Flugfreyjufélag Íslands

2022

Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) var stofnað 30. desember 1954 af 15 flugfreyjum Loftleiða sem vildu stofna félag meðal flugfreyja um hagsmunamál þeirra. Fyrsti kjarasamningurinn var gerður í janúar 1955 og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þá. FFÍ telur í dag um eitt þúsund félagsmenn og er eina stéttarfélag flugfreyja og -þjóna á Íslandi. Núverandi félagsmenn starfa hjá Icelandair í milli- og innanlandsflugi, flugfélaginu Erni og nýlega var undirritaður kjarasamningur við Niceair. Félagið er til húsa að Stórhöfða 29 í Reykjavík og hjá því starfa þrír fastir starfsmenn. Guðlaug L. Jóhannsdóttir formaður, Berglind Kristófersdóttir varaformaður og Bergdís I. Eggertsdóttir skrifstofustjóri. Meginviðfangsefni FFÍ er að standa vörð um kjaramál félagsmanna og þeirra réttindi ásamt því að bæta hag, vellíðan og öryggi í starfi.
Stjórn FFÍ er kosin á tveggja ára fresti en í henni sitja (2021-2023) auk Guðlaugar og Berglindar þau Ásdís A. Sverrisdóttir, Ástríður H. Ingólfsdóttir, Brynja R. Brynjólfsdóttir, Eyrún B. Jóhannsdóttir, Guðjón Ó. Guðmundsson og Sigríður Ásta Árnadóttir. Í trúnaðarráði sitja stjórn og varastjórn auk 16 fullgildra félagsmanna. FFÍ er aðili að ASÍ, Norræna Flutningaverkamannasambandinu NTF og Evrópska Flutningamannasambandinu ETF.

Starfsemin
Rekstur flugfélaga er háður utanaðkomandi aðstæðum og kallar á mikinn sveigjanleika. Eðli málsins samkvæmt hefur það áhrif á störf stéttarfélaga flugfólks. Má nefna í því sambandi að fjöldi fólks missti vinnuna í kjölfar falls Tvíburaturnanna 2001 og efnahagshrunsins 2008 þó ekkert í líkingu við ástandið sem skapaðist í heimsfaraldrinum 2020 þegar nær allir félagsmenn misstu skyndilega vinnuna, margir með áratuga reynslu í háloftunum. Efnahagslegir þættir setja jafnan strik í reikninginn eins og alheimshækkun á olíuverði. Við þessum þáttum þarf FFÍ jafnan að vera tilbúið að mæta og gera viðeigandi ráðstafanir þar sem félagsmönnum getur skyndilega fækkað án mikils undirbúningstíma. Undanfarin ár hafa reynt mikið á starfsemi FFÍ en fall Wow air 2019 hafði mikil áhrif á félagið þar sem FFÍ varð fyrir gríðarlegu tekjufalli auk þess sem mikil vinna fór í að sækja kröfur fyrir hönd félagsmanna til þrotabús Wow air. Í kjölfarið fylgdu langar og strangar kjaraviðræður við Icelandair sem náðu hámæli sumarið 2020. Samningaviðræðurnar voru flóknar og erfiðar en jafnan er talað um þær sem einar þyngstu viðræður sem hafa átt sér stað. Samstaða stjórnar, samninganefndar og félagsmanna FFÍ var ólýsanleg á þeim tíma og algjörlega til fyrirmyndar. Gróf aðför var gerð að stéttarfélaginu sem átti undir verulegt högg að sækja. FFÍ og félagsmenn þess stóðu keikir og stóðu af sér þann gríðarlega storm sem gekk yfir árið 2020.

Framtíðarsýn
Framtíðarsýn FFÍ er að standa vörð um réttindi- og kjaramál flugfreyja og -þjóna, efla samstöðu og stéttarfélagsvitund flugfreyja og -þjóna á Íslandi. Auk þess að eiga farsælt samstarf við flugrekendur og gerð kjarasamninga við nýja flugrekendur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd