverja ferð eftir áfangastað og biðtíma vélarinnar og hvert flug sniðið að þörfum viðskiptavina hverju sinni. Leiguflug hefur því verið mikilvægur þáttur í starfsemi Flugfélagins Ernis allt frá stofnun og vel er látið af þeim vélarkosti sem félagið hefur upp á að bjóða.
Sjúkraflug
Áratuga reynsla er af sjúkraflugi hjá félaginu og eru vélarnar einstaklega vel búnar og öflugar til sjúkraflugs, hvort sem er innanlands eða milli landa. Vélar Ernis eru með gott aðgengi fyrir sjúkrabörur, súrefni er um borð og allur sá búnaður sem þarf til að flytja sjúka og slasaða.
Áætlun
Frá árinu 2007 hefur Ernir verið að sinna áætlunarflugi innanlands og var fyrst um sinn flogið til Bíldudals, Gjögurs, Sauðárkróks og Hafnar í Hornafirði. Áætlunarflugi var hætt á Sauðárkrók árið 2012 en árið 2017-2018 hófst áætlun á ný en hún stóð einungis í sex mánuði. Áætlun hófst síðan til Vestmannaeyja árið 2010 og stóð til 2020. Húsavík bættist við áfangastaði árið 2012 og er flogið á Húsavík enn þann dag í dag. Árið 2020 fóru áfangastaðir Ernis úr fimm í tvo vegna útboðs á flugleiðum sem ekki náðist að semja um. Í dag er áætlunarflug til Húsavíkur og Hafnar í Hornafirði.
Ferðaþjónusta
Erlendir ferðamenn hafa verið stór kúnnahópur hjá félaginu en sá fjöldi snar minnkaði eftir að flugsamgöngur á milli meginlandanna minnkaði, sökum Covid19. Síðustu ár hefur verið mikil aukning á ferðamönnum og því hefur fyrirtækið aðlagað sig að þeirri breytu með því að bjóða uppá ýmsa skemmtipakka sem hver og einn getur aðlagað að sínum áhugasviðum. Flugfélagið Ernir hefur hingað til verið í samstarfi við skemmtiferðaskip og voru aldrei eins margir ferðamenn sem komu með skipunum eins og árið 2019. Ferðirnar sem Flugfélagið Ernir býður upp á skiptast í vetrarferðir, sumarferðir og útsýnisferðir.
Viðhaldsverkstæði
Flugfélagið Ernir er með sitt eigið viðhaldsverkstæði á Reykjavíkurflugvelli þar sem skoðanir og almennt viðhald á flugfélum Ernis fer fram, árið 2020 voru á annan tug flugvirkja starfandi hjá Flugfélaginu Erni.
Framtíðarsýn
Árið 2020 fagnaði félagið 50 ára afmæli. Flugfélagið Ernir horfir björtum augum á framtíðina þó svo að árið 2020 hafi reynst erfitt þar sem farþegum fækkaði í ljósi COVID-19. Flugfélagið Ernir stefnir á að halda áfram að viðhalda háu þjónustustigi og setja viðskiptavini alltaf í fyrsta sæti. Ernir vill halda áfram að vera leiðandi í innanlandsflugi og auka framboð ferðaþjónustu á sviði flugrekstrar. Flugfélagið Ernir hlakkar til að bjóða þig, lesandi góður velkominn um borð og óskar þér góðrar ferðar.
Flugfélagið Ernir er rótgróið og framsækið ferðaþjónustufyrirtæki sem sinnir skipulögðu áætlunarflugi með reglulegum ferðum til fimm áfangastaða hér á landi. Að auki snýst þjónustan um tilfallandi leigu- og útsýnisflug ásamt opinberu sjúkraflugi hvert á land sem er eða á milli landa. Í þessu skyni býr félagið að vel útbúnum flugflota og hefur innan sinna raða þrautþjálfaða flugmenn sem búa að mikilli reynslu við að stýra öllum stærðum véla við fjölbreyttar aðstæður víða um heim.
Sagan
Flugfélagið Ernir býr að 40 ára sögu og var stofnað á Ísafirði árið 1970 af hjónunum Herði Guðmundssyni og Jónínu Guðmundsdóttur sem enn í dag stýra rekstrinum. Á þeim tíma voru vegasamgöngur á Vestfjörðum mjög ótryggar og því varð starfsemi félagsins snemma mjög mikilvæg á svæðinu. Póstflug var stundað á milli allra helstu bæja og þéttbýlisstaða í fjórðungnum auk þess sem félagið sinnti sjúkraflugi á öllu Vesturlandi. Mikil tímamót urðu í rekstrinum árið 1988 með tilkomu 19 sæta Twin Otter vélar undir reglulegt áætlunarflug. Yfir hana var byggt stórt og vandað flugskýli á Ísafjarðarflugvelli auk þess sem flugafgreiðsla var sett í gang á Reykjavíkurflugvelli. Með þessum hætti varð Flugfélagið Ernir hið fyrsta sinnar tegundar sem byggði starfsemi sína upp sjálfstætt án allrar íhlutunar frá hinu opinbera.
Fram eftir öllum níunda áratugnum hljóp mikill vöxtur í hlut leiguflugs í starfseminni. Þar var einkum um að ræða ferðir með skipsáhafnir til Grænlands, Færeyja og Norðurlandanna auk tilfallandi ferða t.d. með varahluti í skip, verksmiðjur og frystihús. Í kringum 1990 hóf Flugfélagið Ernir síðan mjög mikilvægt samstarf við svissneska flugfélagið Zimex Avaition og fól það í sér að mestu allskyns þjónustuflug til Afríku fyrir ýmsar alþjóðlegar stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og Rauða krossinn. Árið 1995 gengu í gegn ákveðnar breytingar í starfsumhverfi innanlandsflugfélaga sem fól t.d. í sér að opinberir samstarfsamningar gengu úr gildi. Í beinu framhaldi hætti Flugfélagið Ernir með starfsemi sína á Íslandi og einbeitti sér enn frekar að verkefnum í útlöndum. Vélar félagsins voru seldar og afgreiðslan á Reykjavíkurflugvelli leigð út til annarra aðila. Reksturinn hófst þó aftur í núverandi mynd með nýjum áherslum árið 2003.
Áætlunarflug
Flugfélagið Ernir heldur úti föstu áætlunarflugi allan ársins hring til fimm áfangastaða innanlands. Þeir eru Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði, Húsavík, Bíldudalur og Gjögur. Sumaráætlun gildir frá 1. júní – 31. ágúst og vetraráætlun alla aðra tíma ársins. Allar nánari upplýsingar t.d. um ferðatíma og verð má nálgast inni á heimasíðunni www.ernir.is.
Leiguflug
Fyrir einstaklinga og hópa sem þurfa að komast á milli fjarlægra staða á skömmum tíma býður Flugfélagið Ernir upp á hagkvæma kosti í leiguflugi innanlands sem utan. Með þessu er t.d. hægt að komast til Akureyrar á 40 mínútum, til Egilsstaða á klukkutíma og til Vestmannaeyja á 18 mínútum. Dæmi um ferðatíma út fyrir landsteinana er einn og hálfur tími til Kulusuk á Grænlandi eða Þórshafnar í Færeyjum og fjórir tímar ýmist til London eða Kaupmannahafnar. Í öllum ferðum er boðið upp á einstaklega þægilega farkosti þar sem hægt er að raða sætum eftir þörfum hverju sinni. Einnig er hægt að uppfylla séróskir viðskiptavina varðandi fæði, ferðaáætlun og aðbúnað á áfangastað.
Sjúkraflug
Sjúkraflug hvert á land sem er hefur alveg frá upphafi verið ein af kjölfestum starfseminnar. Boðið er upp á sérhannaðar og öflugar Jetstream 32 vélar með stórum hurðum og góðu aðgengi fyrir sjúkrabörur. Innanborðs er allur nauðsynlegur búnaður fyrir hendi. Læknar og sjúkraflutningafólk eru ávallt fyrir hendi sé þess óskað. Jetstream vélarnar eru jafnþrýstibúnar og geta því flogið ofar veðri til aukinna þæginda fyrir sjúklinga.
Útsýnisferðir
Einn af helstu vaxtarbroddum starfseminnar hjá Flugfélaginu Erni er að bjóða forvitnum ferðalöngum að „sjá landið með augum arnarins“ eða upplifa það með ósviknu útsýnisflugi yfir athyglisverð náttúrufyrirbæri eins og eldfjöll, jökla og ýmis fræg kennileiti. Einnig er um að ræða vel skipulagðar ferðir sem vara allt frá nokkrum klukkutímum upp í heilan dag en þær geta falið í sér ýmsa forvitnilega afþreyingu eins og flúða- og bátasiglingar, snjósleða- og fjórhjólaferðir, hvalaskoðun, náttúruskoðun og útreiðartúra. Þetta er tilvalin leið til þess að veita íslenska náttúrufegurð beint í æð, með engum refjum, til erlendra viðskiptavina og samstarfsaðila. Í raun er hægt að sérsníða hverja slíka ævintýraferð að óskum hvers og eins. Hægt er að útvega allan þann búnað sem þarf eins og leiðsögumenn, aðbúnað, farartæki eða hvað sem er viðeigandi í hvert skipti. Hvað sem er, hvert sem er, þitt er valið.
Önnur þjónusta
Fyrir utan allt ofangreint býður Flugfélagið Ernir upp á fjölbreytta flugþjónustu sem er sniðin að mismunandi þörfum viðskiptavina. Meðal helstu verkefna að þessu leyti eru flug með áhafnir fiskiskipa, starfsmenn fyrirtækja, ljósmyndara og heilu íþróttahópana, en flugvélarnar geta rúmað allt að 19 farþega og henta því sérlega vel fyrir keppnislið á leið til og frá leikjum utan heimavallar. Hægt er að lenda á flestum smærri flugbrautum. Ef koma þarf pósti eða smáhlutum til skila með skjótvirkum hætti er Flugfrakt Ernis mjög hagkvæmur kostur. Hægt er að flytja bréf, pakkasendingar, varahluti og nánast allt svo lengi sem það rúmast í vélunum. Aðstæður á áfangastað geta verið mismunandi og í því skyni er boðið upp á svonefnda „Vöruvörpun“ (Air Drop) þar sem t.d. varahlutum eða vistum er varpað úr lofti og niður til skipa á hafi úti. Helsta markmiðið við að uppfylla þessa þjónustu er hraði og öryggi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd