Flugsafn Íslands var stofnað árið 1999 og hét þá Flugsafnið á Akureyri. Aðalhvatamaður að stofnun safnsins var Svanbjörn Sigurðsson fyrrverandi rafveitustjóri. Að stofnun Flugsafnsins unnu ýmsir áhugamenn um íslenska flugsögu og varðveislu gamalla flugvéla en stofnaðilar safnsins voru Vélflugfélag Akureyrar, Svifflugfélag Akureyrar, Flugmódelfélag Akureyrar, Flugfélag Íslands, Flugfélagið Atlanta, Flugleiðir, Íslandsflug og Íslenska flugsögufélagið. Safnið var opnað með formlegum hætti þann 24. júní árið 2000. Þá var haldin í fyrsta sinn svokölluð „Flughelgi“ á vegum Flugsafnsins í samvinnu við Flugmálafélag Íslands. Var þá haldið Íslandsmót í listflugi og ýmislegt fleira var á dagskránni svo sem listflugsýningar, fallhlífastökk, módelflug, útsýnisflug með þyrlu og margt fleira. Flugdagur Flugsafnsins hefur allar götur síðan verið haldinn í kringum Jónsmessu. Fyrstu árin var Flugsafnið til húsa í flugskýli sem safnið hafði á leigu og keypti þegar fram liðu stundir. Fljótlega varð ljóst að skýlið var of lítið fyrir ört vaxandi safn og var ráðist í byggingu nýs og hentugra húsnæðis við Akureyrarflugvöll og opnaði safnið á nýjum stað sumarið 2007. Á Flugsafninu er 100 ára sögu flugs á Íslandi miðlað til gesta á lifandi hátt. Sýningar safnsins leiða gesti í gegnum þróun íslensks flugs og flugfélaga frá árinu 1919 og til dagsins í dag, með flugvélum af ýmsum stærðum og gerðum, björgunarþyrlu og flugmódelum auk fjölda annarra áhugaverðra muna og ljósmynda. Sumar flugvélanna eru enn í flughæfu ástandi og er, m.a. flogið á Flugdegi og gestum er velkomið að ganga um vél Landhelgisgæslunnar, TF-SÝN. Flugsafnið er eina viðurkennda safnið á Íslandi sem stendur vörð um íslenska flugsögu. Árlega er sett upp sérsýning um afmarkaðan þátt flugsögunnar og faglegt starf safnsins hefur verið eflt. Frá árinu 2013 hafa Flugsafnið og Tækniskólinn átt afar ánægjuríkt samstarf, þar sem safnið er nýtt sem námsvettvangur fyrir flugvirkjanema skólans í tvo mánuði á ári. Þá hefur safnið verið nýtt sem vettvangur fyrir ýmsa viðburði og mannamót þar sem gestir njóta sín í einstöku umhverfi.
Stjórn og hollvinir
Allt frá upphafi hefur Flugsafnið notið mikillar góðvildar góðra bakhjarla og hugsjónamanna sem höfðu og hafa það að meginmarkmiði að standa vörð um íslenska flugsögu. Núverandi aðildarfélög Flugsafns Íslands eru; Air Atlanta Icelandic, Avion Aircraft Trading, Cirrus Consulting, Flugfélag Akureyrar, Flugfélag Íslands, Flugmódelfélag Akureyrar, Icelandair Group, Svifflugfélag Akureyrar og Vélflugfélag Akureyrar. Stjórnarformaður er Hörður Geirsson.Svanbjörn Sigurðsson var safnstjóri Flugsafnsins frá upphafi til ársins 2009. Gestur Einar Jónasson stýrði safninu eftir það um nær tíu ára skeið en núverandi safnstjóri, Steinunn María Sveinsdóttir, tók við stjórnartaumunum þann 1. nóvember 2019.
Örninn – Hollvinafélag safnsins var stofnað 4. maí 2013. Tilgangur félagsins er: „að styðja við starfsemi [safnsins] með því að aðstoða ef þörf er á, stuðla að úrbótum, leita eftir styrkjum og kynna safnið.“ Hollvinir safnsins hafa reynst safninu ómetanlegir og eru ávallt boðnir og búnir að leggja hönd á plóg.
Á vefsíðu safnsins www.flugsafn.is má finna ýmsan fróðleik um safnið og íslenska flugsögu sem og upplýsingar um opnunartíma og starfsemi safnsins hverju sinni.
Flugsafn Íslands var stofnað árið 1999 og hét þá Flugsafnið á Akureyri. Aðalhvatamaður að stofnun safnsins var Svanbjörn Sigurðsson og hefur hann verið safnstjóri frá upphafi. Að stofnun Flugsafnins unnu ýmsir áhugamenn um íslenska flugsögu og varðveislu gamalla flugvéla en stofnaðilar safnsins voru Vélflugfélag Akureyrar, Svifflugfélag Akureyrar, Flugmódelfélag Akureyrar, Flugfélag Íslands, Flugfélagið Atlanta, Flugleiðir, Íslandsflug og Íslenska flugsögufélagið. Safnið var opnað með formlegum hætti þann 24. júní árið 2000. Þá var haldin í fyrsta sinn svokalluð „Flughelgi“ á vegum Flugsafnsins í samvinnu við Flugmálafélag Íslands. Var þá haldið Íslandsmót í listflugi og ýmislegt fleira var á dagskránni svo sem listflugsýningar, fallhlífastökk, módelflug, útsýnisflug með þyrlu og margt fleira. Þessi flughelgi safnsins og Flugmálafélagsins hefur verið árlegur viðburður síðan síðustu helgina í júnímánuði.
Fyrstu árin var Flugsafnið til húsa í 450 m2 flugskýli sem leigt var af Íslandsbanka. Þetta húsnæði var síðar keypt. En það liðu ekki mörg ár áður en þetta flugskýli var orðið of lítið. Haustið 2006 var ráðist í að byggja nýtt 2.100 m2 hús og var það tekið í notkun sumarið eftir. Á Flugsafni Íslands er að finna yfir tuttugu flugvélar og loftför sem endurspegla þróun flugsins á Íslandi. Þar er að finna svifflugur, svifdreka, kennsluflugvélar, sjúkraflugvélar, farþegaflugvélar, björgunarþyrlu, heimasmíðar flugvélar og listflugvélar. Flugsafn Íslands er lifandi flugsafn og eru margar þeirra flugvéla sem þar eru til sýnis flughæfar og í reglulegri notkun.
Elsta flugvélin á safninu er Klemm L25 TF-SUX sem smíðuð var árið 1934. Þessi flugvél kom til landsins árið 1938 og var m.a. notuð við að kanna hugsanleg lendingarstaði hingað og þangað um landið. Fyrsta flugtæki Svifflugfélags Akureyrar, Grunau IX rennifluga sem smíðuð var á Akureyri veturinn 1937 til 38 hangir úr loftinu og sést vel þegar inn er komið. Það var á þessari renniflugu sem margir af elstu flugstjórum Íslands lærðu undirstöðuatriðin í fluglistinni. Fleiri gamlar svifflugur eru svífandi í lausu lofti á safni m.a. Schweizer TG-3A sem Svifflugfélagið keypti árið 1946 og Rhönlerche II frá árinu 1962. Þar er einnig Stinson Reliant flugvél af samskonar tegund og fyrsta flugvél Loftleiða en Flugsafnið fékk þessa flugvél að gjöf frá Icelandair í tilefni af 70 ára afmæli Flugfélags Akureyrar árið 2007. Af gömlum sjúkraflugvélum má nefna Auster flugvélina TF-LBP, fyrstu flugvélina sem keypt var til landsins gagngert til að sinna sjúkraflugi og Piper Apache flugvél TF-JMH, sem Tryggvi Helgason keypti til landsins árið 1959. Þessi flugvél var notuð til leigu- og sjúkraflugs um árabil en var gerð upp fyrir nokkrum árum og er sem ný að sjá. Heimasmíði flugvéla er vaxandi tómstundaiðja meðal flugáhugamanna hérlendis og eru nokkrar slíkar flugvélar til sýnis á safninu. Ennfremur eru til sýnis gamlar kennsluvélar sem margir kannast e.t.v. við eins og Piper Cub TF-CUB og Cessna 140 TF-AST. Af nýjustu sýningargripunum má nefna Aerospatiale SA.365 Dauphin björgunarþyrluna TF-SIF sem þjónaði Landhelgisgæslu Íslands í rúmlega tvo áratugi og stjórnklefa Boeing 727 „Gullfaxa“, fyrstu þotu Íslendinga sem kom til landsins árið 1967. Á Flugsafninu er ennfremur til sýnis þotuhreyfill af gerðinni Rolls-Royce RB-211 sem eitt sinn knúði eina af TriStar breiðþotum Flugfélagsins Atlanta og Pratt & Whitney R-1830 stjörnuhreyfill, þeirrar gerðar sem notaður er á Douglas DC-3. Þessi hreyfill er í láni frá Þristavinafélaginu og Landgræðslu ríkisins.
Framkvæmdastjóri Flugsafns Íslands er Svanbjörn Sigurðsson og með honum í stjórn starfar hópur virkra áhugamanna um varðveislu íslenskrar flugsögu. Stjórnarformaður safnsins er Arngrímur Jóhannsson og aðrir í stjórn eru Haukur Jónsson ritari, Þorsteinn Eiríksson gjaldkeri, Kristján Víkingsson, Orri Eiríksson, Friðrik Adolfsson og Svanbjörn Sigurðsson.
Flugsafn Íslands er opið alla daga á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst frá kl. 13:00 til 17:00 en á öðrum tímum eftir samkomulagi við safnstjórann. Í tilefni af nýju og stærra húsnæði hefur verið tekinn í notkun nýr og betri vefur Flugsafns Íslands og er slóðin www.flugsafn.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd